03 janúar 2026

Alheilagt nafn Jesú - hátíð 3. janúar

Heilagur Bernharður frá Síena með IHS töfluna sem á eru letraðir fyrstu þrír stafir nafns Jesú á grísku

Sagan og guðfræðileg íhugun

Ritningarlestrar dagsins: Fil 2,1–11 · Sálmur 8,4–9 · Lk 2,21–24
Á áttunda degi eftir fæðingu sína fær barnið nafn sitt. Jesús — „Guð frelsar“. Nafnið er ekki tilviljun heldur yfirlýsing. Í þessari hógværu athöfn, sem guðspjall Lúkasar varðveitir, mætast hlýðni hins hversdagslega og hin eilífa ráðagerð Guðs. Guð kemur ekki aðeins til okkar í holdi, heldur einnig í nafni sem má bera fram, ávarpa og treysta á.

Hátíð Alheilags nafns Jesú beinir athyglinni ekki að hugtaki eða kenningu, heldur að nafni sem kirkjan lifir af og biður í. Nafnið er gefið barninu í kyrrð og fátækt — en reynist síðar vera nafn sem fyllir himin og jörð.



Saga hátíðarinnar
Guðfræðilegur grundvöllur helgunar nafns Jesú liggur þegar hjá Páli postula: „Fyrir því hefur og Guð hátt upp hafið hann og gefið honum nafnið, sem er hverju nafni æðra, til þess að fyrir nafni Jesú skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu.“ (Fil 2,9-10). En sem lifandi trúariðkun mótaðist þessi helgun einkum á miðöldum. Hún naut fyrst ræktar meðal sísternsískra munka og nunna á 12. öld, en blómstraði á 15. öld fyrir tilstilli hins heilaga prests og fransiskana prédikarans Bernharðs frá Síena.

Bernharður ferðaðist fótgangandi milli ítalskra borga sem klofnar voru af hefndum, flokkadráttum og ofbeldi. Lausn hans var hvorki pólitísk né hernaðarleg, heldur andleg: að setja nafn Jesú í miðju samfélagsins. Hann bar með sér táknið IHS, fyrstu þrjá stafi nafnsins Jesú á grísku, sett í logandi sól — tákn ljóss sem skyldi ryðja burt myrkri sundrungar og haturs.

Helgunin breiddist út með fransiskönum og dómíníkönum og síðar með jesúítum. Árið 1530 var sérstök tíðagjörð samþykkt fyrir fransiskana, og árið 1721 var hátíðin útvíkkuð til allrar kirkjunnar.

„Nafnið sem er hafið yfir öll nöfn“ (Fil 2,1–11)
Guðspjall dagsins minnir á hina hógværu nafngjöf barnsins í Lk 2,21. Þar hefst leið sem Páll postuli lýsir síðar í hinu forna ljóði Filippíbréfsins — leið sem liggur frá auðmýkt til upphafningar, frá þjónustu til dýrðar:

„Fyrst Kristur veitir kjark, fyrst kærleikur hans uppörvar, fyrst andi hans skapar samfélag, fyrst þar ríkir hlýja og samúð, gerið þá gleði mína fullkomna með því að vera einhuga, hafa sama kærleika, einn hug og eina sál. Gerið ekkert af eigingirni eða hégómagirnd. Verið lítillát og metið hvert annað meira en ykkur sjálf. Lítið ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra. Verið með sama hugarfari sem Kristur Jesús var.

Hann var í Guðs mynd.
En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur.
Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd
og varð mönnum líkur.
Hann lægði sjálfan sig
og varð hlýðinn allt til dauða,
já, dauðans á krossi.

Fyrir því hefur og Guð
hátt upp hafið hann
og gefið honum nafnið,
sem hverju nafni er æðra,
til þess að fyrir nafni Jesú
skuli hvert kné beygja sig
á himni, jörðu og undir jörðu
og sérhver tunga játa Guði föður til dýrðar:
Jesús Kristur er Drottinn.“

Í þessu ljóði verður ljóst að upphafning nafnsins Jesú er ekki aðskilin frá barninu í jötunni né manninum á krossinum. Sama nafn og er gefið í hlýðni og fátækt er síðar opinberað sem nafn Drottins alls heimsins — ekki vegna yfirráða, heldur vegna sjálfauðmýktar.

