29 desember 2025

Heilagur Tómas Becket, biskup og píslarvottur - minning 29. desember

Víg heilags Tómasar Beckett í dómkirkjunni í Kantaraborg

„Fyrir nafn Jesú og til verndar kirkjunni er ég reiðubúinn að taka á mig dauðann.“ Þessi orð eru eignuð heilögum Tómasi Becket skömmu áður en hann var veginn í Kantaraborgardómkirkju. Hann var maður valds og áhrifa, vanur því að skipa fyrir. En hann dó sem þjónn Krists og píslarvottur – trúr trú sinni og staðráðinn í að verja frelsi kirkjunnar.

Æviágrip
Tómas Becket (f. 1118) var erkibiskup Kantaraborgar frá 1162 til dauðadags, 29. desember 1170. Hann er dýrlingur og píslarvottur bæði í Rómversk-kaþólsku kirkjunni og Anglíkönsku kirkjunni.



Hann var af normönskum uppruna og nam guðfræði og lögfræði, meðal annars í Frakklandi og við háskólann í Bologna, þar sem hann skaraði fram úr fyrir greind og hæfileika. Árið 1154 varð hann erkidjákni í Kantaraborg. Erkidjákni var æðsti samstarfsmaður biskups í stjórnsýslu biskupsdæmisins og gegndi lykilhlutverki í kirkjulegum aga og réttarmálum. Aðeins ári síðar skipaði nýr konungur Englands, Hinrik II, hann kanslara ríkisins.

Tómas var þá nánasti samstarfsmaður konungs og mikill vinur hans. Hann lifði í vellystingum hirðarinnar og naut tákna og forréttinda valds. Samt sýndi hann örlæti í garð fátækra og innra frelsi gagnvart konunginum, sem hann var bæði ráðgjafi og trúnaðarmaður.

Umskiptin í lífi hans urðu þegar hann tók við kjöri sem erkibiskup árið 1162. Skipunin var eindregið studd af konungi, sem vænti þess að fá þar hlýðinn bandamann. En frá þeirri stundu varð Tómas fyrst og fremst þjónn Guðs. Þegar Hinrik II reyndi að skerða sjálfstæði kirkjunnar með svokölluðum Clarendon-ákvæðum, neitaði erkibiskupinn staðfastlega að undirrita. Vinátta þeirra breyttist í harðan ágreining. Sumt í Clarendon-ákvæðunum kann að hljóma eðlilega í nútímasamfélagi, en á 12. öld snerist ágreiningurinn um grundvallarspurninguna: hvort kirkjan ætti að lúta veraldlegu valdi eða standa sjálfstæð í krafti köllunar sinnar.

Í sama straumi kirkjulegra umbóta og Ísland
Þótt engar heimildir greini frá persónulegum fundi Tómas Becket og Þorláks helga, er næsta öruggt að þeir hafi lifað og starfað innan sömu hugmyndastrauma guðfræði og menningar sem mótuðu Norður-Evrópu á 12. öld. Báðir voru þeir menntaðir innan hins latneska kirkjuheims í Frakklandi og Englandi, þar sem ný sjálfsmynd kirkjunnar var í mótun — sjálfsmynd sem átti rætur í svokölluðum Gregorískum umbótum, kenndum við Gregoríus VII.

Kjarni þessara umbóta var hugmyndin um frelsi kirkjunnar (libertas Ecclesiae): að kirkjan skyldi ekki lúta veraldlegu valdi í andlegum eða innri málum sínum, að biskupar væru fyrst og fremst hirðar Guðs en ekki þjónar konunga, og að samviskan væri bundin Guði einum. Í Englandi varð Tómas Becket holdgervingur þessarar hugsunar í beinum árekstrum við konungsvaldið. Á Íslandi birtist sami andi í starfi Þorláks helga. Aðstæður þeirra voru ólíkar, en átökin spruttu úr sama jarðvegi.

