![]() |
| Heilagur Karl Borrómeus |
Þegar Ítalir tala um Miklavatn hafa þeir ekki í huga hið lítt þekkta Miklavatn í Flóanum í Árnessýslu. Nei þeirra Miklavatn er frekar hið víðfeðma Lago Maggiore á norðurhluta Ítalíu. Nafnið merkir bókstaflega „hið stóra vatn“, og það á fyllilega rétt á sér: Lago Maggiore er eitt af stærstu og fegurstu stöðuvötnum Ítalíu. Vatnið liggur á mörkum Sviss og Ítalíu þar sem héraðin Piemonte og Lombardía mætast. Umlukið fjöllum og gróðursælum hlíðum endurspeglar það í vatnsfletinum fornar byggðir og klaustur sem bera vitni um trú og menningu liðinna alda.
Við suðurenda vatnsins stendur bærinn Arona, fæðingarstaður hins heilaga Karls Borrómeusar. Þar, yfir húsþökum bæjarins og blikandi vatninu, gnæfir 35 metra há stytta af dýrlingnum sem reist var á 17. öld. Hún sýnir heilagan Karl, erkibiskupinn í Mílanó í þeirri mynd sem einkenndi hann best — þegar hann blessaði. Ítalir kalla styttuna Sancarlone, „stóri Karl“. Styttan er hol að innan og hægt er að ganga upp um stiga og horfa út um augun yfir vatnið og fjöllin. Það er eins og að sjá heiminn gegnum augu hans — augum auðmýktar og kærleika. Sú sýn er hluti af andlegri arfleifð Karls Borrómeusar. En hver var þessi maður sem Ítalir sýndu þennan mikla heiður?
Æviágrip
Karl Borrómeus fæddist árið 1538 í Arona við Lago Maggiore, annar sonur Gilbertos og Margrétar. Þegar hann var tólf ára fékk hann heiðurstitil sem forstöðumaður nálægs Benediktínaklausturs og þar með miklar tekjur, en hann gaf þær allar fátækum. Hann lagði stund á lögfræði í Pavía og lauk doktorsprófi í bæði kirkju- og borgaralögum aðeins 21 árs. Þegar eldri bróðir hans andaðist var honum ráðlagt að snúa sér að umsýslu fjölskyldueignanna, en hann valdi þjónustu Guðs. Hann var vígður til prests árið 1563, 25 ára að aldri, og skömmu síðar vígður biskup. Hann tók þátt í síðari áföngum kirkjuþingsins í Trent og varð einn helsti forvígismaður umbóta kirkjunnar. Hann tók þátt í gerð „Trent-trúfræðsluritsins“ og varð einn helsti forvígismaður hinnar innri endurnýjunar kaþólsku kirkjunnar sem átti sér stað sem andsvar við hugmyndum mótmælenda.
Þegar hann tók við erkibiskupsembætti í Mílanó aðeins 27 ára gamall, beitti hann sér af öllu afli í þágu þess að fylgja eftir ákvörðunum Trentþingsins. Hann heimsótti hvert einasta sóknarhérað þrisvar sinnum, stofnaði prestaskóla, byggði kirkjur, sjúkrahús og skóla, stofnaði félag veraldlegra presta sem nefndust Oblatar heilags Karls, og gaf ættarauð sinn til hjálpar þurfandi. Hann vissi að trúverðug umbót hlyti að byrja á hirðunum sjálfum. Hann hvatti presta og trúarbræður til að lifa í bænahaldi og iðrun og minnti á að „sálir vinnast á hnjánum“. Hann skrifaði:
„Ef starf yðar er að kenna og prédika leggið þá stund á fræði yðar af kostgæfni og helgið yður öllu því sem nauðsynlegt er til að þér rækið starf yðar vel. Sjáið til þess að þér prédikið fyrst með líferni yðar. Ef þér gjörið það ekki mun fólkið taka eftir því að þér segið eitt en lifið með öðrum hætti. Þá munu orð yðar einungis uppskera hæðnishlátur og háðuglega munu menn hrista höfuðið. Stýrir þú sókn? Sé svo, ekki vanrækja sóknina í yðar eigin sál, ekki gefa öðrum svo mikið af sjálfum yður að þér eigið ekkert eftir fyrir yður sjálfa. Þér eigið að minnast lýðs yðar án þess að gleyma yður sjálfum.“ Heimild: Tíðabænabók kaþólsku kirkjunnar.
