11 ágúst 2025

Hl. Klara frá Assisí, mey – minning 11. ágúst

Hl.Klara frá Assisí mey

Pálmasunnudag árið 1211 yfirgaf átján ára gömul stúlka, Klara að nafni, heimili sitt í Assisí að næturlagi. Hún elskaði fjölskyldu sína heitt, en í hjarta hennar hafði Guð vakið löngun til hins sanna frelsis: að verða fátæk af eigin vilja. Sjö árum áður hafði hún orðið vitni að atburði sem breytti lífi hennar – ungi maðurinn Frans frá Assisí, auðugur og vel klæddur, hafði afklæðst öllu í augsýn föður síns og tekið á sig fátækt Krists. Þessa nótt beið Frans hennar við litlu kapelluna Portiuncula. Klara klippti af sér hárið, klæddist grófgerðum ullarfatnaði og hlaut skjól í Benediktsklaustrinu í Bastia Umbra. Faðir hennar reyndi árangurslaust að fá hana heim aftur – en ákvörðun hennar var óafturkræf.



„Fátæku Klörusysturnar“
Guðleg birta sem skein í gegnum Klöru dró að henni margar konur, þar á meðal móður hennar og systur. Fljótlega voru þær orðnar um fimmtíu talsins. Frans kallaði þær „fátæku dömurnar“ eða „fátæku systurnar“ og lét þeim í té klaustrið í San Damiano, sem hann hafði nýlega gert upp. Þar hafði hann sjálfur heyrt rödd Krists segja: „Farðu og reistu kirkju mína við.“ Klara taldi sig vera „gróðursetningu hans“ og með systrum sínum fylgdi hún boðun bræðranna með stöðugri fyrirbæn.


Fyrsta konan til að semja reglur
Klara var staðföst og ákveðin. Hún varð fyrsta konan í kirkjusögunni til að semja eigin reglur fyrir klausturlíf og fá þær staðfestar – fyrst af Gregoríusi IX, en síðan var reglunni veitt varanleg viðurkenning af Innocentiusi IV árið 1253. Þar voru tryggð hin svonefndu „fátæktarforréttindi“ og djúp löngun hennar til að „lifa samkvæmt fagnaðarerindinu“.

Óþreytandi tilbeiðsla Altarissakramentisins

Síðustu þrjátíu ár ævi sinnar var Klara mikið veik, en gleðileg návist hennar við Drottin í bæn rofnaði aldrei. Hún skrifaði: „Ekkert er svo stórt sem mannshjartað, því í djúpum þess býr Guð.“ Hún var áköf í tilbeiðslu hins heilaga Altarissakramentis, og sögur eru til af því þegar hún hrakti innrás hermanna með því einu að bera sakramentið í öskju í átt til þeirra.

Verndardýrlingur sjónvarpsins
Eitt jólakvöld, þegar hún lá veik í rúmi sínu í San Damiano, fékk hún í sýn að sjá heilaga messu í Portiuncula, þó hún væri ekki þar viðstödd. Hún horfði á atburðina á vegg klefa síns, og af þessari ástæðu lýsti Píus XII hana síðar verndardýrling sjónvarpsins.
 
Dánardagur og helgun
Klara andaðist 11. ágúst 1253, á beru gólfinu í San Damiano. Síðustu orð hennar voru þakkarbæn: „Far þú örugg og í friði, blessuð sál mín. Sá sem skapaði þig og helgaði hefur ætíð elskað þig sem móðir sitt elskaða barn. Og þú, Drottinn, sért blessaður því að þú hefur skapað mig.“ Fjöldi fólks safnaðist saman við útför hennar, og aðeins tveimur árum síðar lýsti Alexander páfi IV hana heilaga.

Heimild: https://www.vaticannews.va/en/saints/08/11/st--clare-of-assisis--virgin--foundress-of-the-poor-ladies.html

Hl. Fílúmena – minning 13. ágúst

Hl. Fílúmena Dýrkun á heilagri Fílúmenu og spurningarnar um hver hún hafi í raun og veru verið eiga upptök sín í Róm þann 25. maí 1802. Þá f...