![]() |
| Heilagur Nikulás í Bár (frá Myra) |
Hinn 6. desember minnumst við heilags Nikulásar, biskups frá Mýru í Lýkíu, eins ástsælasta dýrlings kristninnar. Í kringum persónu hans hafa myndast ótal siðir og þjóðtrú, allt frá hollenskum Sinterklaas til jólasveinsins sem börn um allan heim þekkja í dag. En á bak við þessar þróuðu hefðir stendur skýr og kraftmikil mynd af manni sem lifði lífi hlýðni, örlæti og þjónustu við hina smæstu.
Heilagur Nikulás fæddist í Patara í Lýkíu á 3. öld og ólst upp á kristnu heimili þar sem trúin og kærleikurinn voru honum leiðarljós frá bernsku. Þegar hann missti foreldra sína ungur ákvað hann að verja arfi sínum til að lina neyð hinna fátæku, sjúku og varnarlausu. Þessi rótfesta í miskunn og gjafmildi mótaði allt hans líf og varð kjarni þjónustu hans síðar sem biskups.
Æviágrip
Nikulás var kjörinn biskup í Mýru og varð fljótt þekktur fyrir staðfasta framgöngu, réttsýni og þjónustulund. Í ofsóknum Díókletíanusar var hann hnepptur í fangelsi og þoldi harðræði, líkt og fjölmargir kristnir leiðtogar þess tíma, en lifði ofsóknirnar af. Hann tók þátt í fyrsta allsherjarþingi kristinnar kirkju í Níkeu árið 325 og lést 6. desember 343. Grafhýsi hans í Mýru varð snemma á miðöldum mikill pílagrímastaður.
Eitt þekktasta dæmið um örlæti hans er sagan af manninum sem átti þrjár dætur og stóð frammi fyrir því neyðarúrræði að selja þær í óskírlífi. Nikulás batt gull í dúk og kastaði inn um glugga hússins að næturlagi, og gerði það þrisvar sinnum til að bjarga öllum dætrunum frá örvæntingarfullri framtíð. Þessi frásögn, sem meðal annars er varðveitt í íslensku handriti Nikulás sögu frá því um 1200, varð síðar grundvöllur þeirrar hefðar að dýrlingurinn laumaði gjöfum inn um glugga eða í skó.
Önnur frásögn segir frá þremur ungum trúnemum á leið til Aþenu sem urðu fórnarlömb illvirkja. Nikulás kom síðar á sama stað, sá í sýn hvað hafði gerst og vakti ungu mennina til lífs á ný með bæn sinni. Enn önnur saga segir frá drengnum Basileosi sem var rænt og neyddur til þjónustu hjá erlendum höfðingja, en Nikulás birtist honum, frelsaði hann og færði aftur til foreldra sinna – með gullbikar höfðingjans í hendi. Þessar og líkar frásagnir stuðluðu að því að útbreiða átrúnað á heilagan Nikulás sem verndardýrling barna og ungmenna.
Nikulás var einnig verndardýrlingur sjómanna. Ungur að árum hélt hann til Landsins helga og á heimleiðinni lenti skipið í miklu óveðri. Hann bað í kyrrð og trausti og vindinn og öldurnar lægði. Vegna þessar sögu treystu sjómenn um alla Evrópu fyrirbænum hans.
Heilagur Nikulás í Bár
Eftir dauða heilags Nikulásar varð gröf hans í Mýru brátt að mikilvægum pílagrímastað. Bein hans þóttu undursamleg þar sem frá þeim seytlaði dularfullur vökvi sem nefndur var „manna Nikulásar“. Þegar Lýkía féll í hendur Tyrkja á 10. öld lögðust Feneyingar í það verkefni að gera Nikulás að verndardýrlingi sínum. En sjómenn frá Bari í Púglíuhéraði voru fljótari og náðu að flytja líkamsleifar hans til heimaborgar sinnar árið 1087.
Tveimur árum síðar voru helgidómar hans hans lagðir til hvílu í grafhvelfingu nýrrar kirkju sem íbúar Bari höfðu reist á rústum býsanskra halla. Þar voru þær lagðar undir altarið af sitjandi páfa, Úrbani II, í viðurvist normannskra höfðingja héraðsins. Flutningur líkamsleifa heilags Nikulásar þótti á miðöldum stórkostlegur atburður og varð kirkja hans fljótt að einum helsta pílagrímastað Evrópu. Af þessum sökum breiddist átrúnaður á „heilagan Nikulás frá Bari“ út víða. Norrænir menn nefndu borgina „Bár“.
Átrúnaður á heilagan Nikulás barst snemma til Íslands og Íslendingar lögðu mikið traust á vernd hans. Vitað er um 41 kirkju og 4 bænahús vígð heilögum Nikulási: meðal þeirra eru Oddakirkja á Rangárvöllum, kirkjan á Bessastöðum, Kirkjubær í Vestmannaeyjum, Hagi á Barðaströnd og Ærlækur í Öxarfirði svo nefnd séu dæmi. Auk þess var hann verndardýrlingur í 12 öðrum kirkjum og einnig voru 2 ölturu vígð honum og í einni kirkju er getið um árlega Nikulásarguðsþjónustu. Alls eru þetta því 60 staðir. Í grein Sigfúsar Blöndal í Skírni árið 1949 er einnig bent á að tveir íslenskir sveitabæir beri sama nafn og borgin Bár: Bár í Eyrarsveit á Snæfellsnesi, sem skiptist í tvær jarðir, Norður-Bár og Suður-Bár, og Bár í hinum gamla Hraungerðishreppi nú Flóahreppi í Árnessýslu, skammt fyrir sunnan Selfoss.
