![]() |
| Jón Arason Hólabiskup d. 1550 |
Jón Arason Hólabiskup fæddist árið 1484 og var sonur Ara Sigurðssonar, bónda á Laugalandi í Eyjafirði, og Elínar Magnúsdóttur, sem nefnd var bláhosa. Ari lést þegar Jón var enn barn, og ólst hann upp með móður sinni á Grýtu, kotbýli skammt frá Benediktínaklaustrinu að Munkaþverá í Eyjafjarðarsveit. Þar var ábóti Einar Ísleifsson, frændi Elínar, og hafa mæðginin líklega verið þar í skjóli hans. Þótt þröngt hafi verið í búi hjá þeim, studdi ábótinn frænda sinn og lét hann vinna fyrir mat sínum í klaustrinu. Þar hlaut Jón menntun og uppeldi í anda norrænnar fræðahefðar og kristilegrar menningar. Latínukunnátta hans þótti ekki mikil, en hann hafði góða þekkingu á norrænum ritum og skáldskap, og síðar setti hann börn sín til mennta í sama klaustri.
Árið 1507, þegar hann var 23 ára, gekk hann í þjónustu Gottskálks biskups Nikulássonar á Hólum. Sama ár var hann vígður til prests á Helgastöðum í Reykjadal og kynntist þar Helgu, sem varð fylgikona hans. Ári síðar fékk hann Hrafnagil, sem þótti eitt besta brauð í Eyjafjarðarsveit. Hann var fljótlega orðinn prófastur í héraðinu og jafnframt sýslumaður um tíma. Jón reyndist duglegur og úrræðagóður embættismaður, tryggur biskupi sínum og fór tvisvar utan í erindum hans. Þegar Gottskálk lést árið 1520 tók Jón við stjórn Hóla, og árið 1524 var hann kosinn biskup, 36 ára gamall.






