![]() |
Hl. Jóhann María Vianney verndardýrlingur sóknarpresta. Mynd: ChatGPT |
„Ef við skildum í raun hver presturinn er á jörðu, myndum við deyja – ekki af ótta, heldur af elsku.“ Þessi orð eru eignuð hinum heilaga Jóhannesi Maríu Vianney, presti og dýrlingi sem í dag, 4. ágúst, er minnst í kaþólsku kirkjunni um allan heim. Hann var óvenjulegur maður: einfaldur, en andlega djúpur, hreinn og staðfastur í kærleika.
Hl. Jóhannes María fæddist í Dardilly nálægt Lyon árið 1786, á umbrotatímum byltingarinnar í Frakklandi. Hann ólst upp við djúpa trú í skugga ofsókna og sótti sína fyrstu skriftir og altarisgöngu í leynilegri messu. Þegar hann varð 17 ára fann hann köllun til prestsembættis. Námið sóttist þó seint, sérstaklega vegna erfiðleika hans með latínu, og fékk hann ekki inngöngu í prestaskólann í Lyon. En guðsótti og hreinar dyggðir unnu honum hylli eldri prests, sem tók hann í einkakennslu og lagði honum lið til vígslu.
Árið 1818 var hann sendur sem sóknarprestur til Ars-sur-Formans, fámenns sveitaþorps skammt norður af Lyon, þar sem trú- og siðferði hafði beðið hnekki. Með bænum, meinlætum og óþreytandi elju vann hann samfélagið smám saman aftur til trúarinnar. Hann var sagður sjá inn í hjörtu manna, hugga samviskuna, veita leiðsögn, sýna miskunn og gleði í skriftunum. Fólk streymdi til Ars víða að. Hundruð manna biðu dag hvern eftir að komast í skriftastólinn. Fólksstraumurinn var svo mikill að járnbrautarfélagið varð að opna bókunarskrifstofu í Lyon vegna ferðanna til Ars og koma á sérstökum áætlunarferðum þangað. Farmiðinn til Ars gilti í átta daga, því að fólk þurfti að bíða svo dögum skipti til að komast í skriftastólinn.
Hann veitti sér lítið og lagði á sig meinlæti. Hann hóf daginn klukkan eitt að nóttu, hringdi til Angelusbænar og hóf skriftir. Klukkan sjö messaði hann og síðan tók hann börn í kvertíma. Að hádegisverði loknum – sem sjaldnast tók meira en fimmtán mínútur – heimsótti hann sjúka og sneri svo aftur í skriftastólinn fram að kvöldbænum.
Talið er að hann hafi að jafnaði varið um átján klukkustundum á sólarhring í að hlýða á skriftir. Hann stofnaði líka munaðarleysingjahæli og eru til frásagnir um kraftaverk sem tengdust bæði bæn hans og kærleika. Mönnum sem höfðu gefist upp á að bjarga sjúkum ættingjum sínum var sagt að snúa sér til sóknarprestsins í Ars – og oft fengu þeir nýja von.
Engu að síður hlaut hann gagnrýni. Sumir prestar álitu hann geðveikan og gerðu gys að frásögnum af dulrænum fyrirbærum í prestsbústaðnum – næturhljóðum, líkneski voru ötuð aur, reiðilegar raddir heyrðust og dularfullur eldsvoði braust út en hjaðnaði svo aftur jafnskjótt. En þegar einn þeirra varð sjálfur vitni að þessu, sagði hann: „Ég mun ekki hæðast að þessum undrum framar, heldur vitna um heilagleika prestsins.“ Séra Vianney svaraði öllu með hógværð: „Það er krækirinn sem stendur fyrir þessu. Hlæjum bara að honum.“
Hl. Jóhannes María Vianney andaðist þann 4. ágúst 1859, þá 73 ára gamall, útslitinn eftir langa ævi bænahalds og þjónustu. Hann var tekinn í dýrlingatölu árið 1925 og gerður að verndardýrlingi sóknarpresta um allan heim fjórum árum síðar. Enn í dag streyma pílagrímar til Ars og sjá líkama hans í glerkistu yfir hliðaraltari kirkjunnar, skrýddan prestsskrúða, með andlit sem lýsir djúpum friði og góðvild.
Þegar íslenskur unglingahópur kom til Ars árið 1989, á leið sinni frá Meðugorje, dvaldi hann við kirkjuna, húsið og munaðarleysingjahælið. Í dagbókarfærslu úr ferðinni segir: „En það sem allra mesta furðu vakti var að líkami sóknarprestsins er til sýnis í glerkistu fyrir ofan hliðaraltari í kirkjunni. Hann er skrýddur fullum prestsskrúða. Andlitið hafði verið vaxborið. Þarna lá þessi litli líkami, varla lengri en einn og hálfur metri og hallaðist andlitið í áttina til ferðafólksins. Það var mikill friður yfir ásjónunni og góðleiki.
