09 júní 2025
Heilög María – móðir kirkjunnar - mánudagur eftir hvítasunnudag
Mánudaginn eftir hvítasunnu, heldur Kaþólska kirkjan á Íslandi og um víða veröld hátíð heilagrar Maríu meyjar, móður kirkjunnar. Þessi dagur er ung hátíð í alþjóðlega kirkjuárinu – Frans páfi stofnaði hana árið 2018 – en hátíðin á djúpar rætur í lifandi trú kirkjunnar allt frá frumkristni. Það var einmitt undir krossi Krists sem María varð móðir nýrrar fjölskyldu: kirkjunnar.
Guðspjall dagsins (Jh 19,25–34) lýsir hinni þögulu, djúpu samveru hl. Maríu við Son sinn þegar hann deyr. Þarna stendur hún, með örfáum fylgjendum Jesú, á meðan flestir hafa flúið. Í þessari stund, sem virðist einkennast af niðurlægingu og dauða, opnast ný sýn. Jesús horfir af krossinum og segir við lærisveininn: „Sjá, þarna er móðir þín.“ Og við Maríu: „Sjá, þarna er sonur þinn.“
Með þessum orðum gefur Jesús Maríu nýtt hlutverk – ekki aðeins sem veraldlegri móður Jóhannesar því þarna er hann fulltrúi kristindómsins. Við getum séð okkur í honum. Þetta er ekki bara tilfinningaleg kveðja eða hagnýt ráðstöfun við dauðastund, heldur opinberun: Kirkjan - hinn andlegi líkami, sem lifnaði af andardrætti hins Heilaga anda í gær á hvítasunnu, fæðist með andlegri móður – og móðirin er María.
Í móðurhlutverkinu býr kærleikur sem nær yfir allan heiminn
Í María sjáum við fyrirmynd kirkjunnar: trúfesti, íhugun, móttækileika fyrir Guði og kærleika til bræðra og systra. Hún stígur ekki fram í forystuhlutverki né kennir með valdi, heldur kemur með nærveru, hlustun og örlæti – eiginleikum sem kirkjan er kölluð til að tileinka sér í allri sinni þjónustu.
Það er táknrænt að kirkjan heiðri hana sem móður kirkjunnar einmitt daginn eftir hvítasunnu. Kirkjan sem fæðist af eldi Heilags anda á hvítasunnu þarf næringu, öryggi og hjarta – og í Maríu hefur hún það móðurhlutverk sem umvefur hana með hlýju.
Hver er móðir þín?
Þegar Jesús segir: „Sjá, þarna er móðir þín,“ þá talar hann ekki aðeins til einstaklingsins, heldur einnig til samfélagsins. Við erum öll lærisveinninn sem stendur við hlið Maríu. Kirkjan er ekki eingöngu stofnun eða kenningarbygging – hún er samfélag fólks sem lærir að elska í nafni Jesú, með Maríu sem fyrirmynd. Hún er samfélag þeirra sem leyfa Kristi að mynda ný tengsl sem eru sterkari en blóðböndin – tengsl Heilags anda.
Þessi stund við krossinn undirstrikar líka bræðralag allra kristinna manna. Þótt við séum af ólíkum þjóðum, hefðum og kirkjudeildum, þá höfum við sameiginlega móður og sameiginlega uppruna í kærleika Krists. Í Maríu speglast sú eining sem Kristur bað um í bæn sinni: „Að allir verði eitt.“ Þegar við horfum til hennar sem móður kirkjunnar, horfum við líka til þeirrar dýpri köllunar sem felst í því að viðurkenna hvert annað sem systkini í trúnni – og þrá þá einingu sem Jesús gaf líf sitt fyrir.
„Þarna er móðir þín.“
Í þessum orðum er boðskapur til hvers og eins: Þú ert ekki einn. Þú átt móður sem gengur með þér í trúnni. María stendur enn undir krossum heimsins – þar sem lífið er erfitt, þar sem vonin virðist veik. Hún stendur þar – og biður með kirkjunni og fyrir henni.
Hl. Aloisíus Gonzaga reglubróðir - minning 21. júní
Hl. Aloisíus Gonzaga - mynd: ChatGPT „Leitið fyrst ríkis Guðs og réttlætis hans.“ (Mt 6,33) Í dag minnumst við heilags Aloisíusar Gonzaga (1...