Píslarvottur trúar og frelsis
Misskilin orð Hinriks II., sem hann lét falla í reiði, urðu til þess að fjórir riddarar héldu til Kantaraborgar og réðu erkibiskupinum bana í sjálfri dómkirkjunni  29. desember 1170. Ódæðið var framið skömmu eftir aftansöng, í norðurþverskipinu nálægt altarinu. Morðið vakti mikla hneykslan um alla hina kristnu Evrópu og var strax litið svo á að um píslarvætti væri að ræða.

Þremur árum síðar, 21. febrúar 1173, viðurkenndi Alexander III páfi píslarvætti hans og lyfti honum til dýrðar altarisins. Konungurinn reyndi síðar að bæta fyrir brot sitt með opinberri píslargöngu um götur Kantaraborgar að gröf píslarvottsins árið 1174.

Pílagrímar og arfleifð

Gröf Tómasar Becket varð fljótt einn helsti pílagrímastaður Englands á miðöldum. Síðasta ferð hans til Kantaraborgar var farin frá Southwark í Lundúnum, og varð þessi spölur vinsæl pílagrímaleið. Fyrir ferðina fengust sömu aflát og ívilnanir af kirkjunnar hálfu og ef farið var til fjarlægra pílagrímastaða á borð við Santiago de Compostela á Spáni, sem Halldór Laxness nefnir Kompóstelu, Landsins helga eða Rómar.

Hinar kunnu Kantaraborgarsögur eftir Geoffrey Chaucer frá lokum 14. aldar eru sagðar af hópi pílagríma sem ferðast þessa leið.

Árið 1220 voru jarðneskar leifar dýrlingsins skrínlagðar í Þrenningarkapellunni (Trinity Chapel) í Kantaraborgardómkirkju. Þær voru þó eyðilagðar árið 1538 samkvæmt fyrirmælum Hinriks VIII, sem jafnframt bannaði að minnst yrði á dýrlinginn.

Saga Tómasar Becket lifði áfram í bókmenntum og listum. Bandaríska skáldið T. S. Eliot byggði á lífi hans þegar hann samdi leikritið Murder in the Cathedral, eitt áhrifamesta trúarleikrit 20. aldar. Texti sem Eliot var beðinn að fjarlægja úr verkinu var síðar birtur í kvæðinu Burnt Norton.

Tilvitnun
Úr bréfi heilags Tómasar Beckets biskups:„Ef vér sem kallaðir erum biskupar höfum löngun til að skilja merkingu köllunar vorrar og vera verðugir henni, verðum vér að festa augu vor á hann sem Guð setti sem æðstaprest að eilífu og fylgja í fótspor hans. Allur félagshópur hinna heilögu ber vitni um hinn óbilandi sannleika: að enginn vinnur sigursveiginn án mikillar vinnu.“ Úr tíðabænabókinni

Lærdómur
Orð Tómasar varpa ljósi á líf hans og dauða: biskupsköllunin er ekki heiður án fórnar, heldur eftirfylgd Krists allt til enda. Heilagur Tómas Becket minnir á að sannur trúarleiðtogi getur ekki selt samvisku sína, jafnvel þótt það kosti vináttu, stöðu eða lífið sjálft. Frelsi kirkjunnar og trúfesti við Krist eru verðmæti sem ekki verða tryggð nema með trúfesti, þolgæði og reiðubúnum vilja til að bera krossinn.

Bæn
Guð almáttugur,
þú gafst heilögum Tómasi Becket styrk til að standa vörð um sannleika og réttlæti, jafnvel þegar það kostaði hann lífið. Gef oss sama hugrekki og trúfesti, að við leitum fyrst þíns vilja og þjónum þér af heilu hjarta.
Amen.

--
Endurunnið og sameinað upphaflegum pistli sem birtist fyrst á kirkju.net 29. desember 2009, með síðari viðbótum og dýpkun efnis.

Heilagur Tómas Becket, biskup og píslarvottur - minning 29. desember

Víg heilags Tómasar Beckett í dómkirkjunni í Kantaraborg „Fyrir nafn Jesú og til verndar kirkjunni er ég reiðubúinn að taka á mig dauðann.“ ...