Íhugun
Hátíð Alheilags nafns Jesú minnir okkur á að kristin trú er ekki fyrst og fremst kenning, heldur samband. Nafnið Jesú er ekki eign trúaðra né vopn gegn öðrum, heldur gjöf sem sameinar. Að bera nafn Jesú er að ganga sömu leið og hann gekk: leið auðmýktar, þjónustu og kærleika.

Þegar kirkjan beygir kné fyrir nafni Jesú, beygir hún sig ekki fyrir valdi heimsins, heldur fyrir Guði sem gerðist þjónn. Nafnið sem er yfir öllum nöfnum er nafn hins krossfesta — og því nafn vonar, miskunnar og friðar.

Þessari dýpt lýsir heilagur Bernharður með sérstakri innlifun í prédikun sinni um hið alhelga nafn Jesú, sem kirkjan varðveitir í tíðabænabókinni:

„Þetta er sannarlega hið æðsta heilaga nafn, sem ættfeðurnir forðum þráðu svo ákaft, sem þeir biðu svo lengi eftir, í sárri þjáningu, svo margsinnis ákölluðu með svo djúpum andvörpum, báðu svo heitt um með svo mörgum tárum, en var síðan náðarsamlega fært oss, á tímum miskunnseminnar.

Stórkostlegt er því nafn Jesú, grundvöllur trúarinnar sem gerir oss að börnum Guðs. Því að hin kaþólska trú felst í því að færa oss þekkingu á Jesú Kristi og ljósinu: Hann er ljós sálarinnar, dyrnar að lífinu, undirstaða eilífs hjálpræðis.

Jesús er því þessi grundvöllur, ljósið og dyrnar, og birtist svo að hinir villuráfandi finni í honum hinn rétta veg.“


Í þessum orðum mætast ritning og bænalíf. Nafnið sem barnið fær á áttunda degi, nafnið sem Páll lofsyngur eftir krossinn, er sama nafn og kirkjan ávarpar í bæn. Nafnið er ekki aðeins sagt — það er elskað, ákallað og lifað.

Frá íhugun til bænar
Íhugun um nafn Jesú kallar ekki aðeins á skilning, heldur á svar. Nafnið sem kirkjan lofsyngur í ritningunni og boðar í prédikun er nafn sem hún einnig ákallar í bæn. Þar fær íhugunin rödd, og guðfræðin verður að lifandi bænalífi.

Ein elsta og rótgrónasta leið kirkjunnar til að svara nafni Jesú er með litaníu — bænaformi þar sem nafnið er endurtekið, dvalið við og fært inn í hjarta og samfélag trúaðra.

Um litaníur

Orðið litanía merkir einfaldlega bæn í ákallsformi, þar sem einn les eða syngur ákall og söfnuðurinn svarar með sameiginlegu svari. Slíkt bænaform er mjög fornt og á rætur sínar djúpt í kristinni hefð, löngu fyrir klofning kirkjunnar á 16. öld.

Í formála að Bænabók, prentaðri í Ísafoldarprentsmiðju árið 1947, bendir séra Sigurður Pálsson, síðar vígslubiskup í Skálholtsbiskupsdæmi með aðsetur á Selfossi, á að litaníur hafi um aldir verið mjög tíðkaðar um alla kirkjuna, jafnt í kirkjum sem á heimilum. Hann undirstrikar að slíkar bænir hafi verið notaðar í sameiginlegri guðsþjónustu jafnt sem í persónulegri trúariðkun.

Litanían er þannig ekki bundin við eina kirkjudeild né eina hefð, heldur tilheyrir sameiginlegri kristinni arfleifð. Endurtekningin, ákallið og sameiginlega svarið eru ekki tilviljun, heldur tjáning trúar sem leitar ekki aðeins skilnings, heldur einnig samhljóms hjarta og bænar.  Þótt margar litaníur séu til í kristinni hefð, hafa aðeins sex litaníur verið samþykktar af kaþólsku kirkjunni til opinberrar notkunar og gefnar út með formlegum hætti. Þær eru: Litanía af Jesú allra helgasta nafni, Litanía af allra helgasta hjarta Jesú, Litanía af hinu dýrmæta blóði Jesú, Litanía sællar Maríu meyjar (einnig þekkt sem Loretó-litanían), Litanía til heilags Jósefs og Litanía til allra heilagra.

Aðrar litaníur, sem eru yfir hundrað talsins, hafa verið samþykktar til einkatilbeiðslu, en teljast ekki til opinberrar, sameiginlegrar bænahefðar kirkjunnar.

