26 ágúst 2025

Hátíð heilagrar Maríu meyjar frá Jasna Góra - 26. ágúst

Eftirmynd helgimyndarinnar í Jasna Góra sem nú er í kapellu Karmelklaustursins í Hafnarfirði

Í borginni Czestochowa, rúmlega 200 þúsund manna borgar í suðurfjöllum Póllands stendur klaustrið Jasna Góra (Bjartafjall) þar sem varðveitt er íkon (helgimynd) heilagrar Maríu meyjar, kölluð Svarta Madonnan sem nýtur mikillar virðingar. Hún er meðal helgustu helgidóma Evrópu og hefur frá miðöldum verið miðja bænalífs og pílagrímaferða, jafnvel á árum síðari heimsstyrjaldar þegar öll ferðalög voru hættuleg fór fólk í einkaferðir til Jasna Góra. 

Klaustrið var stofnað árið 1382 og skv. helgisögn kom íkonið þangað tveim árum síðar. Helgisögn hermir að hl. Lúkas guðspjallamaður hafi málað myndina á borðplötu úr heimili hinnar Heilögu Fjölskyldu. Í óeiginlegri merkingu má a.m.k. segja að hl. Lúkas Guðspjallamaður hafi dregið upp skýra mynd af Maríu mey í guðspjalli sínu. 

Straumhvörf urðu í sögu helgimyndarinnar og klaustursins í Jasna Góra árið 1655 í kjölfar þess að um 70 munkar og 180 sjálfboðaliðar hrundu áhlaupi um 4000 manna sænsks hers við klaustrið.

Í mikilli hátíðarmessu sem Pietro Vidoni sendifulltrúi Páfa leiddi og fram fór í dómkirkjunni í Lwów (Lviv, nú í Úkraínu) hinn 1. apríl 1656, fól Jan II Kazimierz Waza þá konungur Póllands, samveldi Póllands og Litháen vernd hinnar heilögu Maríu meyjar, sem hann lýsti drottningu pólsku krúnunnar og annarra landa hans. Hann sór líka að vernda fólk konungsríkisins fyrir álögum og óréttlátri ánauð.

Víkur nú sögunni til 9. áratugar síðustu aldar þegar saman voru komnar nokkrar pólskar Karmelnunnur sem höfðu hug á að stofna klaustur.  Þær höfðu látið gera eftirmynd helgimyndarinnar í Jasna Góra og ætluðu að hafa hana með sér í nýtt klaustur í Póllandi. Þá barst sú fregn að á Íslandi væri laust Karmelklaustur en þaðan höfðu síðustu hollensku nunnurnar farið 10. júní 1983. Það varð úr að pólsku nunnurnar settust að í klaustrinu í Hafnarfirði og komu þangað 19. mars 1984 og tóku eftirmynd helgimyndarinnar með sér. 

Þessarar hátíðar er ætíð minnst sérstaklega í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði. Þannig var það 26. ágúst 2023.  Í hátíðarmessunni sem Davíð biskup Tencer leiddi sagði hann m.a. í lauslegri endursögn að hann væri stundum spurður af því af fólki utan Kaþólsku kirkjunnar af hverju kaþólskir héldu minningu Maríu meyjar og dýrlinganna, það væri nóg að hafa Guð einan. Hann sagðist gjarnan svara því til að með Maríu mey væri komin móðir í hina kristnu fjölskyldu og með dýrlingunum eldri systkini sem gætu leitt okkur áfram með góðu fordæmi. 

Upphaflegur pistill birtist 28.8.2023, uppfærður 26.8. 2025/RGB


Heilög Móðir Teresa frá Kalkútta – minning 5. september

Heilög móðir Teresa frá Kalkútta stofnandi Kærleiksboðberanna (Missionaries of Charity) „Ég kynni ykkur voldugustu konu heims.“ Þannig kynnt...