Heilagur Nikulás og heilög Birgitta – áhrif hans á norræna helgimennsku
Helgidómur heilags Nikulásar í Bár hafði ekki aðeins áhrif á pílagríma frá suðlægum löndum heldur einnig á helga menn og konur á Norðurlöndum. Pílagrímarnir fluttu með sér helga gripi, bækur, myndir, útsaumuð klæði, veggteppi, skrautmuni og annað sem höfðu áhrif á guðþjónustusiði og kirkjulist norrænna þjóða. Þetta hafði oft mikil og varanleg áhrif á norræna menningu.
Sænskir og danskir fræðimenn hafa bent á áhrif frá Nikulásarkirkjunni í Bár á kirkjur í Danmörku og Skáney, til dæmis kirkjuna í Dalby í Skáney og dómkirkjurnar í Ribe og Lundi. Í fleiri tilvikum er talið að áhrif hafi borist beint frá Ítalíu, þar sem konungar Norðurlanda, meðal þeirra Eiríkur eygóði konungur Dana á árunum 1095 til 1103 fóru í pílagrímsferð til Bár. Viðurnefnið eygóði (á dönsku den egode) merkir „hinn góði“ eða „hinn réttláti“ og vísaði til góðvildar hans og friðsamlegrar stjórnar. Talið er að þetta hafi leitt til þess að ítalskir kirkjusmiðir voru fengnir þaðan til Danmerkur fyrst og fremst til að starfa að dómkirkjunni í Lundi.
Í greininni í Skírni er þess einnig getið að heilög Birgitta af Svíþjóð, einn áhrifamesti dýrlingur og dulhyggjukona norrænnar kristni, hafi sjálf heimsótt gröf Nikulásar í Bár og upplifað þar sterka andlega reynslu. Hún segir í Opinberunum sínum að þegar hún kom að helgidómi heilags Nikulásar í Bár og hugleiddi olíuna sem rann frá líkama hans, hafi hún fengið vitrun. Hún sá mann sem henni þótti ilma mjög sætlega og sem sagði við hana: „Ég er Nikulás biskup, sem þú sérð, í þeirri líkingu sem ég var skapaður, meðan ég var á lífi.“ Hann lýsti því að allir limir hans hefðu verið mjúkir og sveigjanlegir í þjónustu Guðs. Þá sagði hann: „Og þess vegna var lof gleðinnar ávallt í sálu minni og guðdómleg ræða í munni mínum, og þolinmæði í verkum mínum.“ Hann bætti við að hann hefði reynt að efla dygðir hreinleika og auðmýktar, því þær væru honum kærari en nokkrar aðrar dyggðir.
Þessi augnabliksreynsla tengdi norræna mystík við hina alþjóðlegu dýrkun heilags Nikulásar. Birgitta sá í honum ekki aðeins verndara sjómanna og barna heldur einnig fyrirmynd þess innri þroska sem kristinn maður er kallaður til. Þannig urðu áhrif frá Nikulási hluti af hinni andlegu arfleifð Birgittu, og í gegnum hana og marga aðra hluti af trúarlífi Norðurlanda.
Latneskar helgisögur um heilagan Nikulás voru þýddar á norrænu fyrir árið 1200 og saga Nikulásar varð stór hluti af íslenskum trúararfi og síðar í jólahefðinni því í menningarsamsuðu nútímans tóku hinir rammíslensku jólasveinar, sem samkvæmt þjóðtrúnni eru synir trölla, bæði prakkarar og þjófar, upp á því að klæða sig í rauð föt og gefa gjafir að fyrirmynd Coca Cola jólasveinsins sem sótti greinilega hönnunarhugmyndir til arfleifðar heilags Nikulásar.
Tilvitnanir
„Hann var faðir fátækra og skjól hinna varnarlausu, og lét aðeins kærleikann leiða sig í öllu.“
(Vita S. Nicolai per Michaelem, cap. 12)
„Og þess vegna var lof gleðinnar ávallt í sálu minni og guðdómleg ræða í munni mínum.“ Úr vitrun hl. Birgittu.
Lærdómur
Helgisagan um heilagan Nikulás kennir okkur að sannur kærleiksverknaður þarf ekki áhorfendur. Allar frásagnir af honum bera vott um sama kjarna: að sjá hinn smáa, óverndaða og fátæka, og að gefa svo hljótt og auðmjúkt að aðeins Guð viti. Í heimi þar sem margt snýst um sýnileika og hrópandi áreiti minnir heilagur Nikulás okkur á að dýpsti kærleikurinn birtist oft í kyrrlátustu verkunum. Hann stendur sem tákn um það að kærleikurinn hefur meiri mátt til að sameina en nokkur kúgun.
Bæn
Heilagi Nikulás, mildur hirðir og verndari hinna smæstu, kenndu okkur að sjá þörf náungans og svara henni með örlæti. Vertu með börnum þessa lands, með sjómönnum sem leggja á haf út og með öllum þeim sem ganga um myrkar götur lífsins. Gerðu hjörtu okkar fús til að gefa, biðja og þjóna.
Fyrir Krist, Drottin vorn.
Amen.
Heimildir:
Sigfús Blöndal. „St. Nikulás og dýrkun hans, sérstaklega á Íslandi.“ Skírnir 1. tbl. 1949, bls. 69–97.
Svanhildur Óskarsdóttir. „Heilagur Nikulás.“ Vefur Árnastofnunar.
https://www.arnastofnun.is/is/utgafa-og-gagnasofn/pistlar/heilagur-nikulas
Vatican News. „Saint Nicholas of Bari, Bishop of Myra.“ Vefur Páfagarðs.
https://www.vaticannews.va/en/saints/12/06/saint-nicholas-of-bari--bishop-of-myra.html
