30 ágúst 2025

Heilög Teresa af Jesú – Hjartasár kærleikans - minning 29. ágúst

Engill Guðs lýstur kærleikseldi í hjarta heilagrar Teresu af Jesú

Á hverju ári hinn 29. ágúst minnist Karmelreglan þess dularfulla atburðar þegar engill Guðs laust kærleikseldi í hjarta heilagrar Teresu af Jesú. Í þessari sýn, sem hún lýsir sjálf í bók sinni Bókin um líf mitt, upplifði hún bæði mikinn sársauka og óumræðilega sælu í eldi kærleika Guðs. Atburðurinn hefur síðan verið kallaður „hjartasár kærleikans“ og orðið táknrænn fyrir djúpa dulræna reynslu hennar og guðfræðilegt innsæi.

Æviágrip
Teresa de Cepeda y Ahumada fæddist í Ávila á Spáni árið 1515. Hún ólst upp í stórfjölskyldu, greind, ákveðin og með ríka trúarlega þrá. Þegar hún var ung að árum gekk hún í karmelnunnuklaustur í Ávila. Þar hófst löng og krefjandi vegferð sem leiddi hana til þess að endurnýja karmelregluna og stofna ný klaustur sem lögðu áherslu á einfaldleika, fátækt og bænahald. Hún gekk ótrauð í þessa endurnýjunarbaráttu þrátt fyrir mótspyrnu og veikindi. Hún lést árið 1582 og var tekin í tölu heilagra árið 1622. Árið 1970 var hún ein af fyrstu konum kirkjunnar sem fengu titilinn kirkjufræðari.

29 ágúst 2025

Höfuðdagur – Píslarvætti heilags Jóhannesar skírara - minning 29. ágúst

Heilagur Jóhannes skírari

Í dag minnist kirkjan píslarvættis heilags Jóhannesar skírara. Á íslensku hefur þessi dagur verið nefndur Höfuðdagur. Guðspjallið segir frá því hvernig Jóhannes skírari var hálshöggvinn að skipan Heródesar Antípasar. Hann var fangelsaður vegna þess að hann hafði átalið siðferðisbrot konungs (Mk 6,18). Flavius Jósefus, sagnaritari þess tíma, segir að Heródes hafi óttast uppreisn í kjölfar áhrifa Jóhannesar á fólkið. Í veislu Heródesar, í samkvæmi sem einkenndist af drykkjusvalli, varð hégómlegt loforð til þess Jóhannes missti líf sitt (Mk 6,21-29).

28 ágúst 2025

Heilagur Ágústínus af Hippo, biskup og kirkjufræðari - minning 28. ágúst

Hl. Ágústínus kirkjufræðari


Heilagur Ágústínus (354–430) er einn af áhrifamestu kirkjufræðurum kristninnar. Hann var biskup í Hippo í Norður-Afríku og verk hans hafa mótað guðfræði og heimspeki Vesturkirkjunnar fram á okkar daga. Ágústínus var maður mikillar greindar og brennandi ástríðu – líf hans er vitnisburður um leit mannsins að sannleikanum og hvernig Guð leiðir leitandann heim.

Æviágrip
Móðir hans, heilög Móníka, ól hann upp í kristinni trú, en hann fylgdi ekki fordæmi hennar í fyrstu. Sem unglingspiltur var hann glaðlyndur og lífsglaður, naut leikhúss, vináttu og lífsins ánægju. Í Karþagó, þangað sem hann fór til náms, varð hann ástfanginn af stúlku. Þar sem hún var af lægri stétt tók hann hana sér sem sambýliskonu en kvæntist henni ekki. Þau eignuðust son, Adeodatus (sem merkir „Guðsgjöf“). Ágústínus, sem var orðinn faðir nítján ára gamall, var henni trúfastur sem sambýliskonu og tók ábyrgð á „fjölskyldulífinu“. Þegar hann las rit Ciceros, Hortensius, breyttist allur hans skilningur á heiminum. Hamingjan, kenndi Cicero honum, felst í hinu óforgengilega: speki, sannleika, dygð. Ágústínus ákvað að helga allt sitt líf leitinni að þessu. Hann tengdist maníkíum en var sífellt óánægður. Hann flutti til Rómar og síðan til Mílanó, þar sem hann gegndi virtri stöðu sem mælskukennari. Þar kynntist hann prédikunum heilags Ambrósíusar biskups, sem snertu hjarta hans djúpt.

