27 desember 2025

Heilagur Jóhannes postuli og guðspjallamaður - hátíð 27. desember

Heilagur Jóhannes guðspjallamaður og svipmyndir úr ævi hans

Við sjáum hann fyrst við Galíleuvatn, ungan fiskimann sem situr með föður sínum og bætir net. Í hita og þunga dagsins kveður skyndilega við ákveðið kall: „Fylgið mér.“ (Sjá Mt 4,21–22; sbr. Mk 1,19–20.) Svarið er afdráttarlaust. Jóhannes skilur eftir bátinn, föður sinn og öryggi hins kunnuga. Á þessu augabragði glittir í djúpa viðurkenningu — hér er sá sem Ísrael hefur beðið eftir. Síðar mun hann horfa aftur til þessarar stundar, en leiðin reynist lengri og torsóttari en hann gat ímyndað sér. Hann sér Jesú biðja, kenna, sefa storma og reisa barn frá dauðum. Samt gat hann ekki vitað að hann myndi einn daginn standa við krossinn og horfa á vin sinn deyja. Þar, í myrkrinu, öðlast orð sálmsins nýja merkingu: „Ég vil leita auglitis þíns, Drottinn.“ (S.27,8)

„Þrumusonurinn“ sem lærði kærleika
Guðspjöllin sýna Jóhannes sem ákafan mann. Jesús kallar hann og bróður hans „þrumusyni“. Þeir vilja kalla eld af himni yfir þá sem hafna Meistaranum; þeir biðja um heiðurssæti í „dýrðinni“. Í báðum tilvikum eru þeir áminntir. En þessi leiðsögn er hluti af uppeldi kærleikans.

Kærleikurinn verður áþreifanlegur á þeim dögum sem hefjast með því að Meistarinn þvær fætur lærisveinanna. Jóhannes er eini postulinn sem guðspjöllin nefna að hafi verið við krossinn. Þar stendur hann með Maríu, móður Jesú, og heyrir orð sem grundvalla nýtt samfélag: „Sjá, sonur þinn … sjá, móðir þín.“ (Jóh 19,26–27) Honum er trúað fyrir meymóðurinni! Hann sér einnig spjótinu stungið í síðu Krists og blóð sáttmálans renna: „Sá sem sá þetta ber vitni — og vitnisburður hans er sannur.“

Hinn elskaði lærisveinn
Guðspjall Jóhannesar talar ítrekað um hinn elskaða lærisvein. (Jóh 13:23–25, 19:26–27, 20:2–8, 21:7, 21:20–24) Athyglisvert er að guðspjallið nefnir aldrei berum orðum að elskaði lærisveinninn sé Jóhannes. Frá elstu tíð kirkjunnar hefur þó verið lögð áhersla á að samsama þessa tvo. Samt felst í þessari mynd dýpri merking sem hætt er við að glatist ef við sjáum aðeins einstakling.

Hinn elskaði lærisveinn stendur fyrir hið nýja samfélag sem fæðist kringum Jesú. Við krossinn stendur hann ásamt Maríu. Hún táknar þjóð Gamla sáttmálans; hann táknar hina nýju kirkju. Þegar Jesús segir: „Sjá, sonur þinn … sjá, móðir þín,“ eru þau kölluð til að vera saman. Á þeim tímum þegar lokagerð guðspjallsins varð til, undir lok 1. aldar, jókst spenna milli sýnagógu og kirkju. Sumir kristnir vildu slíta tengslin við Gamla testamentið. Orð Jesú við krossinn verða þá skilin sem djúp guðfræðileg yfirlýsing: ekki má skilja Gamla og Nýja sáttmála að — ekki frekar en að skilja trú og líf í sundur.