Bæn - Litanía af Jesú allra helgasta nafni
(uppsett með sameiginlegum svörum)

Drottinn, miskunna þú oss.
Kristur, miskunna þú oss.
Drottinn, miskunna þú oss.
Jesús, heyr þú oss.
Jesús, bænheyr þú oss.

Svar við eftirfarandi bænaáköllum er: Miskunna þú oss.

Guð, Faðir í himnaríki,
Guð, Sonur, Lausnari heimsins,
Guð, Heilagur Andi,
Heilög Þrenning, einn Guð,

Jesús, Sonur hins lifanda Guðs,
Jesús, dýrð Föðurins,
Jesús, ljómi eilífs ljóss,
Jesús, konungur dýrðarinnar,
Jesús, sól réttvísinnar,
Jesús, sonur Maríu meyjar,
Ástúðlegi Jesús,
Dásamlegi Jesús,
Jesús, sterki Guð,
Jesús, faðir ókominna alda,
Jesús, sendiboði hins mikla ráðs,
Máttugasti Jesús,
Þolinmóði Jesús,
Hljóðláti Jesús,
Jesús, hógvær og lítillátur af hjarta,
Jesús, elskandi skírlífisins,
Jesús, unnandi vor,
Jesús, Guð friðarins,
Jesús, höfundur lífsins,
Jesús, fyrirmynd dyggðanna,
Jesús, vandlætari sálnanna,
Jesús, Guð vor,
Jesús, faðir hinna fátæku,
Jesús, fjársjóður trúaðra,
Jesús, hinn góði hirðir,
Jesús, sanna ljós,
Jesús, eilífa viska,
Jesús, þrotlausa gæska,
Jesús, leið vor og líf,
Jesús, fögnuður englanna,
Jesús, konungur ættfeðranna,
Jesús, andagift spámannanna,
Jesús, fræðari postulanna,
Jesús, kennari guðspjallamannanna,
Jesús, styrkur píslarvottanna,
Jesús, ljós játendanna,
Jesús, skírleiki meyjanna,
Jesús, kóróna allra heilagra.
---

Ver oss náðugur — væg þú oss, Jesús.
Ver oss náðugur — bænheyr þú oss, Jesús.

Svar við eftirfarandi bænaáköllum er: Frelsa oss, Jesús.

Frá öllu illu,
Frá allri synd,
Frá reiði þinni,
Frá vélráðum djöfulsins,
Frá anda óskírlífis,
Frá eilífum dauða,
Frá afrækslu innblásturs þíns,

Fyrir leyndardóm heilagrar holdtekju þinnar,
Fyrir fæðingu þína,
Fyrir barnæsku þína,
Fyrir guðdómlega æfi þína,
Fyrir þrautir þínar,
Fyrir dauðastríð þitt og píslir,
Fyrir kross þinn og einstæðingsskap,
Fyrir hel drunga þinn,
Fyrir dauða þinn og greftrun,
Fyrir upprisu þína,
Fyrir himnaför þína,
Fyrir stofnun hins helgasta Altarisakramentis þíns,
Fyrir kæti þína,
Fyrir dýrð þína.
---

Guðs Lamb, sem ber burt syndir heimsins,
— væg þú oss, Jesús.
Guðs Lamb, sem ber burt syndir heimsins,
— bænheyr þú oss, Jesús.
Guðs Lamb, sem ber burt syndir heimsins,
— miskunna þú oss, Jesús.

Jesús, heyr þú oss.
Jesús, bænheyr þú oss.

Lofað veri Drottins nafn
— nú og að eilífu.

Vér skulum biðja:
Drottinn vor Jesús Kristur, þú sagðir: Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upplokið verða; vér biðjum þig að gefa oss heilagan eld guðdómlegrar ástar þinnar, svo að vér elskum þig af öllu hjarta með orðum og athöfnum og vegsömum þig án afláts. Unn þú oss þess, Drottinn, að vér ætíð óttumst og elskum þitt heilaga nafn, með því að þú skortir aldrei vernd þína, sem þú hefur grundvallað í kærleika þínum. Þú sem lifir og ríkir um aldir alda.
Amen.



Alheilagt nafn Jesú - hátíð 3. janúar

Heilagur Bernharður frá Síena með IHS töfluna sem á eru letraðir fyrstu þrír stafir nafns Jesú á grísku Sagan og guðfræðileg íhugun Ritninga...