Í ágúst árið 386 upplifiði hann sína frægustu umbreytingarreynslu. Hann var ráðvilltur og grátandi í garði þegar hann heyrði rödd segja: Tolle! Lege! – „Taktu og lestu!“ Hann opnaði bréf Páls postula og las orðin:

„Lifum svo að sæmd sé að, því nú er dagur kominn, en hvorki í ofáti né ofdrykkju, hvorki saurlífi né svalli, ekki með þrætum eða öfund. Íklæðist heldur Drottni Jesú Kristi og leggið ekki þann hug á jarðnesk efni að það veki girndir.“ (Róm 13,13–14)

Þessi orð urðu vendipunktur í lífi hans. Hann ákvað að helga sig Guði. Ágústínus var skírður af Ambrósíusi á páskanótt árið 387, ásamt syni sínum Adeodatusi. Á leið heim til Afríku andaðist Móníka móðir hans í Óstíu.

Sambýliskona Ágústínusar
Nafn sambýliskonu hl. Ágústínusar er ekki varðveitt í heimildum, en í Játningunum talar hann með virðingu um hana og viðurkennir að samband þeirra hafi verið djúpt og ástríkt. Þegar Ágústínus dvaldi í Mílanó og hafði tryggt sér virðulegt starf, hvatti móðir hans, heilög Móníka, hann eindregið til að losa sig við sambýliskonuna til að hann gæti gengið í hjónaband við unga konu af réttri þjóðfélagsstétt sem hún hafði í huga. Við það sneri sambýliskonan aftur til Afríku, og Ágústínus lýsir því hvernig hjarta hans hafi „rifnað í sundur“ þegar hún fór. Hann segir einnig að hún hafi heitið því að elska engan annan mann eftir hann. Ágústínus varð eftir í Mílanó með son sinn og tók sér síðar, í veikleika sínum, aðra konu tímabundið áður en hann sneri sér til Guðs af heilum hug.

Ágústínus stofnaði fyrsta klaustur sitt í heimabæ sínum, Tagaste. Skömmu síðar var hann vígður prestur í borginni Hippo og varð síðar biskup þar. Hann stýrði kirkjunni í Hippo í áratugi, skrifaði fjölda rita, prédikaði og barðist gegn villukenningum síns tíma. Æviskeið hans einkenndist af stöðugri leit að sannleikanum, þar sem hann reyndi að tengja trú og skynsemi. Hann lést árið 430 þegar Vandalar sátu um Hippo.

Ágústínusarreglan og núverandi páfi Leó XIV
Hl. Ágústínus stofnaði fyrstu kristnu klaustursamfélögin í Afríku og lagði þar grunn að því sem síðar varð þekkt sem Ágústínusarreglan. Hann samdi stutta reglubók um líf í samfélagi, þar sem megináherslan er á einingu í kærleikanum:

„Lifið allir í einingu, eins hjarta og ein sál í Guði.“ (Regula S. Augustini, 1,2)

Regla hans varð fyrirmynd að fjölda klaustra og trúarreglna í aldanna rás. Hún leggur áherslu á samfélagslíf, sameiginlega eign, bæn og þjónustu. Í dag lifa bæði karla- og kvennasamfélög eftir þessari reglu víða um heim, og einnig prestar og trúarhópar sem starfa á grundvelli hennar. Þannig lifir arfleifð heilags Ágústínusar áfram í kirkjunni.  Núverandi páfi, Leó XIV, kemur úr reglu heilags Ágústínusar. Hann gegndi áður starfi yfirmanns reglunnar og hefur alla tíð mótast af anda hennar um samfélag, einingu og þjónustu í kærleika.

Hl. Ágústínus og arfleifðin til siðbótarinnar
Upphafsmaður mótmælendahreyfingarinnar dr. Marteinn Lúther var munkur í Ágústínusarreglunni og mótaðist af guðfræði hans. Hann leit á Ágústínus sem kennara sinn í trúnni og sótti til hans innblástur um náðina og réttlætingu trúarinnar. Margir Íslendingar muna eftir að Játningar heilags Ágústínusar voru lesnar í Ríkisútvarpið á áttunda áratugnum.

