29 mars 2024

Föstudagurinn langi - samstöðudagur með einmana, syrgjendum og þjáðum

Þakkir: pexels.com
Sum okkar sniðganga Föstudaginn langa með einum eða öðrum hætti og hyggja fremur að þeim skemmtunum sem í boði eru á þessum degi. Frá sjónarhóli þeirra sem glíma við efasemdir um trúna mætti samt líta á Föstudaginn langa sem samstöðudag með þeim sem eru einmana, syrgja eða þjást og þeirra þarf ekki alltaf að leita langt. Sorg og þjáningu er víða að finna í okkar samfélagi en samt ekki alltaf greinilega því mörg kjósum við að bera erfiðar tilfinningar í hljóði. Mörg eiga t.d. vin eða ættingja  sem býr einn eða á hjúkrunarheimili og myndi þiggja símtal eða heimsókn.  Víðsýnt og góðviljað fólk sem tekst á við efasemdir ætti að geta tekið undir nauðsyn þess að huga að þessum málum, leyfa jafnvel Guði að njóta vafans og tala við hann innra með sér. 

21 mars 2024

30. ártíð dr. Alfreðs Jolson biskups

Dr. Alfred James Jolson S.J.
Reykjavíkurbiskup
Fæddur 18. júní 1927
Prestvígsla 14. júní 1958
Biskupsvígsla 6. febrúar 1988
Dáinn 21. mars 1994
30. ártíð dr. Alfreðs Jolsons biskups er í dag 21. mars en hann andaðist þennan dag árið 1994. Hann naut þess að blanda geði við fólk, mynda vinasambönd og átti vini og kunningja víða sem hann heimsótti gjarnan. Andlát hans bar að eftir skamma sjúkrahúsdvöl í kjölfar hjartaáfalls sem hann fékk á ferðalagi í Bandaríkjunum og var það óvænt þrátt fyrir að hann væri á 66. aldursári.

Alfreð biskup hratt í framkvæmd ýmsum umbótum innan Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi. Meðal þess sem hann beitti sér fyrir var þjónusta við innflytjendur og ferðamenn í formi reglulegs messuhalds á ensku, stofnuð var Íslandsdeild Caritas hjálparsamtakanna, hann stuðlaði að réttarbótum varðandi hjónabandsógildingar með því að senda prest í nám í kirkjurétti í Róm, beitti sér fyrir stofnun Kaþólska kirkjublaðsins og tölvuvæðingar biskupsstofunnar. 

13 mars 2024

40 ár síðan Karmelnunnur komu að nýju til Íslands

 


Á hátíð heilags Jósefs, þriðjudaginn 19. mars næstkomandi eru 40 ár liðin frá því að núverandi Karmelnunnur komu til Íslands. Áður höfðu hollenskar nunnur dvalið í klaustrinu frá 1946 til 1983. Í sögu klaustursins sem birt er á heimasíðu þess kemur eftirfarandi fram:  

„19. mars 1984 rann svo stóra stundin upp. 16 nunnur héldu til Íslands frá Póllandi. Þær yfirgáfu heimaland sitt til að biðja fyrir Íslendingum í nýju og framandi landi í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði. Í ágúst þetta sama ár gladdi frú Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti lýðveldisins nunnurnar með komu heimsókn sinni í klaustrið og bauð þær velkomnar til Íslands.“

Í tilefni af þessum tímamótum bjóða systurnar til heilagrar þakkargjörðarmessu í kapellunni að Ölduslóð 37 í Hafnarfirði. Messan hefst kl. 8.00 þriðjudaginn 19. mars. 

Hl. Jóhannes af Damaskus – Prestur, munkur og kirkjufræðari

Í dag 4. desember heiðar Kaþólska kirkjan heilagan Jóhannes af Damaskus. Hann var einn mesti guðfræðingur og rithöfundur síns tíma. Hann fæd...