03 september 2025

Heilagur Gregoríus mikli – páfi og kirkjufræðari - Minning 3. september

Heilagur Gregoríus mikli, páfi og kirkjufræðari

Heilagur Gregoríus mikli (um 540–604) var páfi á tíma mikilla atburða, og persóna hans markaði djúp spor í sögu kirkjunnar. Hann er talinn einn af hinum fjórum miklu kirkjufræðurum Vesturkirkjunnar ásamt hinum heilögu Ambrósíusi, Híerónýmusi og Ágústínusi. Hann var leiðtogi sem sameinaði skipulagshæfileika, djúpa trú og hjarta sem barðist fyrir fátæka, sjúka og þá sem ekki þekktu Krist.

Æviágrip
Gregoríus fæddist í Róm um árið 540 inn í aðalsætt. Faðir hans gegndi embætti borgarstjóra Rómar. Móðir hans, heilög Silvía, er í tölu heilagra, og einnig föðursystir hans, heilög Tarsilla. Þannig erfði hann ekki aðeins félagslegan sess heldur einnig djúpa trúarlega arfleifð. Æska hans var mörkuð þungbærum stórviðburðum sögunnar: árið 542 lagði plága þriðjung ítalskrar þjóðar í valinn og innrásir germanskra þjóðflokka færðu eyðileggingu yfir landið.



Þrátt fyrir þetta hlaut Gregoríus framúrskarandi menntun og varð sjálfur borgarstjóri aðeins þrítugur. En hann heyrði kall Krists: „Far þú, seldu allt sem þú átt og gef fátækum.“ Hann breytti fjölskylduvillu sinni á Caelíushæð í klaustur, lét af embætti og gerðist munkur.

Árið 579 sendi páfi hann sem fulltrúa sinn til Býsans, en þegar hann sneri aftur sex árum síðar beið hans borg í rústum. Plága og hungur ríktu, og þegar Pelagíus páfi II féll frá, var Gregoríus kosinn páfi af örvæntingarfullu fólki.

Sem páfi sýndi hann ótrúlega stjórnsýsluhæfileika og hjarta fullt af miskunn. Hann skipulagði bænagöngur gegn plágunni og samkvæmt frásögninni birtist honum erkienglinn Mikael yfir grafhýsi Hadrianusar þar sem hann slíðraði sverð sitt – til merkis um að plágan skyldi líða undir lok. Hann sá til þess að allar eignir kirkjunnar væru nýttar til að fæða þurfandi og kallaði sig sjálfur „ráðsmann yfir eignum fátækra“.

En hjarta hans var enn dýpra: hann hafði áhuga á því að bera fagnaðarerindið til ókristinna landa. Hann sendi munkinn Ágústínus frá klaustri sínu til Englands með fjörutíu félaga. Þessi Ágústínus varð síðar erkibiskup í Kantarabyrgi (Canterbury) og hinn eiginlegi postuli Englands.

„Þjónn þjóna Guðs“
Gregoríus mikli setti einnig mark sitt á embættisheitið sjálft. Á þessum tíma hafði patríarkinn í Konstantínópel tekið að kalla sig „patríarka hins byggða heims“. Slíkt þótti Gregoríusi bera vitni um ofmetnað og hann hafnaði slíkum titlum sem stæðust ekki anda fagnaðarerindisins. Hann svaraði með því að gefa sjálfum sér titilinn servus servorum Dei – „Þjónn þjóna Guðs“.

Með því sýndi hann að biskupsembættið væri fyrst og fremst þjónusta við hina trúuðu, og að leiðtogi kirkjunnar ætti að vera sá sem beygði sig lægst. Sá titill hefur fylgt öllum páfum síðan og er áminning um að embætti páfa og biskupa er þjónusta, ekki herradómur.