Tilvitnanir
„Þú skapaðir okkur handa þér, Drottinn, og hjarta vort er órótt, þar til það finnur hvíld í þér.“ (Játningar I,1)

„Farðu ekki út fyrir sjálfan þig. Snú þér inn á við. Innra með manninum býr sannleikurinn.“ (De vera religione 39,72)

„Enginn kemst örugglega yfir haf heimsins nema hann sé borinn af krossi Krists … yfirgefðu ekki krossinn, og hann mun bera þig örugglega yfir.“ (In Iohannis Evangelium tractatus 2,2)

Lærdómur
Heilagur Ágústínus kennir okkur að Guð yfirgefur ekki leitandi hjarta, jafnvel þótt það villist af leið. Líf hans er áminning um að jafnvel þeir sem hafa fjarlægst trúna geta snúið aftur. Hann var bæði hugsuður og trúmaður, sem sýndi að sönn speki felst í að sameina visku og trúfesti. Hann hvatti menn til að horfa inn á við og finna þar sannleikann sem Guð hefur plantað í hjarta hvers manns.

Bæn
Guð, þú endurnýjaðir kirkjuna þína með lífi og kenningum heilags Ágústínusar. Vek í okkur þrá eftir þér, svo að hjarta okkar verði órótt þar til það hvílist í þér. Fyrir Jesú Krist, Drottin vorn. Amen.


27 ágúst 2025

Heilög Móníka – minning 27. ágúst

Heilög Móníka

Heilög Móníka (331–387) er ein þekktasta móðir kristinnar hefðar. Hennar er minnst fyrir þrautseigju, óbilandi trú og stöðuga bæn, sérstaklega fyrir syni sínum Ágústínusi, sem síðar varð einn mesti kirkjufræðari Vesturkirkjunnar. Hún er fyrirmynd þeirra sem biðja fyrir fjölskyldum sínum og treysta á miskunn Guðs.

Æviágrip
Móníka var fædd í Tagaste í Norður-Afríku árið 331, af berberskum uppruna, í auðugri kristinni fjölskyldu. Hún lærði heilaga ritningu af mikilli einlægni og mótaðist af reglulegri bæn og sakramentunum. Í æsku barðist hún við veikleika sem varð henni dýrmæt lífsreynsla. Þegar henni var falið að sækja vín úr tunnu, fór hún að fá sér smá sopa á leiðinni. Smám saman varð þetta að vana og ómeðvitað hafði hún þróað með sér leynda fíkn í vín. En einn daginn, þegar þjónustustúlka á heimilinu reiddist henni, kallaði hún hana vínkerlingu. Þessi smánun stakk ungu stúlkuna svo sárt að hún áttaði sig á því hversu langt hún hafði látið leiða sig. Það varð henni opinberun og hún snérist frá vananum með bæn og aga. Þannig lærði hún snemma að takast á við eigin veikleika og að treysta á náð Guðs.

26 ágúst 2025

Hátíð heilagrar Maríu meyjar frá Jasna Góra - 26. ágúst

Eftirmynd helgimyndarinnar í Jasna Góra sem nú er í kapellu Karmelklaustursins í Hafnarfirði

Í borginni Czestochowa, rúmlega 200 þúsund manna borgar í suðurfjöllum Póllands stendur klaustrið Jasna Góra (Bjartafjall) þar sem varðveitt er íkon (helgimynd) heilagrar Maríu meyjar, kölluð Svarta Madonnan sem nýtur mikillar virðingar. Hún er meðal helgustu helgidóma Evrópu og hefur frá miðöldum verið miðja bænalífs og pílagrímaferða, jafnvel á árum síðari heimsstyrjaldar þegar öll ferðalög voru hættuleg fór fólk í einkaferðir til Jasna Góra. 

Klaustrið var stofnað árið 1382 og skv. helgisögn kom íkonið þangað tveim árum síðar. Helgisögn hermir að hl. Lúkas guðspjallamaður hafi málað myndina á borðplötu úr heimili hinnar Heilögu Fjölskyldu. Í óeiginlegri merkingu má a.m.k. segja að hl. Lúkas Guðspjallamaður hafi dregið upp skýra mynd af Maríu mey í guðspjalli sínu. 

23 ágúst 2025

Heilög Rósa frá Líma meyja – minning 23. ágúst

Heilög Rósa frá Lima

Í dag, 23. ágúst, minnist kirkjan heilagrar Rósu frá Líma, fyrsta dýrlings Rómönsku Ameríku. Hún lifði stuttu en ástríðufullu lífi í þjónustu Guðs, bænar og miskunnarstarfa. Hún varð tákn trúfestu og kærleika í hinni nýju heimsálfu þar sem trúin var að skjóta rótum.