Sá sem sér og trúir
Í guðspjalli dagsins, Jh, 20, 2-8 hlaupa Pétur og hinn elskaði lærisveinn saman að gröfinni eftir að hafa heyrt vitnisburð Maríu Magdalenu. Sá yngri kemur fyrstur, lítur inn, en fer ekki inn. Hann bíður Péturs. Báðir sjá hið sama: línklæðin og sveitadúkinn. Samt segir textinn aðeins um hinn elskaða lærisvein: „Hann sá og trúði.“ Ekki vegna þess að Pétur trúði ekki, heldur vegna þess að sýn þeirra er ólík.

Hinn elskaði lærisveinn sér með augum kærleikans. Hann skynjar nærveru hins nýja — lífsins sem brýst fram úr dauðanum. Sama augnaráð birtist síðar við vatnið eftir fiskafla fenginn fyrir kraftaverk: „Það er Drottinn!“ Kærleikurinn sér fyrst; skilningurinn fylgir í kjölfarið. Pétur lærir af þessu augnaráði, og þegar Jesús spyr hann þrisvar: „Elskar þú mig?“ og felur honum hjörðina, verður Pétur sjálfur hluti af þessum kærleiksfulla skilningi. Hann verður, í þeim skilningi, einnig „elskaður lærisveinn“.

Sá sem sér langt
Fyrsta Jóhannesarbréf hefst með vitnisburði snertingarinnar: „það sem við horfðum á og hendurnar þreifuðu á“ (Sjá 1 Jóh 1,1) Sá sem hefur séð Orðið holdi klætt gleymir því aldrei. Af þessari reynslu sprettur kjarnasetning trúar hans: „Guð er kærleikur.“ Hefðin segir að Jóhannes hafi búið í Efesus, einni stærstu og áhrifamestu borg Litlu-Asíu á tímum Rómaveldis, ásamt Maríu, móður Jesú; í dag er Efesus ekki lengur lifandi borg heldur víðfeðmt fornminjasvæði í vesturhluta Tyrklands og mannlíf hefur flust til nærliggjandi bæjar Selçuk, en rústirnar bera enn vitni um heiminn sem kristin trú mótaðist í. 

Á dögum Dómitíanusar keisara, sem krafðist keisaradýrkunar og kallaði sig „Drottin og Guð“, var Jóhannes sendur í útlegð á Patmos, lítilli og afskekktri eyju í Eyjahafi. Þar, í einangrun og ofsóknum, heyrði hann hina kunnuglegu rödd Krists og fékk þær sýnir sem urðu að Opinberunarbókinni — vitnisburð um að Kristur einn er Drottinn tímans og sögunnar. Þar fékk sá sem hafði séð allt frá „upphafi“, einnig að sjá endann. Tákn hans í listinni er örninn — augu sem lyftast hátt og sjá langt. Í Opinberunarbókinni heyrir hann kunnuglega rödd: „Ég er Alfa og Ómega, upphafið og endirinn.“ Sá sem hafði séð vin sinn og Meistara, þekkir nú Drottin tímans og sögunnar.

Lærdómur dagsins
Á hátíð heilags Jóhannesar er kirkjan kölluð til að verða hinn elskaði lærisveinn. Allir sem trúa eru boðaðir til þessa augnaráðs og hlustunar kærleikans — að sjá nærveru Krists í lífinu, í ritningunni og í samfélaginu. Að aðskilja ekki trúna frá daglega lífinu, ekki Gamla sáttmálann frá þeim Nýja, heldur lifa heildstæðu lífi sem bæði heyrir rödd Drottins og kemur einnig auga á Hann í óvæntum aðstæðum. 

Bæn
Drottinn Jesús,
þú elskaðir lærisvein þinn og treystir honum fyrir móður þinni.
Gef okkur sýn og hlustun kærleikans,
að við sjáum nærveru þína og trúum upprisunni
heyrum rödd þína, fylgjum þér
og segjum með einföldu trausti:
„Það er Drottinn.“
Amen.

Heilagur Jóhannes postuli og guðspjallamaður - hátíð 27. desember

Heilagur Jóhannes guðspjallamaður og svipmyndir úr ævi hans Við sjáum hann fyrst við Galíleuvatn, ungan fiskimann sem situr með föður sínum ...