07 nóvember 2025

Jón Arason Hólabiskup (1484–1550) - dánardagur 7. nóvember

Jón Arason Hólabiskup d. 1550

Jón Arason Hólabiskup fæddist árið 1484 og var sonur Ara Sigurðssonar, bónda á Laugalandi í Eyjafirði, og Elínar Magnúsdóttur, sem nefnd var bláhosa. Ari lést þegar Jón var enn barn, og ólst hann upp með móður sinni á Grýtu, kotbýli skammt frá Benediktínaklaustrinu að Munkaþverá í Eyjafjarðarsveit. Þar var ábóti Einar Ísleifsson, frændi Elínar, og hafa mæðginin líklega verið þar í skjóli hans. Þótt þröngt hafi verið í búi hjá þeim, studdi ábótinn frænda sinn og lét hann vinna fyrir mat sínum í klaustrinu. Þar hlaut Jón menntun og uppeldi í anda norrænnar fræðahefðar og kristilegrar menningar. Latínukunnátta hans þótti ekki mikil, en hann hafði góða þekkingu á norrænum ritum og skáldskap, og síðar setti hann börn sín til mennta í sama klaustri.

Árið 1507, þegar hann var 23 ára, gekk hann í þjónustu Gottskálks biskups Nikulássonar á Hólum. Sama ár var hann vígður til prests á Helgastöðum í Reykjadal og kynntist þar Helgu, sem varð fylgikona hans. Ári síðar fékk hann Hrafnagil, sem þótti eitt besta brauð í Eyjafjarðarsveit. Hann var fljótlega orðinn prófastur í héraðinu og jafnframt sýslumaður um tíma. Jón reyndist duglegur og úrræðagóður embættismaður, tryggur biskupi sínum og fór tvisvar utan í erindum hans. Þegar Gottskálk lést árið 1520 tók Jón við stjórn Hóla, og árið 1524 var hann kosinn biskup, 36 ára gamall.

06 nóvember 2025

Blessuð Jósefa Naval Girbés, meyja og þriðju reglu Karmelíti - minning 6. nóvember

Blessuð Jósefa Naval Girbes

Jósefa Naval Girbés fæddist 11. desember 1820 í bænum Algemesí í héraðinu Valencia á Spáni og lést 24. febrúar 1893. Hún var elst fimm systkina í trúaðri fjölskyldu. Sama dag og hún fæddist var hún skírð.

Þótt skólar væru ekki aðgengilegir á hennar tíma lærði hún að lesa og skrifa og náði mikilli færni í útsaumi. Þegar hún var þrettán ára missti hún móður sína og hjálpaði föður sínum við að ala upp yngri systkini sín á heimili ömmu sinnar. Hún tók á sig mikla ábyrgð og óx upp í bæn og trúfestu. Á átján ára aldri, undir andlegri leiðsögn sóknarprests síns, helgaði hún sig Guði með heiti um ævarandi meydóm.

Hún gekk í Þriðju reglu Karmels, sem síðar varð kölluð Leikmannaregla Karmels. Í heimabæ hennar, Algemesí, má enn sjá stórt myndverk af Maríu mey undir nafni Karmelsdrottningar, útsaumað í gulli og silki undir umsjón Jósefu.

04 nóvember 2025

Heilagur Karl Borrómeus biskup - minning 4. nóvember

Heilagur Karl Borrómeus

Þegar Ítalir tala um Miklavatn hafa þeir ekki í huga hið lítt þekkta Miklavatn í Flóanum í Árnessýslu. Nei þeirra Miklavatn er frekar hið víðfeðma Lago Maggiore á norðurhluta Ítalíu. Nafnið merkir bókstaflega „hið stóra vatn“, og það á fyllilega rétt á sér: Lago Maggiore er eitt af stærstu og fegurstu stöðuvötnum Ítalíu. Vatnið liggur á mörkum Sviss og Ítalíu þar sem héraðin Piemonte og Lombardía mætast. Umlukið fjöllum og gróðursælum hlíðum endurspeglar það í vatnsfletinum fornar byggðir og klaustur sem bera vitni um trú og menningu liðinna alda.

