24 febrúar 2025

Heilög Teresía Margrét af hinu Heilaga Hjarta

Heilög Teresía Margrét af hinu Heilaga Hjarta (1747–1770) var Karmelnunna sem lifði stutta ævi en skildi eftir sig djúp andleg áhrif. Hún fæddist sem Anna Maria Redi í Arezzo á Ítalíu og ólst upp í trúuðu og velmegandi umhverfi. Hún sýndi snemma guðræknislega köllun og gekk sextán ára gömul í Karmelregluna í Flórens.

Frá fyrstu stund bar líf hennar vott um djúpa auðmýkt, hlýðni og þrá eftir einingu við Guð. Hún tók sér nafnið Teresía Margrét af hinu Heilaga Hjarta og hafði sérstaka hollustu við hið helga Hjarta Jesú. Hugleiðing hennar um kærleika Guðs varð kjarni andlegs lífs hennar, og hún var snortin af orðum úr fyrsta Jóhannesarbréfi: „Deus caritas est“ – Guð er kærleikur. Þessi sannleikur leiddi hana til þess að leggja áherslu á þjónustu við aðra og sýna djúpa miskunnsemi, sérstaklega gagnvart sjúkum og þjáðum.

Teresía Margrét lifði einföldu en djúpu bænalífi, þar sem hún tengdi sig stöðugt Guði í hljóðri íhugun. Hún var ekki þekkt fyrir vitranir eða yfirnáttúrulegar upplifanir, heldur fyrir hreina elsku og algjöra sjálfsafneitun. Hún var oft nefnd „huldi dýrlingurinn“, því hún reyndi að fela dyggðir sínar fyrir öðrum og lifði á hógværan hátt innan klaustursins.

Ein saga úr lífi hennar sýnir auðmýkt hennar og kærleika. Hún starfaði í sjúkrastofu klaustursins og bauðst til þess að annast þá sjúklinga sem voru mest krefjandi, þar á meðal eina af systrum hennar í klaustrinu, sem þjáðist af heilabilun og gat verið árásargjörn. Teresía Margrét sýndi henni óþrjótandi þolinmæði og kærleika, þrátt fyrir erfiðleikana sem því fylgdi. 

Undir lok lífs síns upplifði hún mikinn bænaþurrk, sem er ástand vantrúar og upplifun þess sem biður að fá ekki bænasvör. Hún upplifði ógeð á bænum, skort á tilfinningum, ótta, freistingar og andúð á dyggðum. Í þessu ástandi reyndi hún að auka trú sína, dró sig meira í hlé og treysti á Guð, las sálma, setningar úr biblíunni eða fór með orðatiltækið: „Góði Faðir!“ Hún var með ástríðu fyrir lestri frá barnæsku, en undir lokin gat hún aðeins lesið rit heilagrar Teresu frá Avíla

Hún lést fyrir aldur fram, aðeins 22 ára gömul, eftir stutt en sársaukafull veikindi. Samtímamenn hennar lýstu því hvernig hún sýndi ótrúlegt þolgæði og innri gleði síðustu stundir sínar. Eftir andlát hennar varð líf hennar mörgum innblástur, og hún var lýst heilög 13. mars árið 1934 af Píusi XI páfa. Líf hennar var svo heilagt að líkami hennar varðveittist óskemmdur og er enn til sýnis í klausturkirkju karmelítanna í Flórens.

Heilög Teresía Margrét er fyrirmynd þeirra sem þrá að lifa kærleikanum í hljóði og einfaldleika, í fullri einingu við Guð. Í heimi þar sem hávær tjáning og sýnilegur árangur virðast oft skipta mestu máli, minnir hún okkur á að heilagleikinn getur falist í hinu smáa, hinu hljóða og hinum innilega og heilaga kærleika til Guðs og manna. Hún á að þessu leiti margt sameiginlegt með heilagri Thérèse frá Lisieux, sem lifði rúmlega hundrað árum síðar og lagði áherslu á einfaldleika og auðmýkt í þjónustu við Guð. Þótt ekki sé ljóst hversu mikið Thérèse þekkti til Teresíu Margrétar, þá er andi hennar sannarlega til staðar í karmelísku hefðinni sem mótaði hinn unga og mun þekktari dýrling frá Lisieux.

Eitt af orðatiltækjum heilagrar Teresíu Margrétar sem hefur orðið mörgum innblástur er: „Við skulum lifa fyrir kærleikann, því kærleikurinn mun aldrei svíkja okkur.“ Þessi orð endurspegla anda hennar og köllun til að lifa í algjörri einingu við Guð með kærleikann að leiðarljósi.

https://www.carmelitaniscalzi.com/en/who-we-are/our-saints/st-teresa-margaret-redi/

https://www.stteresamargaret.org/

Hl. Maximilian frá Theveste - minning 12. mars

Hl. Maximilian frá Theveste, einnig þekktur sem Maximilian frá Tebessa, var ungur kristinn maður sem varð píslarvottur árið 296 vegna trúar ...

Mest lesið