04 janúar 2026

Birting Drottins – stórhátíð ljóss, ferðar og tilbeiðslu

Birting Drottins, Kaspar, Melkíor og Baltasar færa barninu gull, reykelsi og myrru

Birting Drottins er stórhátíð í kirkjuárinu og ein hin elsta í kristinni hefð. Upprunalega er hún haldin 6. janúar, en í mörgum löndum, þar á meðal hér á landi, hefur hátíðin verið færð til næsta sunnudags svo sem flestir geti tekið þátt í helgihaldinu. Sú tilfærsla breytir þó engu um inntak hátíðarinnar: að Guð birtir sjálfan sig í Jesú Kristi sem ljós allra þjóða.

Heitið epifanía, sem gjarnan er notað um hátíðina á erlendum málum merkir birting eða opinberun. Á Birtingu Drottins horfir kirkjan ekki aðeins til barnsins í jötunni, heldur til þess hver hann er: konungur, Messías og Drottinn alls heimsins.


Saga hátíðarinnar – ein opinberun, ólíkar áherslur
Í fornkirkjunni var 6. janúar ein af meginhátíðum kristinna manna. Þá var ekki gerður skýr greinarmunur á fæðingu Jesú, komu vitr­inganna, skírn hans í Jórdan og fyrstu opinberu verkum hans. Allt þetta var skilið sem eitt og sama leyndarmálið: Guð birtist í heiminum.

Þegar jóladagur, 25. desember, festist í sessi í vestri á 4. öld, breyttist áherslan á Birtingu Drottins. Í vestrænni kirkju varð hún einkum hátíð komu vitr­inganna, þegar Kristur birtist heiðingjunum og þar með öllum þjóðum. Í austrænni kirkju er hún fyrst og fremst tengd skírn Jesú, þar sem heilög þrenning birtist opinberlega. Þrátt fyrir ólíkar áherslur er boðskapurinn einn: barnið í Betlehem er konungur og Drottinn alls heimsins. Þessar áherslur sjást allar skýrt í fornri íslenskri stólræðu um hátíðina: 

„Hátíð sú er vér höldum í dag, góðir bræður, hefir helgast af þrem stórmerkjum. Á þessum degi færðu þrír austurvegskonungar fórnir Drottni órum Jesú Kristi; þar var gull, reykelsi og myrru. Á þessum degi var Drottinn skírður í Jórdan...Þrennum jarteinum lét Guð helgast eina hátíð, að hann sýndi sig vera einn Guð í þrenningu og þrennan í einingu. “ Íslensk hómilíubók - Epifania Domini [Opinberun Drottins. Á þrettándanum] bls. 114. Útg. Hið íslenska bókmenntafélag Reykjavík 1993. 

Með breytingum á helgisiðum kirkjunnar var ákveðið árið 1969 að Skírn Drottins yrði sérstök hátíð í vestrænni kirkju og skyldi haldin næsta sunnudag á eftir Birtingu Drottins. Þar með var sú áhersla, sem áður var hluti af Birtingarhátíðinni – einkum í austrænni hefð – skýrlega aðgreind og færð á eigin hátíð. Með hátíð Skírnar Drottins lýkur jólatímanum í kirkjuárinu, þótt kirkjan haldi jafnframt eftir ákveðnum „opnum glugga“ fram að 2. febrúar, hátíðar Kyndilmessu.

Ekki aðeins barn – heldur konungur og Messías
Á jólum horfum við á fæðingu barns í fátækt og kyrrð. Með Birtingu Drottins er dregið fram hver hann er: Messías og Drottinn allra þjóða. Spádómur Jesaja fyrir hinni helgu borg rætist: „Statt upp og skín þú, því að ljós þitt kemur og dýrð Drottins rennur upp yfir þér.“ (Jes 60,1). Hér er spádómur spámannsins mæltur fram til borgarinnar Jerúsalem sem í kristnum skilningi er gjarnan litið á sem borg hjartans, þar sem Guð býr, samanber rit heilagrar Teresu frá Avíla um borgina hið innra. Ljósið laðar þjóðirnar að sér. Vitringarnir verða tákn allra leitenda sannleikans sem hafa kjark til að hefja upp augu sín og leggja af stað í pílagrímsgöngu trúarinnar.

