|
Hátíðarskapúlar unnið af Karmelnunnum í Hafnarfirði |
Kæru bræður og systur í Kristi,
Þar sem ég hef nú notið þeirra sérstöku forréttinda að bera um háls mér táknmynd Maríu um sérstaka móðurást og vernd hennar, eða svonefnt skapúlar í hartnær 30 ár, þá fór systir Agnes þess á leit við mig að ég miðlaði eilítið af mínum eigin forsendum fyrir þeirri trúfestu sem auðsýnd er Maríu Mey með því að bera herklæði hennar. En fyrst langar mig til að rifja aðeins upp forsögu Karmelreglunnar og skapúlarsins, hvernig það er til komið og um leið að skyggnast eilítið inn í táknrænt gildi skapúlarsins.
Eins og fram kom í grein sem birtist í Kirkjublaðinu í vetur, þá á Karmelreglan rætur sínar að rekja til einsetumanna, sem höfðu búsetu á Karmelfjalli á 13. öld, þar sem þeir byggðu sér snemma kapellu til heiðurs Himnadrottningarinnar, Maríu Meyjar, sem þeir voru reyndar einnig kenndir við. (The Brothers of Our Lady of Mount Karmel) Þar að auki helguðu þeir sérstakri messu Maríu. Nokkrum árum eftir að Karmelreglan var rituð í kringum 1209 brutust miklar óeirðir út í Palestínu og jafnframt ofsóknir gegn Karmel einsetumönnum. Þeir flýðu því til Evrópu þar sem þeim var ekki beinlínis tekið opnum örmum af öðrum reglum sem fyrir voru.