21 ágúst 2025

Hl. Píus X páfi – minning 21. ágúst

Hl. Píus X páfi

Í dag, 21. ágúst, minnist kaþólska kirkjan heilags Píusar X páfa, sem gegndi embætti arftaka heilags Péturs postula frá 1903 til 1914. Hann var fátækur sveitastrákur sem varð páfi – og síðar dýrlingur. Áherslur hans voru einfaldar og djúpar: Að uppfræða hinn almenna kristna mann, efla lífið í sakramentunum og verja hina hreinu trú gegn villukenningum. Hans er sérstaklega minnst fyrir að hafa hvatt til þess að fleiri færu daglega til altaris og fyrir að opna börnum leið að altarinu á unga aldri – breyting sem hefur haft djúp áhrif í kirkjunni allt til dagsins í dag.



Æviágrip: Frá sveitabæ til Péturskirkjunnar
Hl. Píus X hét upprunalega Giuseppe Melchiorre Sarto og fæddist 2. júní 1835 í smábænum Riese á Ítalíu. Foreldrar hans voru fátæk en guðrækin – faðir hans var bréfberi og móðir hans spunakona. Giuseppe var námfús og tók snemma við kalli Guðs í hjarta sínu. Hann var vígður prestur árið 1858 og þótti strax einstakur sálusorgari. Með tíma varð hann biskup í Mantova og síðar patríarki í Feneyjum.

Árið 1903 var hann kjörinn páfi eftir andlát Leós XIII og tók sér nafnið Píus X. Hann beitti sér fyrir umbótum í kirkjunni, einkum hvað varðaði guðsþjónustu, sakramentin og kristnifræðikennslu. Hann lagði sérstaka áherslu á að allir trúaðir – líka hinir fátæku og lítt menntuðu – hefðu aðgang að náð Guðs í sakramentunum.

Árið 1910 gaf hann út tilskipunina Quam singulari, sem breytti verulega lífi barna í kirkjunni: Þar fyrirskipaði hann að börn skyldu fá að ganga til altaris strax við upphaf skynseminnar, yfirleitt um sjö ára aldur, í stað þess að bíða til fermingaraldurs eins og víða tíðkaðist. Hann taldi það órétt að halda börnum frá altarinu með kröfum um djúpan skilning, og sagði: „Leyfið börnunum að koma til mín.“ Með þessu varð Píus X verndari fyrstu altarisgöngu barnanna. Þessi breyting er enn í gildi í kaþólsku kirkjunni í dag, ólíkt mörgum mótmælendakirkjum, þar sem fyrsta altarisgangan fylgir oft fermingunni.

Hátíð fyrstu altarisgöngunnar
Fyrsta altarisganga barns er mikilvæg trúarhátíð í kaþólskum löndum, og oft ein af fyrstu meðvituðu og helgustu andlegu upplifunum barnsins. Hátíðin sjálf er haldin hátíðlega, oft í hvítum klæðum sem minna á skírnina, með skrúðgöngum og blómaskrauti. Foreldrar og fjölskyldur safnast saman, stundum með trega í hjarta yfir því hversu hratt barnið eldist, en með djúpri gleði yfir þessari innilegu tengingu barnsins við Krist. Margir muna þessa stund alla ævi – ilminn í kirkjunni, hljóminn í orgelinu, og rödd prestsins þegar hann segir: „Líkami Krists“ – og barnið svarar í fyrsta sinn með trú og einlægni: „Amen.“

Í gegnum fyrstu altarisgöngu öðlast barnið ekki aðeins samfélag við Krist heldur einnig tilfinningu fyrir því að tilheyra lifandi samfélagi kirkjunnar. Fyrir mörg börn verður þetta fyrsta djúpa skrefið í eigin trúarlífi, og því má segja að hl. Píus X hafi með þessari ákvörðun snert hjörtu milljóna barna og lagt grunn að heilagri vináttu þeirra við Jesú.