Við suðurenda vatnsins stendur bærinn Arona, fæðingarstaður hins heilaga Karls Borrómeusar. Þar, yfir húsþökum bæjarins og blikandi vatninu, gnæfir 35 metra há stytta af dýrlingnum sem reist var á 17. öld. Hún sýnir heilagan Karl, erkibiskupinn í Mílanó í þeirri mynd sem einkenndi hann best — þegar hann blessaði. Ítalir kalla styttuna Sancarlone, „stóri Karl“. Styttan er hol að innan og hægt er að ganga upp um stiga og horfa út um augun yfir vatnið og fjöllin. Það er eins og að sjá heiminn gegnum augu hans — augum auðmýktar og kærleika. Sú sýn er hluti af andlegri arfleifð Karls Borrómeusar. En hver var þessi maður sem Ítalir sýndu þennan mikla heiður?

03 nóvember 2025

Heilagur Marteinn frá Porres - minning 3. nóvember

Heilagur Marteinn frá Porres

Heilagur Marteinn frá Porres fæddist í fátækt í Lima í Perú árið 1579. Hann var sonur spænsks aðalsmanns og þeldökku frelsingjakonunnar Önnu Velásquez, sem var hugsanlega einnig af ætt frumbyggja. Faðirinn yfirgaf þau snemma og viðurkenndi ekki son sinn fyrr en átta árum síðar. Móðirin barðist ein við að sjá fyrir börnum sínum. Marteinn var aðeins tólf ára þegar hann var sendur í nám og vinnu til rakara og skurðlæknis, þar sem hann lærði að klippa hár og hjúkra sjúkum.

Nótt eftir nótt fann hann frið í bæninni og fór að verja sífellt meiri tíma í samtal við Guð. Hann þráði að þjóna Guði, en sem fátækur, dökkur drengur átti hann enga möguleika á að gerast munkur í landi þar sem lögin bönnuðu afkomendum afrískra þræla að ganga í trúarreglu.

02 nóvember 2025

Allra sálna messa – 2. nóvember

Litur: Fjólublár. Messutexti: Jóh 6, 37–40 „Allt sem faðirinn gefur mér mun koma til mín og þann sem til mín kemur mun ég alls eigi brott reka.“

Á Allra heilagra messu í gær horfðum við upp til himins og minntumst þeirra sem þegar lifa í ljósi Guðs. Í dag, á Allra sálna messu, beinum við hugum vorum til þeirra sem enn eru á leið til fullkomins ljóss — hinna framliðnu sem við biðjum fyrir í trú og von.

01 nóvember 2025

Allra heilagra messa – stórhátíð 1. nóvember

„Hjálpræðið kemur frá Guði vorum, sem í hásætinu situr, og lambinu.“ Op.7,10. 

Í dag, 1. nóvember, fagnar kirkjan Allra heilagra messu — hátíð allra þeirra sem hafa gengið veg trúarinnar án þess að nöfn þeirra séu formlega meðal hinna þekktu dýrlinga. Þetta er dagur hins hljóða heilagleika, þeirra sem elskuðu, báðu, þjáðust, vonuðu og þjónuðu án þess að nokkur reisti þeim minnisvarða. Þeir eru afar margir, og líf þeirra myndar ósýnilega brú milli himins og jarðar.

Hátíðin á rætur sínar að rekja allt aftur til fyrstu alda kirkjunnar, þegar minnst var píslarvotta sem enginn þekkti með nafni. Seinna varð þessi dagur að sameiginlegri hátíð allra heilagra. Hún minnir okkur á að vegur heilagleikans er ekki frátekinn fyrir örfáa, heldur opinn öllum sem svara kærleika Guðs með trúfesti í hversdagslífi sínu.

31 október 2025

Herra Hinrik Frehen biskup - dánardagur 31. október 1986

Hinrik biskup Frehen

Í dag minnumst við herra Hinriks Hubert Frehen, fyrsta biskups Reykjavíkur­biskupsdæmis, sem lést 31. október 1986. Með skipun hans árið 1968 hófst nýtt tímabil í sögu kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, þar sem biskupsdæmið í Reykjavík tók við af hinu forna nafnbiskupsdæmi Hóla.

Herra Hinrik Frehen fæddist 24. janúar 1917 í Waubach í Hollandi og gekk í Montfort-regluna (S.M.M.) árið 1937. Hann var vígður prestur 18. desember 1943 og lauk doktorsprófi við háskólann í Louvain í Belgíu með ritgerð um kristfræði Pierre de Bérulle kardínála. Hann gegndi ýmsum trúboðs- og kennslustörfum innan reglunnar áður en hann var skipaður biskup á Íslandi 18. október 1968.

Jón Arason Hólabiskup (1484–1550) - dánardagur 7. nóvember

Jón Arason Hólabiskup d. 1550 Jón Arason Hólabiskup fæddist árið 1484 og var sonur Ara Sigurðssonar, bónda á Laugalandi í Eyjafirði, og Elín...