Vitringarnir og Heródes – tvenns konar viðbrögð - Matteus 2, 1-12

Vitringarnir leita konungs þar sem rökrétt virðist að leita – í höll. Þar rekast þeir á Heródes og á hina lærðu sem þekkja spádómana um hvar Messías eigi að fæðast, en leggja sjálfir ekki upp í ferðina. Þekking þeirra og lærdómur verður þeim af einhverjum ástæðum ekki tilefni til ferðar. 

Vitringarnir koma langt að. Þeir eru tilbúnir að viðurkenna mistök sín þegar stjarnan hverfur um stund, en þeir halda áfram í trú.  Heródes sér hins vegar í barninu ógn. Ótti við að missa völdin blindar hann. Þannig afhjúpar Birting Drottins ekki aðeins Krist, heldur líka hvað býr í hjörtum manna. Það er táknrænt að eftir að hafa hitt barnið og fá bendingu í draumi ákveða vitringarnir að víkja af vegi Heródesar, sem í söguni er táknrænn fyrir illsku heimsins. 

Gjafir vitr­inganna – tilbeiðsla og sjálfsgjöf
Gjafir vitr­inganna eru ekki tilviljun. Gull og reykelsi minna á gjafir drottningarinnar af Saba til Salómons konungs. Gullið táknar konungdóm Krists, reykelsið guðdóm hans – tilbeiðslu sem aðeins Guði einum ber, og myrran mannleika hans og dauða. Gjafirnar segja alla sögu Krists í einni mynd. En stjarnan leiðir ekki aðeins til gjafa, heldur til tilbeiðslu: vitr­ingarnir falla fram og lúta leyndardóminum. Þar verður gjöfin að sjálfsgjöf.

Nöfn vitr­inganna og húsblessun á Birtingu Drottins
Guðspjall Matteusar nefnir vitr­ingana ekki með nafni og segir ekki hve margir þeir voru. Sú hefð að þeir séu þrír tengist gjöfunum þremur: gulli, reykelsi og myrru. Með tímanum festust einnig við þá nöfnin Kaspar, Melkíor og Baltasar, sem eru kunn víða um hinn kristina heim.

Þessi nöfn birtast í kristinni hefð frá um 6. öld og tengjast bæði helgisiðum og myndlist. Í vestrænni kirkju varð algengt að líta á vitr­ingana sem fulltrúa ólíkra heimsálfa og kynslóða: einn ungan, einn miðaldra og einn aldraðan; einn frá Evrópu, annar frá Asíu og sá þriðji frá Afríku. Þannig varð ferð vitr­inganna að mynd af alheimsboðskap kristninnar: Kristur er ekki aðeins konungur Ísraels, heldur Drottinn alls mannkyns.

Úr þessari hefð spratt einnig siðurinn að blessa heimili á Birtingu Drottins, siður sem er enn lifandi hér á landi. Prestarnir fara í húsvitjanir og blessa heimili í tilefni hátíðarinnar og skrifa þá gjarnan með krít eða líma miða yfir dyr með eftirfarandi áletrun:

C ✝ M ✝ B ✝ 20XX

Þetta er oft skilið sem upphafsstafir vitr­inganna – Caspar, Melchior, Balthasar – en hefur jafnframt dýpri merkingu. Stafirnir má lesa sem latneska bæn: Christus mansionem benedicat – Kristur blessi þetta heimili. Húsblessunin minnir á að ferð vitr­inganna endar ekki aðeins við vöggu barnsins í Betlehem, heldur heldur áfram inn í líf kirkjunnar og heimili manna. Ljós Krists vill ekki aðeins skína í fjarlægri fortíð, heldur koma inn í hús okkar, daglegt líf og sambönd. Þannig verður Birting Drottins ekki aðeins minning, heldur lifandi veruleiki.

