![]() |
Hl. Fílúmena |
Dýrkun á heilagri Fílúmenu og spurningarnar um hver hún hafi í raun og veru verið eiga upptök sín í Róm þann 25. maí 1802. Þá fundust við uppgröft í Priscilla-katakombunum við Via Salaria bein ungrar stúlku, um þrettán ára að aldri, ásamt gleríláti sem talið var geyma blóð hennar. Grafhvelfingin var lokuð með þremur leirtöflum, þar sem stóð: LUMENA / PAX TE / CUM FI. Talið var að töflurnar hefðu verið settar upp á röngunni, þannig að áletrunin ætti að vera PAX TECUM FILUMENA – „Friður sé með þér, Fílúmena.“ Merki á töflunum, þar á meðal pálmagrein og spjót, bentu til að hér væri um kristinn píslarvott frá fyrstu öldum kirkjunnar að ræða. Á þeim tíma var almennt talið að flestir sem grafnir voru í katakombunum hefðu dáið í ofsóknum fyrstu alda.
Dýrgripirnir í Mugnano del Cardinale
Helgigripirnir voru fluttir til þorpsins Mugnano del Cardinale í héraðinu Avellino og geymdar í kirkju helgaðri Maríu mey undir heitinu Madonna delle Grazie. Þar skráði Francesco De Lucia, prestur frá Nola, fyrstu kraftaverkin sem gerðust fyrir tilstilli heilagrar Fílúmenu. Páfi þess tíma, Leo XII, lét jafnvel senda upprunalegu leirtöflurnar til helgidómsins.
Á þessum grunni birtust útgefnar í bók „opinberanir“ systur Maríu Lúsíu af Jesú, þriðju reglu Dóminíkana frá Napólí, sem sagðist hafa fengið frá dýrlingnum sjálfum frásögn af lífi hennar. Bókin bar yfirleitt heiti á borð við "Life of Saint Philomena, Virgin and Martyr" eða á ítölsku "Vita di Santa Filomena, Vergine e Martire". Frumútgáfan var á ítölsku og byggði á frásögn sem hún taldi sig hafa fengið beint frá heilagri Fílúmenu í íhugun og bænahaldi. Bókin var fljótlega þýdd á frönsku og ensku og dreifðist víða á 19. öld, þar á meðal til Frakklands, Bretlands og Bandaríkjanna. Sú bók naut mikilla vinsælda og jók útbreiðslu helgihaldsins í Evrópu og Ameríku. Þekktir einstaklingar, eins og blessuð Pauline-Marie Jaricot*, sem og heilagur Jóhannes María Vianney, prestur í Ars, báðu fyrir lækningum fyrir tilstilli fyrirbænar heilagrar Fílúmenu og urðu ákafir dýrkendur hennar.
Ævi Fílúmenu samkvæmt systur Maríu Lúsíu
Samkvæmt frásögn Maríu Lúsíu var Fílúmena dóttir grísks konungs, sem ásamt fjölskyldu sinni tók kristna trú. Hún var aðeins þrettán ára þegar hún helgaði sig Guði með ævarandi skírlífsloforði. Um svipað leyti hótaði keisarinn Díókletíanus föður hennar stríði. Fjölskyldan fór til Rómar til friðarviðræðna, en þar sá keisarinn ungu stúlkuna og girntist hana. Hún hafnaði honum og var þá beitt hörðum pyntingum, en henni var bjargað á undraverðan hátt úr þeim öllum þar til hún var loks hálshöggvin og hlaut þannig pálma píslarvottanna. Táknin á grafreit hennar – tvö akkeri, þrjár örvar, pálmagrein og blóm – voru túlkuð sem merki píslarvættis hennar.
Síðar vöktu sagnir systur Maríu Lúsíu tortryggni sagnfræðinga. Engin áletrun um „píslarvott“ fannst á töflunum, og vökvinn í glerílátinu reyndist ekki vera blóð heldur ilmvatn sem notað var við greftranir fyrstu kristinna manna. Af þessum ástæðum var nafn hennar tekið af almenna kirkjudagatalinu í kjölfar breytinga á helgihaldi eftir annað Vatíkanþing á sjöunda áratugnum. Þrátt fyrir það lifir helgihaldið enn einkum fyrir tilstilli áhrifamikilla einstaklinga.
Helgihaldið heldur áfram
„Litli dýrlingurinn“ eins og heilagur Jóhannes María Vianney kallaði hana, var einnig í uppáhaldi hjá heilögum Píó frá Pietrelcina (Padre Píó) sem var einkar áhrifamikill á Ítalíu og víðar fyrir ekki svo löngu síðan (dáinn 1969). Hann nefndi hana „litlu prinsessu Paradísar“. „Það má segja að hún hafi ekki heitið Fílúmena,“ sagði hann, „en þessi dýrlingur hefur unnið kraftaverk – og það var ekki nafnið eitt sem gerði þau!“
Helgidómur heilagrar Fílúmenu er í Mugnano del Cardinale, í héraðinu Avellino í Kampaníuhéraði á Ítalíu, ekki langt frá Napólí. Hann er staðsettur í Sanctuario di Santa Filomena, kirkju sem er einnig helguð Maríu mey undir heitinu Madonna delle Grazie. Þar eru helgir dómar hennar varðveittir síðan þeir voru fluttir frá Priscilla-katakombunum í Róm árið 1805. Helgidómurinn er þekktur fyrir langa sögu pílagrímaferða og vitnisburða um kraftaverk, og hann er miðstöð helgihalds sem tengist heilagri Fílúmenu. Enn í dag sækja margir helgidóm hennar heim, og margir telja sig hafa hlotið bænheyrslu fyrir hennar tilstilli. Heilög Fílúmena er talin verndardýrlingur nýkvæntra og hefur oft glatt konur, sem áður voru ófrískar, með gjöf móðurhlutverksins.
Bæn
Guð, sem hefur opinberað mátt þinn í veikleika litla píslarvottsins Fílúmenu, gef oss að við, styrkt af hennar fyrirbæn, verðum þrautseig í trú og föst í kærleika þínum. Fyrir Jesú Krist, Drottin vorn. Amen.
--
*Blessuð Pauline-Marie Jaricot (1799–1862)
Frönsk trúkona frá Lyon sem stofnaði Trúboðsfélagið og Lifandi rósakransfélagið. Hún helgaði líf sitt aðstoð trúboða og útbreiðslu bænarinnar. Pauline-Marie var ákafur dýrkandi heilagrar Fílúmenu og taldi sig hafa hlotið lækningu fyrir hennar tilstilli. Hún var lýst heiðvirð (venerable) af Benedikt páfa XVI árið 2013 og blessuð af Frans páfa árið 2022.
Byggt á https://www.vaticannews.va/en/saints/08/13/saint-philomena.html