![]() |
| Heilagur Silvester I páfi vígir biskup |
Silvestrimessa markar lok ársins og leiðir hugann að einu mestu umbreytingarskeiði í sögu kirkjunnar. Heilagur Silverster I var fyrsti páfi Rómar sem gegndi embætti sínu alfarið eftir að kristni hafði öðlast löglegt frelsi með Mílanótilskipuninni. Á hans dögum gekk kirkjan út úr skugga ofsókna inn í dagsljós opinberrar trúariðkunar. Þetta var tími endurreisnar, gleði og nýrrar ábyrgðar.
Æviágrip
Samkvæmt Liber Pontificalis, safni stuttra æviágripa páfa frá fyrstu öldum kirkjunnar var Silverster sonur Rómverja að nafni Rufinus. Hann var kjörinn páfi árið 314, skömmu eftir lát forvera síns, Miltíadesar. Páfatíð hans féll saman við stjórnartíð Konstantínusar mikla, keisara sem studdi kirkjuna og skapaði henni nýtt rými í hinu rómverska samfélagi.
Á þessum árum hófst tími mikilla kirkjubygginga í Róm. Með stuðningi keisarans risu hinar miklu konstantínsku basilíkur: hin fyrsta Péturskirkja á Vatíkanhæð, reist beint yfir grafreit Péturs postula. Til þess var hluti hæðarinnar jafnaður og byggt yfir fornan grafreit, sem undirstrikar vilja keisarans til að heiðra postula Krists á áberandi hátt. Kirkjan varð frá upphafi helsti pílagrímsstaður Rómar og tákn þess að kirkjan var ekki lengur ofsótt, heldur reist í friði og opinberum sýnileika.
Á sama tíma risu Lateranbasilíkan og skírnarhúsið við hlið hennar, sem varð dómkirkja páfans, svo og kirkja hins heilaga kross í Jerúsalem og Pálskirkja utan múranna. Þótt Silverster hafi ekki sjálfur verið arkitekt þessara mannvirkja, er páfatíð hans órjúfanlega tengd þessu upphafi kristinnar Rómar..
Minning hans tengist þó sérstaklega kirkju heilags Marteins og Silversters í Monti-hverfinu, hinu forna titulus Equitii — elsta safnaðarsetri kristinna manna á þessum stað, kennt við prestinn Equitius sem lagði hús sitt til guðsþjónustu — sem stendur enn og vitnar um frumkristið borgarlíf.
Kirkjuþing og trúardeilur
Óvíst er hversu virkan þátt Silverster tók í helstu trúardeilum samtímans. Hann var ekki sjálfur viðstaddur kirkjuþingið í Arles né hið fyrsta allsherjarþing kirkjunnar í Nikeu, þar sem aríanismi var fordæmdur. Þangað sendi hann fulltrúa sína, og þinginu stýrði Hosius frá Kórdóvu. Heimildir gefa þó til kynna að Silverster hafi notið mikillar virðingar fyrir trúfesti sína og staðfestu.
Trúarjátari kirkjunnar
Þótt hann hafi ekki liðið píslarvættisdauða, var Silverster heiðraður af samtíðarmönnum sem confessor fidei – trúarjátari. Líf hans bar vitni um trú sem var lifuð af heilindum á tímum þegar kirkjan þurfti að læra að lifa í friði, ekki síður en hún hafði lært að lifa í þjáningu.
Litúrgía og kirkjulíf
Á dögum Silversters mótaðist hið opinbera trúarlíf kirkjunnar í friði í fyrsta sinn. Hefð er fyrir því að rekja samningu hins elsta rómverska píslarvottatals til páfatíðar hans, og nafn hans tengist einnig þróun kirkjusöngs og helgihalds í Róm. Kirkjan varð ekki lengur samkunda í felum, heldur samfélag sem safnaðist saman í vígðum guðshúsum til lofgjörðar og sakramenta.
Saga hátíðarinnar
Silvestrimessa á rætur sínar í minningardegi Silverster I páfa, sem samkvæmt kirkjuhefðinni lést 31. desember árið 335. Af þeirri ástæðu var dagurinn frá fornu fari kenndur við hann í kirkjulegum almanökum, þar sem hann birtist einfaldlega sem Sylvester eða Sancti Silvestri papae. Upphaflega var því um að ræða minningardag dýrlings, ekki sérstaka hátíð í eiginlegum skilningi.
Þar sem minningardagurinn féll saman við lok ársins, þróaðist þó smám saman sú venja að tengja hann við þakkargjörð fyrir liðið ár og bæn um blessun fyrir hið nýja. Þessi tenging er ekki sprottin af formlegri kirkjutilskipun, heldur af þjóðlegri hefð, einkum í Evrópu.
Í íslenskum heimildum má sjá þessa þróun endurspeglast í heitum dagsins. Í almanaki Þjóðvinafélagsins frá 19. öld er 31. desember einfaldlega nefndur Sylvester, en á 20. öld festist heitið Silvestrimessa í sessi. Nafnið vísar þannig ekki aðeins til dýrlingaminnis, heldur einnig til messuhalds og íhugunar á tímamótum ársins, þar sem kirkjan sameinar minningu heilags Silversters við þakkargjörð og von.
Tilvitnun
„Þegar þessi bjarti og geislandi dagur, sem ekkert ský myrkvaði, skein með himnesku ljósi á kirkjur Krists um allan heim, deildu jafnvel þeir sem standa utan samfélags vors einhverju af þeirri blessun sem Guð hafði veitt oss. Oss sem höfðum gjört Krist að hæli var þetta umfram allt ólýsanleg gleði og himnesk hamingja skein af hverri ásjónu.“
— Evsebíus frá Sesareu, Kirkjusaga (Lib. X), texti úr íslenskri þýðingu tíðabænabókar kirkjunnar
Militia Aurata
Heilagur Silverster er verndardýrlingur riddarareglunnar Militia Aurata, „hinnar gullnu sporareglu“. Samkvæmt hefð var hún stofnuð af Konstantínusi sjálfum. Á 19. og 20. öld var reglan endurskipulögð af páfunum Gregoríusi XVI og Píusi X og starfar hún enn í dag með fjórum stigum riddara og heiðurskvenna (dame).
Lærdómur
Minning Silversters I minnir okkur á að friður og frelsi eru ekki sjálfgefin, heldur gjöf sem ber að nýta af ábyrgð. Hann var páfi á tímum þar sem kirkjan þurfti að læra að vera ekki lengur í felum heldur í dagsljósinu – að byggja upp, sameina og þjóna.
Bæn
Guð almáttugur,
þú sem leiddir kirkju þína úr skugga ofsókna inn í ljós friðarins,
veittu oss, að fyrirmynd heilags Silversters páfa,
að nota frelsi vort til að byggja upp líkama Krists
í einingu, trúfesti og kærleika.
Fyrir Drottin vorn Jesú Krist. Amen.
