06 nóvember 2025

Blessuð Jósefa Naval Girbés, meyja og þriðju reglu Karmelíti - minning 6. nóvember

Blessuð Jósefa Naval Girbes

Jósefa Naval Girbés fæddist 11. desember 1820 í bænum Algemesí í héraðinu Valencia á Spáni og lést 24. febrúar 1893. Hún var elst fimm systkina í trúaðri fjölskyldu. Sama dag og hún fæddist var hún skírð.

Þótt skólar væru ekki aðgengilegir á hennar tíma lærði hún að lesa og skrifa og náði mikilli færni í útsaumi. Þegar hún var þrettán ára missti hún móður sína og hjálpaði föður sínum við að ala upp yngri systkini sín á heimili ömmu sinnar. Hún tók á sig mikla ábyrgð og óx upp í bæn og trúfestu. Á átján ára aldri, undir andlegri leiðsögn sóknarprests síns, helgaði hún sig Guði með heiti um ævarandi meydóm.

Hún gekk í Þriðju reglu Karmels, sem síðar varð kölluð Leikmannaregla Karmels. Í heimabæ hennar, Algemesí, má enn sjá stórt myndverk af Maríu mey undir nafni Karmelsdrottningar, útsaumað í gulli og silki undir umsjón Jósefu.


Þjónusta í sókn og samfélagi - andlegt líf og starf
Hún lifði einföldu lífi og framfleytti sér af útsaumi og handverki, einkum við gerð altarisklæða og helgigripa fyrir kirkjuna. Hún tók aldrei greiðslur fyrir kennslu sína, heldur lifði af eigin vinnu og örlítilli samhjálp þeirra sem hún hjálpaði. Líf hennar var vitnisburður um traust á forsjón Guðs. 

Á tímum þegar leikmenn í þriðju reglu reyndu að líkja eftir klausturlífi reyndi blessuð Jósefa að lifa í anda Karmels í sinni eigin veraldlegu aðstöðu. Hún leit á sókn sína sem móður í trúnni og í náðinni, og hún elskaði hana af hjarta. Hún sýndi presti sínum einlæga virðingu og fylgdi andlegri leiðsögn hans með trúfesti og auðmýkt. Hún sá til þess að kirkjan væri hrein og vel tilhöfð. Hún tók þátt í messunni dag hvern og var í stöðugu samfélagi við altarissakramentið.

Trú hennar var þó ekki bundin við kirkjuna eina, því hún taldi kristna menn eiga að vera salt jarðar og ljós heimsins. Hún vildi að líf hennar vitnaði um Krist bæði með orðum og verkum. Hún kenndi fátækum og ráðlagði þeim sem leituðu til hennar, færði sundruðum fjölskyldum frið og skipulagði reglulega fundi fyrir mæður á heimili sínu til að styrkja þær í kristinni trú. Hún tók á móti konum sem höfðu villst af leið og hjálpaði þeim að snúa aftur á veg dyggðarinnar.

Helsta starf hennar var þó að kenna ungu fólki bæði lífsleikni og trú. Á heimili sínu hóf hún kennslu í ókeypis útsaumsnámi, þar sem stúlkur lærðu handverk, en einnig bæn og guðsótta. Þessi vinnustofa varð að bænahúsi, þar sem ritningartextar voru lesnir og trúarlegur sannleikur ræddur. Hún var sem móðir andlegra dætra sinna, andlegt ljós sem lýsti upp umhverfi sitt með trú, hlýju og hógværð.

Fólk minntist hennar sem konunnar sem lifði í sífelldri umhyggju fyrir frelsun annarra, auðmjúkrar og þolinmóðrar í öllum aðstæðum. Hún lifði í kyrrð, fátækt og hlýðni, en um leið í stöðugu íhugunarlífi og djúpri ást á altarisgöngunni, á Maríu mey og dýrlingunum. Með þessu varð hún uppbyggjandi máttarstólpi í söfnuði sínum og lifandi tákn um kærleika Guðs í samfélagi manna.

Blessuð Jósefa lést 24. febrúar 1893, eftir að hafa tekið við síðustu sakramentunum. Að eigin ósk var hún lögð til hvílu í búningi Karmelreglunnar. Eftir andlát hennar varð minningin um hana strax lifandi í heimabæ hennar, Algemesí. Fólk hélt áfram að vitna um dyggðugt líf hennar, mildi, ráðvendni og djúpa trú. Hún hafði kennt fjölda kvenna – bæði útsaum og kristilegar dyggðir – og þær urðu að eins konar andlegum dætrum hennar. Þær báru áfram minningu hennar og héldu heimili hennar við sem bænastað.