Vinnusemi hans og óhagganleg afstaða gegn spillingu og misnotkun valds vakti þó andstöðu. Ein hreyfing sem kölluð var „Hin auðmjúku“ (Humiliati) reyndi jafnvel að ráða hann af dögum. Skotið sem átti að svipta hann lífi stöðvaðist á klæðnaði hans og hann hélt áfram starfi sínu ótrauður. Hann var sannur hirðir sem, eins og Frans páfi minnti á síðar, „vildi að biskupar væru þjónar Guðs og feður fólksins, einkum hinna fátæku.“
Árin 1576 og 1577 gekk plága í Mílanó. Íbúarnir þjáðust af hungri og sjúkdómum og treystu á erkibiskup sinn. Karl sýndi þeim ótrúlega fórnfýsi: hann seldi eigur sínar til að hjálpa þurfandi, heimsótti sjúka og gaf sjálfan sig í þjónustu þeirra. Hann stóð við einkunnarorð sitt, Humilitas – auðmýkt. Þessir atburðir gengu síðar undir heitinu „plága heilags Karls“, og urðu hluti af sögusviði ítalska skáldsins Manzoni í verkinu I Promessi Sposi:
Verkið gerist á 17. öld í Lombardíu, á tíma spænskra yfirráða á Ítalíu. Hún segir frá Renzo og Luciu, tveimur trúlofuðum ungmennum sem vilja giftast en verða fórnarlömb óréttlætis, spillingar og sóttarfaraldurs. Þau eru aðskilin af illum mönnum og valdi en halda fast við trú, von og kærleika þrátt fyrir erfiðleika. Í gegnum söguna fléttar Manzoni saman ádeilu á óréttlæti samfélagsins, andlegan vöxt einstaklinganna og trúarlega sýn á mannlegan þroska og fyrirgefningu.
Í síðari hluta bókarinnar, þegar plágan í Mílanó 1630 geisar (Manzoni sækir sögulega fyrirmynd til plágunnar á dögum Karls Borrómeusar), birtist heilagur Karl sem siðferðilegt og andlegt ljós.
Manzoni lýsir honum sem fyrirmynd góðs hirðis, sem stendur við hlið fólksins í þjáningum þess. Hann hafði látist meira en hálfri öld fyrr, en í vitund þjóðarinnar var hann orðinn tákn kærleika, trúmennsku og þjónustu í plágu og neyð. Þannig verður hann að eins konar lifandi samvisku sögunnar.
I Promessi Sposi er skyldulesning í ítölskum skólum enn í dag. Hún mótaði bæði sameiginlega tungu Ítala og siðferðislega sjálfsmynd þjóðarinnar eftir sameiningu landsins. Áhrifum Manzonis á Ítalíu hefur verið líkt við áhrif Tolstojs og Dostojevskíjs í Rússlandi.
Í síðari hluta bókarinnar, þegar plágan í Mílanó 1630 geisar (Manzoni sækir sögulega fyrirmynd til plágunnar á dögum Karls Borrómeusar), birtist heilagur Karl sem siðferðilegt og andlegt ljós.
Manzoni lýsir honum sem fyrirmynd góðs hirðis, sem stendur við hlið fólksins í þjáningum þess. Hann hafði látist meira en hálfri öld fyrr, en í vitund þjóðarinnar var hann orðinn tákn kærleika, trúmennsku og þjónustu í plágu og neyð. Þannig verður hann að eins konar lifandi samvisku sögunnar.
I Promessi Sposi er skyldulesning í ítölskum skólum enn í dag. Hún mótaði bæði sameiginlega tungu Ítala og siðferðislega sjálfsmynd þjóðarinnar eftir sameiningu landsins. Áhrifum Manzonis á Ítalíu hefur verið líkt við áhrif Tolstojs og Dostojevskíjs í Rússlandi.
Árið 1578 fór heilagur Karl fótgangandi í pílagrímsferð til Tórínó til að sjá Hið heilaga líkklæði, sem að hans beiðni var flutt þangað frá Frakklandi.
Eftir margra ára þjónustu dvínaði heilsan. Karl Borrómeus lést 3. nóvember 1584, aðeins 46 ára að aldri. Hann var tekinn í tölu blessaðra árið 1602 af Klemensi VIII páfa og tekinn í tölu heilagra árið 1610 af Páli V páfa. Líkamleifar hans eru til heiðurs geymdar í dómkirkjunni í Mílanó.
Tilvitnun
„Sálir vinnast á hnjánum.“ – Heilagur Karl Borrómeus
Lærdómur
Heilagur Karl Borrómeus sýnir að sá sem boðar orðið á að prédika fyrst með líferni sínu. Hann hvatti presta sína til að gleyma ekki sál sinni í þjónustu við aðra og að láta allt sem þeir gjörðu verða kærleiksverk, sprottið úr samveru við Guð.
Bæn
Guð, þú gafst kirkju þinni í heilögum Karli Borrómeusi trúfastan hirði sem elskaði þig af öllu hjarta og þjónustaði þína fátæku. Veit okkur, sem heiðrum minningu hans, að endurnýjast í trú og kærleika svo við fylgjum fordæmi hans.
Fyrir Drottin vorn Jesú Krist, son þinn, sem lifir og ríkir um aldir alda. Amen.
