02 júlí 2025

Þingmaríumessa – forna hátíðin sem lifði í almanakinu

Þingmaríumessa. Mynd: ChatGPT

Þingmaríumessa eða Þingmáríumessa var lengi skráð 2. júlí í almanaki Háskóla Íslands. Þeir sem komnir eru yfir miðjan aldur muna líklega enn eftir nafni dagsins, þar sem það var tilgreint ásamt öðrum gömlum kirkjulegum hátíðum. Þótt messuhald á þessum degi hefði fallið niður fyrir löngu, lifði nafnið áfram sem minning um forna Maríuhátíð, sem hafði bæði trúarlega og menningarlega merkingu í íslenskri sögu.

Dagurinn var helgaður Vitjun Maríu meyjar, þegar hún heimsótti frænku sína Elísabetu og bar með sér Krist í móðurlífi sínu. Í guðspjalli Lúkasar, Lk. 1,39-56 segir að barn Elísabetu – sem síðar varð Jóhannes skírari – hafi tekið viðbragð í móðurkviði hennar. Hún fylltist Heilögum Anda og mælti fram blessunarorðin: 'Blessuð sért þú meðal kvenna og blessaður ávöxtur lífs þíns'  og María söng lofsögninn Magnificat, sem kirkjan hefur tekið upp sem kvöldbæn allt til þessa dags.



Nafnið „Þingmaríumessa“

Íslenskt heiti messunnar – hið fallega heiti Þingmaríumessa – vísar til þess að daginn bar oft upp á alþingistíma á Þingvöllum. Sameining nafna Maríu og þingsins í heiti dagsins sýnir hvernig trúarlíf og þjóðlíf fléttuðust saman í meðvitund þjóðarinnar.

Í skýringum Þorsteins Sæmundssonar stjörnufræðings, sem um árabil sá um útgáfu almanaks Háskóla Íslands, segir meðal annars:

 „Þingmaríumessa, 2. júlí, einn af messudögunum í minningu Maríu meyjar, tekinn upp á Íslandi á 15. öld. Nafnið er af því dregið að alþingi var haldið um þetta leyti árs.“ (almanak.hi.is/rim.html)

Jón Þorkelsson: gömlu nöfnin eru óhögguð
Ástæður þess að slík gömul heiti lifðu svo lengi í almanakinu má rekja til ársins 1914. Þá skrifar Jón Þorkelsson, í athugasemd um framtíð almanaksins:

„Úr sjálfu almanakinu hefur nú öllu því verið kipt burtu, sem áður hefir þar staðið og aungva verulega stoð hafði í neinum landsháttum hér eða í minningunni. Þó hefir verið farið svo varlega í það, að allir messudagarnir gömlu, sem íslensk heiti hafa feingið, hafa nær undantekningarlaust verið látnir óhaggaðir.“ (almanak.hi.is/saga.html)

Hátíðin færð í samræmi við breytingar á síðustu öld

Í Kaþólsku kirkjunni í dag er Vitjunardagur Maríu ekki lengur haldinn hátíðlegur 2. júlí. Í kjölfar Annars Vatíkanþingsins (1962-1965) var kirkjuárið endurskipulagt og almenn regla  um dagatalið sett fram árið 1969. Þá var ákveðið að færa hátíðina yfir á 31. maí, svo hún stæði í réttri biblíulegri tímaröð: Boðun Maríu (25. mars) – Vitjun Maríu (31. maí) – Fæðing Jóhannesar skírara (24. júní).

Þannig varð Vitjun Maríu jafnframt lokapunktur maímánaðar, sem hefur löngum verið helgaður hl. Maríu í helgisiðum kirkjunnar. 31. maí er því dagurinn sem Kaþólska kirkjan fagnar Vitjun Maríu í nútímanum – en nafnið Þingmaríumessa heldur áfram að minna okkur á tímabil í sögu þjóðarinnar þar sem trú og tímatal runnu saman í eina heild.


Hátíð hl. Tómasar postula - 3. júlí

„Drottinn minn og Guð minn!“ Mynd: ChatGPT Hinn 3. júlí minnist kirkjan heilags Tómasar postula. Hann er stundum kallaður „efasemdar-Tómas“,...