Æviágrip
Hl. Rósa, sem hét upphaflega Isabel Flores de Oliva, fæddist í Líma í Perú árið 1586. Hún var kölluð Rósa vegna fegurðar sinnar, en hún vildi aðeins tilheyra Kristi og forðaðist allan hégóma. Hún fann fljótt köllun sína til meyjarlífs í anda heilags Dóminíkusar og varð þekkt sem þriðjureglusystir dóminíkana.

22 ágúst 2025

Hl. María mey og drottning - minning 22. ágúst

Hl. María mey drottning himins og jarðar við hlið Sonar síns, Guðs og manns á himnum

Í dag, 22. maí minnist kirkjan heilagrar Maríu, meyjar og drottningar. Hún er dýrðarkóróna sköpunarinnar, reist til himna við hlið Sonar síns, konungs konunganna. Hjá Kærleiksboðberunum (Systrum Móður Teresu í Ingólfsstræti) er þessi dagur einnig helgaður Hinu Flekklausa hjarta Maríu, sem er verndari reglunnar.

21 ágúst 2025

Hl. Píus X páfi – minning 21. ágúst

Hl. Píus X páfi

Í dag, 21. ágúst, minnist kaþólska kirkjan heilags Píusar X páfa, sem gegndi embætti arftaka heilags Péturs postula frá 1903 til 1914. Hann var fátækur sveitastrákur sem varð páfi – og síðar dýrlingur. Áherslur hans voru einfaldar og djúpar: Að uppfræða hinn almenna kristna mann, efla lífið í sakramentunum og verja hina hreinu trú gegn villukenningum. Hans er sérstaklega minnst fyrir að hafa hvatt til þess að fleiri færu daglega til altaris og fyrir að opna börnum leið að altarinu á unga aldri – breyting sem hefur haft djúp áhrif í kirkjunni allt til dagsins í dag.

18 ágúst 2025

Séra Jósef J. Hacking - minning 18. ágúst

Séra Jósef J. Hacking - Ljósmyndin birtist upphaflega í Morgunblaðinu árið 1964 í minningargrein séra Páls Pálssonar um séra Jósef J. Hacking. Hún er hér endurbirt í menningarlegum og sögulegum tilgangi, til að heiðra minningu hans.
 

Í dag, 18. ágúst, minnumst við séra Jósefs J. Hacking sem lést á þessum degi árið 1964, aðeins 44 ára að aldri. Hann var einn kunnasti og mætasti prestur Rómversk-kaþólsku kirkjunnar á Íslandi og þjónaði hér í rúm 18 ár. Starf hans var fjölbreytt og áhrifaríkt, bæði sem prestur og einnig sem skólastjóri Landakotsskólans þar sem hann naut virðingar og vinsælda.

Séra Páll Pálsson (d. 2010) síðast prestur á Bergþórshvoli en sem gekk síðar í Kaþólsku kirkjuna ritaði um hann minningarorð í Morgunblaðið sem birtust 23. ágúst árið 1964 skömmu eftir andlát séra Jósefs, þar sem hann dregur upp mynd af manni sem átti einstakt lag á að tengjast fólki, bæði sem prestur og vinur.

15 ágúst 2025

Uppnumning Maríu meyjar til himna – 15. ágúst

Uppnumning Maríu meyjar til himna

Hátíð uppnumningar hinnar heilögu Maríu meyjar til himna var þegar haldin hátíðleg 15. ágúst á 5. öld. Í austri var hún kölluð Dormition – „hinn heilagi svefn Maríu“ – en í vestri var litið á hana sem „fæðingardaginn til himna“. Í Róm hófst þessi hátíð um miðja 7. öld. Hún hlaut hins vegar sitt endanlega form 1. nóvember 1950 þegar Píus páfi XII lýsti yfir og skilgreindi sem guðlega opinberaðan trúarlærdóm að hin óflekkaða móðir Guðs, María mey, hafi að loknu jarðlífi sínu verið numin í líkama og sálu til himna.