Guðfræðileg dýpkun – ferð, stjarna og tilbeiðsla
Guðspjall Birtingar Drottins er byggt upp eins og helg ferð. Allt í frásögn Matteusar er hreyfing: að leggja af stað, leita, villast, snúa við og halda áfram. Ytra ferðalag vitr­inganna felur í sér dýpra ferðalag trúarinnar. Þetta er svar við kalli Guðs sjálfs, sem dregur, laðar og gengur með þeim sem leita hans.

Þessi ferð er hluti af langri biblíulegri hefð. Abraham yfirgefur land sitt, Jakob verður pílagrímur umbreytingar, Móse leiðir fólk sitt út úr ánauð. Í Nýja testamentinu stendur enginn kyrr: Jesús er á stöðugri leið, postularnir eru sendir út, kirkjan lifir í sífelldri útferð. Exodus trúarinnar lýkur aldrei.

Á þessari leið birtist stjarnan – tákn nærveru Guðs sem yfirgefur ekki sína. Hún lýsir ekki allan veginn í einu, heldur nægir hún til næsta skrefs og krefst trausts. Ferðin endar í tilbeiðslu. Í Biblíunni er tilbeiðsla heildstæð athöfn: hugur, vilji og líkami taka þátt. Í Nýja testamentinu verður hún afstaða hjartans – að lifa í anda og sannleika og leggja lífið í hendur Guðs.

Ljóð og tónlist – Ljómi barnsins
Birting Drottins hefur í tímans rás orðið uppspretta sköpunar bæði í tónlist og ljóðum. Hér er söngtexti, saminn við þekkt lag, „A whiter shade of pale“ með hljómsveitinni Procol Harum, byggður á heimsókn vitr­inganna. Textinn var frumfluttur og sunginn á aðventutónleikum í Selfosskirkju árið 2007. Söngvari var Gunnar Guðni Harðarson. Undirleikur var strengjasveitar Tónlistarskóla Árnessýslu og Esterar Ólafsdóttur sem lék á orgel. Stjórnandi var Greta Guðnadóttir. 

Ljómi barnsins

Við ferðuðumst um nætur
í ljóma stjörnunnar
um eyðisand og merkur
í von að fá nú svar
Kynngimagnað næturhúmið
kvað sitt huldudjúpa ljóð
um óræð hinstu örlög manna
– en við misstum ekki móð –

En svo gerðist það – yfir hellinum var stjarnan kyrr
og birtan þýddi hjarta hjarn
hún kom frá stjörnuhimni heiðum
og frá ásýnd – lítils barns

Í ómi mildrar þagnar
þú færir okkur von
Í stjörnuskini huggar
ung kona lítinn son
gull reykelsi og myrru
við berum þér að gjöf
um jörðina fer gleðistraumur
um hjörtun hlýleg svör

En svo gerðist það – yfir hellinum var stjarnan kyrr
og birtan þýddi hjarta hjarn
hún kom frá stjörnuhimni heiðum
og frá ásýnd – lítils barns

Og fjárhirðarnir komu
og fluttu þessi boð
Um englaraddir bjartar
vefa gullna orðavoð
Mikinn frið ég ykkur færi
og fögnuð hér í dag
ykkur frelsari er fæddur
syngjum lof- og dýrðarlag

Bæn
Drottinn Jesús,
ljós þjóðanna og morgunstjarna okkar,
vektu í hjörtum okkar heilagan ferðahug
sem lætur okkur leggja af stað þegar þú kallar.

Gef að við fylgjum ljósinu sem þú gefur
og snúum heim aðra leið,
umbreytt af fundinum við þig,
sem lifir og ríkir um aldir alda.
Amen.


Heilagur Jóhannes af Krossinum og sköpunin sem „höll“ – í samtali við Laudato Si’

Heilagur Jóhannes af Krossinum íhugar sköpunarverkið Á árinu 2026 býður Karmelreglan okkur að lesa rit heilags Jóhannesar af Krossinum með s...