Gregorssöngurinn
Eitt af varanlegum verkum heilags Gregoríusar er tengt kirkjutónlistinni. Hann vildi að guðsþjónustan væri bæn í orði og tónum, einföld, göfug og bein í tjáningu. Hann setti reglur um helgihaldið, skipulagði messusönginn og safnaði saman helgum sálmum og antifónum (andstefjum), sem eru stuttir ritningartextar sem sungnir eru fyrir og eftir sálma eða sem svar á milli kóra. Þetta safn nefndist Antiphonarium Gregorianum og varð grunnurinn að því sem síðar var kallað Gregorssöngur.

Þótt ekki hafi verið til hefðbundin nótnaskrift á hans tíma, þá var söngurinn varðveittur með munnlegri hefð og þjálfun í schola cantorum, söngskólanum sem hann stofnaði í Róm. Þar lærðu munkar lögin utanbókar og fluttu þau áfram til næstu kynslóða. Nokkrum öldum síðar voru fyrstu naumurnar, einföld tákn skrifuð yfir textann til að leiðbeina um sönglínuna og festa sönginn betur í minni. Þannig varð til heildstæð tónlistarhefð sem mótaði kirkjusöng í aldaraðir.

Hefðin segir að Gregoríus hafi hlotið þessi lög með innblæstri Heilags Anda, og er hann gjarnan sýndur í helgimyndum með dúfu við eyra sitt sem hvíslar sönginn í eyra hans. Sú mynd táknar ekki aðeins persónulegt hlutverk hans, heldur þá trú að kirkjusöngurinn sé gjöf Heilags Anda til kirkjunnar.

Gregorssöngurinn varð síðan hin eiginlega bænarödd kirkjunnar í meira en þúsund ár og mótaði ekki aðeins andlega menningu heldur einnig alla þróun vestrænnar tónlistar. Söngurinn, með sínum einföldu og kyrrlátu laglínum, leiðir enn þann dag í dag hugann til íhugunar og bænagöngu inn í dýpt trúarinnar.

Á Íslandi náði arfleifð Gregorssöngsins einnig fótfestu. Þegar heilagur Þorlákur var tekinn í tölu heilagra árið 1198, var samið sérstakt tíðasöngsrit til heiðurs honum, Þorlákstíðir (Officium sancti Thorlaci).

Þær tíðir fylgdu formi gregorssöngsins með andstefjum, sálmum og lestrum. Þær voru því ekki aðeins hluti af íslenskri helgihefð, heldur einnig bein þátttaka í þeirri tónlistar- og bænamenningu sem Gregoríus mikli hafði lagt grunninn að sex hundruð árum fyrr. Í klaustrum og kirkjum Íslands voru Þorlákstíðir sungnar í gregorssöngsstíl, sem þá hafði þróast töluvert. Þannig tengjast helgihald og tónlist á Íslandi beint við þá alþjóðlegu tónlistararfleifð sem ber nafn Gregoríusar.

Tilvitnun

„Ég gegni aðeins embætti ráðsmanns yfir eignum fátækra.“

Lærdómur
Heilagur Gregoríus mikli minnir okkur á að kirkjan á ekki að safna auði sér til handa heldur að þjóna fátækum og sjúkum. Hann sýnir okkur einnig að embætti í kirkjunni er fyrst og fremst þjónusta, þar sem leiðtoginn er sá sem beygir sig lægst. Arfleifð hans lifir áfram í orðum hans, skipulagi kirkjunnar og ekki síst í helgri tónlist sem hefur mótað andlegt líf í meira en þúsund ár.

Bæn
Guð, þú sem gafst kirkjunni heilagan Gregoríus sem páfa og læriföður, veittu að við sem hlýðum orðum hans og fylgjum fordæmi hans, fáum að njóta hjálpar þinnar alla tíð. Fyrir Jesú Krist, Drottin vorn. Amen.


Nýir dýrlingar – tákn vonar og trúfesti

Páfi ávarpar þátttakendur eftir messuna (Mynd: Vatican news) Síðastliðinn sunnudag, hinn 19. október 2025 tók Leó páfi XIV tók sjö karla og ...