14 ágúst 2025

Hl. Maximilían María Kolbe – prestur og píslarvottur - Minning 14. ágúst

Hl. Maximilían Kolbe

Hl. Maximilían María Kolbe fæddist 8. janúar 1894 í bænum Zduńska Wola í Póllandi og hlaut skírnarnafnið Raimund. Sem drengur var hann lífsglaður og venjulegur, en tólf ára gamall breyttist eitthvað í fari hans eftir að móðir hans hafði ávítað hann. Hann sagði henni síðar frá sjón sem hann hafði fengið í bæn: María mey birtist honum með tvær kórónur, eina hvíta sem táknaði hreinleika, og eina rauða sem táknaði píslarvætti, og spurði hvort hann vildi þær báðar. Hann svaraði játandi.

13 ágúst 2025

Hl. Fílúmena – minning 13. ágúst

Hl. Fílúmena

Dýrkun á heilagri Fílúmenu og spurningarnar um hver hún hafi í raun og veru verið eiga upptök sín í Róm þann 25. maí 1802. Þá fundust við uppgröft í Priscilla-katakombunum við Via Salaria bein ungrar stúlku, um þrettán ára að aldri, ásamt gleríláti sem talið var geyma blóð hennar. Grafhvelfingin var lokuð með þremur leirtöflum, þar sem stóð: LUMENA / PAX TE / CUM FI. Talið var að töflurnar hefðu verið settar upp á röngunni, þannig að áletrunin ætti að vera PAX TECUM FILUMENA – „Friður sé með þér, Fílúmena.“ Merki á töflunum, þar á meðal pálmagrein og spjót, bentu til að hér væri um kristinn píslarvott frá fyrstu öldum kirkjunnar að ræða. Á þeim tíma var almennt talið að flestir sem grafnir voru í katakombunum hefðu dáið í ofsóknum fyrstu alda.

11 ágúst 2025

Hl. Klara frá Assisí, mey – minning 11. ágúst

Hl.Klara frá Assisí mey

Pálmasunnudag árið 1211 yfirgaf átján ára gömul stúlka, Klara að nafni, heimili sitt í Assisí að næturlagi. Hún elskaði fjölskyldu sína heitt, en í hjarta hennar hafði Guð vakið löngun til hins sanna frelsis: að verða fátæk af eigin vilja. Sjö árum áður hafði hún orðið vitni að atburði sem breytti lífi hennar – ungi maðurinn Frans frá Assisí, auðugur og vel klæddur, hafði afklæðst öllu í augsýn föður síns og tekið á sig fátækt Krists. Þessa nótt beið Frans hennar við litlu kapelluna Portiuncula. Klara klippti af sér hárið, klæddist grófgerðum ullarfatnaði og hlaut skjól í Benediktsklaustrinu í Bastia Umbra. Faðir hennar reyndi árangurslaust að fá hana heim aftur – en ákvörðun hennar var óafturkræf.

09 ágúst 2025

Hl. Teresa Benedikta af Krossinum Karmelnunna og verndardýrlingur Evrópu Minning


„Edith Stein var fædd í Breslau tólfta október árið 1891. Fjölsky[l]da hennar voru Gyðingar. Eftir að ástríðufullu námi hennar í heimspeki lauk, leitaði hún sannleikans og fann hann í sjálfsævisögu heilagrar Teresu frá Avila. Edith Stein snerist til kaþólskrar trúar og árið 1922 var hún skírð inn í kaþólsku Kirkjuna. Árið 1933 gekk hún í Karmelklaustrið í Köln þar sem hún tók sér nafnið Teresa Benedikta af Krossinum. Teresa Benedikta lét lífið í fangabúðunum í Auschwitz 9. ágúst árið 1942. Þetta gerðist á ofsóknartímum Nasista og Teresa dó sem píslarvottur fyrir kristna trú sína, ef[t]ir að hafa fórnað sér fyrir Ísraelsmenn. 

08 ágúst 2025

Heilagur Dóminíkus, prestur og reglustofnandi – minning 8. ágúst

Hl. Dóminíkus, prestur og stofnandi Prédikarareglunnar. Mynd: ChatGPT

Í dag, 8. ágúst, minnist Kaþólska kirkjan heilags Dóminíkusar, prests og stofnanda Dóminíkanareglunnar. Dóminíkus fæddist árið 1170 á Spáni og var ein af hinum miklu persónum miðalda, og sem skildi eftir sig djúp og áhrifamikil spor í hinum kristna heimi.

Árið 1216 stofnaði hl. Dóminíkus reglu sem varð þekkt sem Dóminíkanareglan, með það að markmiði að  boða rétta trú. Reglan lagði áherslu á þekkingu, bænir og trúboð í gegnum kenningar og rannsóknir.