Á veggnum til vinstri hékk óskaplegur fjöldi gamalla heiðursmerkja. Þegar betur var skoðað kom í ljós að nafn sóknarprestsins sást ekki á þeim. Þetta virtust vera heiðursmerki þeirra sem höfðu skriftað, skilin eftir hjá sóknarprestinum. Þarna ægði öllu saman. Þeim sem unnið höfðu til heiðursmerkjanna fannst greinilega ekkert betra gert við þau en að gefa þau litla prestinum, manninum sem sumir þeirra efagjörnu álitu ruglaðan.“
Tilvitnun úr prédikun hl. Jóhannesar Maríu Vianney:
„Presturinn er ekki prestur fyrir sjálfan sig, hann er það fyrir yður. Ekkert embætti, ekkert æruverðugt starf er háðara náð Guðs en prestsembættið. Hann á að vera í einingu við Krist, að lifa, þjást og deyja með honum. Ef hann gerist líkur Kristi, þá skynjar fólk nærveru Guðs.“
---
Úr Trúfræðslu heilags Jóhannesar Maríu Vianney prests:
(Kafli úr Tíðabænabók Kaþólsku kirkjunnar, efri óttusöng 4. ágúst 2025,
Catéchisme sur la prière: A. Monnin, Esprit du Curé d’Ars, Paris 1899, pp. 87-89, þýðandi ókunnur.)
Dýrleg ástundun mannsins: Að biðja og elska.
Börnin mín, hugleiðið þessi orð: Fjársjóður kristins manns er ekki á jörðu heldur á himnum. Því eigum vér að beina hugsun vorri þangað sem fjársjóður vor er. Þetta er dýrleg ástundun mannsins: Að biðja og elska. Unun mannsins felst í að biðja og elska.
Bænin er ekkert annað en að vera í Guði. Þegar maður hefur hjarta sem er hreint og samgróið Guði er honum gefin eins konar friðsæld og sætleiki sem færir honum sæluvímu – ljós sem umlykur hann undraverðri birtu. Í þessari nánu einingu renna Guð og sálin sama líkt og tveir vaxdropar sem enginn fær nokkru sinni sundur skilið. Þessi eining Guðs við örsmáa sköpun er unaðslegt. Hún er hamingja sem orð fá ekki lýst.
Vér vorum orðnir óverðugir þess að biðja en Guð leyfði oss í gæsku sinni að tala við sig. Bænir vorar eru reykelsið sem veitir honum hina mestu ánægju.
Börnin mín, hjarta yðar er smátt en bænin þenur það og gjörir því kleift að elska Guð. Með bæninni fáum vér forsmekkinn að himnaríki og eitthvað af paradís stígur niður yfir oss. Bænin skilur aldrei við oss án sætleika. Hún er hunang sem flæðir inn í sálina og gjörir allt sætt. Þegar vér biðjum með réttum hætti hverfur sorgin líkt og snjórinn meðan sólin skín.
Bænin lætur einnig tímann líða fljótt og af slíkri gleði að enginn merkir lengd hans. Hlýðið á: Eitt sinn þegar ég var birgðasali í Brasse og flestir kollegar mínir voru lasnir varð ég að ferðast langa vegu. Ég bað til góðs Guðs og það megið þér trúa að tíminn virtist ekki langur.
Sumir menn sökkva sér djúpt í bænina líkt og fiskur í vatni vegna þess að þeir gefa sig algjörlega Guði. Hjarta þeirra er heilt. Ó hve ég elska þessar göfugu sálir! Heilagur Frans frá Assisi og heilög Kóletta sáu iðulega Drottin vorn og töluðu við hann alveg eins og vér tölum hvert við annað.
Hve ólík vér erum þeim! Hve oft vér komum í kirkju og höfum enga hugmynd um hvað vér eigum að gjöra eða biðja um. Eigi að síður í hvert skipti sem vér förum til einhvers manns vitum vér vel hvers vegna vér förum. Og það sem verra er sumir virðast tala við góðan Guð með þessum hætti: „Ég ætla að eiga fáein orð við þig og síðan segi ég skilið við þig.“ Oft held ég að þegar vér komum til að dýrka Drottin þá myndum vér öðlast allt sem vér biðjum um ef vér biðjum af lifandi trú og með hreinu hjarta.
---
Bæn:
Hinn heilagi Jóhannes María Vianney, þú varst trúfastur þjónn í auðmýkt, í bæn og fórnfýsi sem endurspeglaði hjarta Krists. Kenndu okkur að lifa í kærleika, að þjóna í gleði og að iðrast í von. Megi fyrirbæn þín vera okkur styrkur og lýsi veg okkar til Jesú Krists, hins góða Hirðis. Amen.