![]() |
| Heilagir Tímóteus og Títus |
Umhverfis Pál postula stóð ekki aðeins fjöldi nafnlausra fylgjenda heldur menn sem urðu burðarstoðir hinnar ungu kirkju. Tveir þeirra skera sig sérstaklega úr: hinir heilögu Tímóteus og Títus. Annar alinn upp í gyðinglegri trú, hinn heiðingi að uppruna. Annar umskorinn, hinn ekki. Í þeim sameinar Páll tvo heima – lögmálið og trúna, hefð og nýjung, Ísrael og þjóðirnar. Þeir urðu ekki aðeins ferðafélagar hans heldur arftakar í þjónustunni, biskupar og hirðar sem báru ábyrgð á lifandi söfnuðum í flóknum borgum hins grísk-rómverska heims.
Æviágrip Tímóteusar
Heilagur Tímóteus fæddist í Lýstru í Litlu-Asíu. Móðir hans var gyðingakona, trúuð, en faðirinn heiðingi. Þegar Páll fór þar um í annarri trúboðsferð sinni fékk Tímóteus þann vitnisburð að „bræðurnir í Lýstru og Íkóníum báru honum gott orð“ (Post.16,2). Páll tók hann með sér sem samverkamann og lét umskera hann „sökum Gyðinga er voru í þeim byggðum því að allir vissu þeir að faðir hans var grískur“ (Post.16,3) svo ekkert yrði að hindrun í boðuninni.
Hann ferðaðist með Páli um Litlu-Asíu, til Makedóníu, Aþenu og Þessalóníku og síðar til Korintu. Hann varð nánasti trúnaðarvinur postulans, sendiboði hans og fulltrúi í erfiðum málum. Samkvæmt fornum heimildum varð Tímóteus síðar fyrsti biskup Efesusar, einnar mikilvægustu kristnu borgar samtímans.
Í bréfum sínum talar Páll til hans eins og föður til sonar. Hann hvetur hann til staðfestu, hreinlífis, trúmennsku og hugrekkis: Tímóteus átti að standa vörð um heilbrigða kenningu og leiða söfnuðinn með kærleika og aga.
Æviágrip Títusar
Heilagur Títus var af grískum, heiðnum uppruna. Hann snerist til trúar fyrir starf Páls og varð brátt einn af nánustu samverkamönnum hans. Páll tók hann með sér til Jerúsalem á tíma postulafundarins, þegar deilt var um hvort heiðnir menn þyrftu að taka á sig gyðingleg lög. Títus var ekki umskorinn – og varð þannig lifandi tákn þess að kristin trú væri fyrir allar þjóðir, án aðgreiningar.
Títus fékk erfið verkefni. Páll sendi hann til Korintu, þar sem sundrung og ágreiningur ríkti. Þar tókst honum að koma á friði milli safnaðarins og postulans. Páll kallar hann „félaga sinn og starfsbróður“ (2 Kor. 8,23). Síðar virðist Títus hafa orðið biskup á Krít, þar sem hann átti að skipa öldunga í söfnuðunum og móta kirkjulegt líf í nýju og brothættu kristnu samfélagi.
Tilvitnun
„Því að ekki gaf Guð okkur anda hugleysis heldur anda máttar og kærleiks og stillingar.“
(2 Tím. 1,7)
„Því að náð Guðs hefur opinberast til sáluhjálpar öllum mönnum. Hún kennir okkur að afneita óguðleik og veraldlegum girndum og lifa hógátlega, réttvíslega og guðrækilega í heimi þessum.“
(Tít. 2,11–12)
Lærdómur
Í hinum heilögu Tímóteusi og Títusi sjáum við að kirkjan byggist ekki aðeins á stórum persónum heldur á trúföstum samverkamönnum. Þeir stóðu í skugga Páls – en án þeirra hefði starf hans ekki borið þann ávöxt sem við þekkjum. Þeir minna okkur á að fagnaðarerindið brýtur niður múra. Annar var af gyðinglegum rótum, hinn grískur heiðingi. Í Kristi urðu þeir bræður og samstarfsmenn. Kirkjan er ekki bundin menningu, þjóðerni eða siðum – hún er köllun til allra. Þeir sýna einnig að þjónusta fagnaðarerindisins er bæði andleg og skipulagsleg. Heilagleiki er ekki óreiða heldur líf í sannleika og reglu. Guð vinnur með brothætt fólk: Tímóteus þarf að fá að heyra að hann megi ekki láta óttann ráða för, heldur treysta náðinni sem styrkir hið veikburða.
Hirðisbréfin – gluggi inn í kirkjulíf fyrstu aldar
Bréfin til Tímóteusar og Títusar eru kölluð hirðisbréf vegna þess að þau snúast um hið daglega líf kirkjunnar. Þar sjáum við kirkjuna ekki lengur sem hreyfingu við upphaf vegferðar sinnar heldur sem samfélag sem þarf að lifa, vaxa, skipuleggja sig og varðveita trúna. Þar er talað um biskupa, öldunga og djákna, um ábyrgð þeirra og andlegt þroskastig. Leiðtoginn á að vera vammlaus, gestrisinn, hófsamur og trúfastur í kenningu. (1 Tím. 3, 2-3 og Tít. 1,7-9) Embætti í kirkjunni er þjónusta sem byggir á persónulegum heilagleika.
Bréfin sýna líka raunveruleg vandamál safnaðanna: rangar kenningar, tilgangslausar deilur og hætta á siðferðilegu sleni. Trúin á að birtast í breyttu líferni – í hófsemi, réttlæti, kærleika og góðum verkum. Sérstaklega merkilegt er hvernig náð og fræðsla tengjast: náð Guðs „kennir okkur“ (Tít. 2, 11-12). Kristið líf er þjálfun hjartans. Kirkjan er eins konar skóli, þar sem menn læra að lifa sem ný sköpun í heimi sem er enn brotinn. Þannig verða hirðisbréfin spegill af kirkju á leið frá frumstigi til festu: hún lifir af trú en þarf líka skipan; hún boðar frelsi en kallar jafnframt til ábyrgðar. Þetta er kirkjan sem við þekkjum enn.
Bæn
Guð, faðir vor,
þú sem kallaðir heilaga Tímóteus og Títus
til að bera fagnaðarerindið áfram eftir daga postulanna,
gef oss sama trúfasta hjarta.
Kenndu oss að þjóna kirkju þinni
með auðmýkt, staðfestu og kærleika,
hvort sem vér stöndum í forystu eða í hljóðlátri þjónustu.
Lát oss, líkt og þá,
vera brú milli manna,
sáttargjörðarmenn í ágreiningi
og varðmenn sannleikans í kærleika.
Fyrir Krist, Drottin vorn.
Amen.