07 ágúst 2025

Hl. Albert frá Trapani, prestur og karmelíti - minning 7. ágúst

Hl. Albert frá Trapani. Mynd: ChatGPT

Hl. Albert frá Trapani var fyrsti dýrlingurinn innan Karmelreglunnar eftir að hún flutti frá Landinu helga til Evrópu. Hann var álitinn undramaður og fyrirmyndarprestur og naut mikillar dýrkunar meðal alþýðu fólks. Heilagleiki hans birtist einkum í friðsælu viðmóti, heitri bæn og elsku til fátækra.

Frá Karmelfjalli til Evrópu
Karmelítareglan á sér uppruna meðal einsetumunka sem settust að á Karmelfjalli í Palestínu á fyrri hluta 13. aldar og helguðu líf sitt bæn, íhugun og sjálfsafneitun í anda Elía spámanns. Þeir fengu reglu sína staðfesta árið 1226. Um og eftir 1238 versnaði öryggisástandið verulega í Landinu helga, einkum eftir að mamelúkar, hernaðarelíta egypskra múslima, hófu að leggja undir sig kristin yfirráðasvæði. Einsetumennirnir á Karmelfjalli urðu að flýja og dreifðust um Evrópu.

06 ágúst 2025

Ummyndun Drottins, hátíð 6. ágúst

Ummyndun Drottins, Lk. 9, 28b-36. Mynd: ChatGPT

Jesús stígur upp á fjall til að biðja, ásamt Pétri, Jakobi og Jóhannesi. Þar, í miðri bæn, ummyndast ásjóna hans og klæði hans verða skinandi hvít. Honum birtast Móse og Elía í dýrð og tala við hann um „útgöngu“ hans, það er píslarsögu hans, sem er að fara að rætast í Jerúsalem. Lærisveinarnir skynja dýrðina en skilja ekki dýpt hennar. Þeir vilja dvelja þar á fjallinu, í augnablikinu. En þá kemur skýið, tákn nærveru Guðs, og röddin berst: „Þetta er sonur minn sem ég hef útvalið, hlýðið á hann!“ (Lúk 9, 28b–36)

04 ágúst 2025

Hl. Jóhannes María Vianney – sóknarpresturinn í Ars og verndardýrlingur prestastéttarinnar - minning 4. ágúst

Hl. Jóhann María Vianney verndardýrlingur sóknarpresta. Mynd: ChatGPT

„Ef við skildum í raun hver presturinn er á jörðu, myndum við deyja – ekki af ótta, heldur af elsku.“ Þessi orð eru eignuð hinum heilaga Jóhannesi Maríu Vianney, presti og dýrlingi sem í dag, 4. ágúst, er minnst í kaþólsku kirkjunni um allan heim. Hann var óvenjulegur maður: einfaldur, en andlega djúpur, hreinn og staðfastur í kærleika.

Hl. Jóhannes María fæddist í Dardilly nálægt Lyon árið 1786, á umbrotatímum byltingarinnar í Frakklandi. Hann ólst upp við djúpa trú í skugga ofsókna og sótti sína fyrstu skriftir og altarisgöngu í leynilegri messu. Þegar hann varð 17 ára fann hann köllun til prestsembættis. Námið sóttist þó seint, sérstaklega vegna erfiðleika hans með latínu, og fékk hann ekki inngöngu í prestaskólann í Lyon. En guðsótti og hreinar dyggðir unnu honum hylli eldri prests, sem tók hann í einkakennslu og lagði honum lið til vígslu.

01 ágúst 2025

Hl. Peter Faber Jesúíti - minning 1. ágúst

Hl. Peter Faber. Mynd: ChatGPT

Á stundum heyrum við sögur af óvæntum kynnum sem breyta lífi manns. Slík voru kynni hinna heilögu Peters Fabers og Ignatíusar Loyola í Parísarháskóla á 16. öld. Þar tókst samband sem varð upphafið að reglu sem átti eftir að móta kirkjusöguna — og skapa farveg þar sem persónuleg trú, djúp íhugun og sáttatilraunir voru höfð að leiðarljósi.

Jón Arason Hólabiskup (1484–1550) - dánardagur 7. nóvember

Jón Arason Hólabiskup d. 1550 Jón Arason Hólabiskup fæddist árið 1484 og var sonur Ara Sigurðssonar, bónda á Laugalandi í Eyjafirði, og Elín...