Á áratugunum eftir dauða henna þróaðist staðbundin dýrkun (lat. cultus localis). Fólk sótti til leiðis hennar, bað fyrir hennar tilstilli og skrifaði um hana. Bænir við gröf hennar tengdust stundum lækningum og bænasvörum. Þetta varð til þess að bæði sóknarpresturinn og biskupinn í Valencia byrjuðu að safna vitnisburðum um líf hennar og heilagleika.

Spænska borgarastyrjöldin og minning Jósefu
Þegar spænska borgarastyrjöldin braust út árið 1936 varð Valencia eitt helsta vígi lýðveldissinna, og trúarlíf þar varð fyrir miklum áföllum. Í Algemesí, sem hafði djúpar trúarhefðir, var sóknarkirkja Jakobs postula rænd og skemmd, ölturu og helgimyndir eyðilögð og skjöl Þriðju reglunnar, þar á meðal skjöl um Jósefu, glötuðust.

Þrátt fyrir þetta var gröf hennar ekki vanhelguð. Heimamenn, þar á meðal þeir sem ekki voru sérstaklega trúaðir, sýndu henni virðingu og héldu vörð um grafreitinn. Þegar allt annað komst í uppnám varð gröf hennar að tákni friðar og trúfesti. Síðari vitnisburðir í ferli blessunar hennar sögðu frá því að þessi vernd grafarinnar væri eins konar merki um náð Guðs og áhrif bænanna sem tengdust henni. Eftir stríðið var trúarlíf í Algemesí endurreist og minning Jósefu rifjuð upp. Þá hófst formlegt frumkvæði að rannsaka dyggðir hennar og mannorð heilagleika – ferli sem lauk síðar með blessun hennar.

Dýrkun og viðurkenning
Hinn 20. október 1946 voru líkamsleifar hennar fluttar í sóknarkirkju heilags Jakobs postula í Algemesí og settar í fallega gler- og málmkistu svo fólkið gæti heiðrað minningu hennar. Eftir ítarlega rannsókn á lífi hennar og fimmtán staðfestum vitnisburðum lýsti heilagur Jóhannes Páll II páfi yfir hetjulegum dyggðum hennar 3. janúar 1987. Hinn 1. september 1988 var kraftaverk við bæn hennar viðurkennt, og 25. september sama ár var hún tekin í tölu blessaðra við hátíðlega messu í Péturskirkjunni í Róm. Minningardagur hennar er haldinn hátíðlegur 6. nóvember.

Tilvitnun
„Guð gefur okkur lífið til þess að elska. Að lifa er að elska, og að elska er að biðja.“
– Blessuð Jósefa Naval Girbés

Lærdómur
Blessuð Jósefa minnir okkur á að anda Karmels má sameina hversdagslífinu – utan klausturs með loforði um fátækt, skírlífi og hlýðni. Með því að helga störfin Guði verður heimilið sjálft að húsi kyrrðar og heilagleika. Blessuð Jósefa sýnir að kyrrlát iðni og trúfesti geta breytt samfélagi á við öflugar prédikanir.

Bæn
Guð, sem kallar menn og konur til að þjóna þér í heimi þessum, veittu að við, sem lifum veraldlegu lífi, megum líkjast blessaðri Jósefu Naval Girbés. Gef að við vinnum trúfastlega að uppbyggingu ríkis þíns með því að rækja skyldur okkar af kærleika og trú.

Drottinn Jesús Kristur, sem gafst blessaðri Jósefu náð til að lifa í kærleika og kyrrð Karmels mitt í heiminum, veittu okkur einnig að fylgja þér af trúfesti í daglegu lífi okkar. Lát okkur læra að elska þig í öllu sem við gerum og sjá þig í hverjum þeim sem við mætum.
Með fyrirbæn hennar biðjum við um náð til að þjóna þér með hljóði hjartans. Amen.


Blessuð Jósefa Naval Girbés, meyja og þriðju reglu Karmelíti - minning 6. nóvember

Blessuð Jósefa Naval Girbes Jósefa Naval Girbés fæddist 11. desember 1820 í bænum Algemesí í héraðinu Valencia á Spáni og lést 24. febrúar 1...