Heilagleiki páfa – ofgnótt eða gæfa?
Sumir kunna að velta því fyrir sér hvort það sé ekki fullmikið að lýsa yfir heilagleika páfa – og jafnvel fleiri en eins. Er ekki hætta á að heilagleiki verði að stofnanabundnu viðurkenningarmerki, frekar en raunverulegur vitnisburður um andlegt líf? Slíkar spurningar koma upp ekki síst á okkar tímum, sérstaklega þar sem nokkrir páfar hafa verið teknir í tölu heilagra með fremur skömmu millibili.

En þegar litið er yfir heildarsöguna birtist önnur mynd. Af öllum þeim sem setið hafa á stóli heilags Péturs – yfir 260 páfar – hafa aðeins rúmlega áttatíu verið lýstir heilagir, og þá nær allir á fyrstu öldum kirkjunnar, margir þeirra sem píslarvottar. Á síðustu 200 árum hafa aðeins örfáir páfar hlotið þann heiður að verða teknir í dýrlingatölu: Hl. Píus V, sem staðfesti afstöðu kirkjunnar eftir Trient-þingið og gaf út messubókina; hl. Píus X; hl. Jóhannes XXIII, sem lagði grunn að síðara Vatíkanþinginu; hl. Jóhannes Páll II, sem miðlaði kærleika og miskunn út um allan heim, og hl. Páll VI, sem leiddi kirkjuna í gegnum stormasamt umbótaskeið með trú og staðfestu. 

Þetta eru ekki sjálfgefnar ákvarðanir, heldur viðbrögð við sannri trúarmenningu, djúpum persónulegum vitnisburði og heilagri þjónustu í gegnum mikla ábyrgð. Hl. Píus X stendur þar í hópi þeirra sem ekki voru stórir í augum heimsins, en urðu dýrlingar vegna trúmennsku og auðmýktar. Hann var prestur í hjarta sínu, jafnvel sem páfi – og eins og sagt hefur verið um hann, þá var hann dýrlingur áður en hann varð páfi, og hélt áfram að vera það meðan hann leiddi kirkjuna.

Kirkjan á ekki að staðfesta heilagleika hvers einasta páfa. En þegar líf leiðtogans ber merki um dýpt trúar, einlæga þjónustu og yfirvegaða hlýðni við náð Guðs – þá er það ekki ofgnótt, heldur gæfa. Það er gæfa kirkjunnar að vera á stundum leidd af mönnum sem ekki aðeins héldu henni á réttri braut, heldur leiddu hana sem heilagir hirðar – með hjarta Krists.

Tilvitnun
„Ég er fátækur maður, fæddur af fátækum foreldrum, og vil lifa og deyja í fátækt.“
 – Hl. Píus X

Lærdómur
Píus X minnir okkur á mikilvægi þess að halda fast í kjarnann: Krist sjálfan, í orði sínu, í sakramentunum, í lífi heilagrar kirkju. Hann vildi ekki byltingar í trúmálum heldur endurnýjun í hjörtum. Barátta hans gegn ranghugmyndum var ekki í krafti valdbeitingar heldur í krafti einfaldleika, menntunar og helgunar. Hann er fyrirmynd hvers páfa og hvers hirðis – og líka hvers trúaðs manns: Að lifa af trúfesti, fræðast af kærleika og þjóna í auðmýkt.

Bæn

Guð, sem gerðir heilagan Píus X að trúföstum hirði kirkju þinnar og föður hinna fátæku og smáu, veittu að við sem höfum hlotið fræðslu í trú hans og næringu í sakramentunum sem hann efldi, megum stöðugt vaxa í trú, von og kærleika. Fyrir Krist vorn Drottin. Amen.


Hl. María mey og drottning - minning 22. ágúst

Hl. María mey drottning himins og jarðar við hlið Sonar síns, Guðs og manns á himnum Í dag, 22. maí minnist kirkjan heilagrar Maríu, meyjar ...