![]() |
Hl. Ágústínus kirkjufræðari |
Heilagur Ágústínus (354–430) er einn af áhrifamestu kirkjufræðurum kristninnar. Hann var biskup í Hippo í Norður-Afríku og verk hans hafa mótað guðfræði og heimspeki Vesturkirkjunnar fram á okkar daga. Ágústínus var maður mikillar greindar og brennandi ástríðu – líf hans er vitnisburður um leit mannsins að sannleikanum og hvernig Guð leiðir leitandann heim.
Æviágrip
Móðir hans, heilög Móníka, ól hann upp í kristinni trú, en hann fylgdi ekki fordæmi hennar í fyrstu. Sem unglingspiltur var hann glaðlyndur og lífsglaður, naut leikhúss, vináttu og lífsins ánægju. Í Karþagó, þangað sem hann fór til náms, varð hann ástfanginn af stúlku. Þar sem hún var af lægri stétt tók hann hana sér sem sambýliskonu en kvæntist henni ekki. Þau eignuðust son, Adeodatus (sem merkir „Guðsgjöf“). Ágústínus, sem var orðinn faðir nítján ára gamall, var henni trúfastur sem sambýliskonu og tók ábyrgð á „fjölskyldulífinu“. Þegar hann las rit Ciceros, Hortensius, breyttist allur hans skilningur á heiminum. Hamingjan, kenndi Cicero honum, felst í hinu óforgengilega: speki, sannleika, dygð. Ágústínus ákvað að helga allt sitt líf leitinni að þessu. Hann tengdist maníkíum en var sífellt óánægður. Hann flutti til Rómar og síðan til Mílanó, þar sem hann gegndi virtri stöðu sem mælskukennari. Þar kynntist hann prédikunum heilags Ambrósíusar biskups, sem snertu hjarta hans djúpt.
Í ágúst árið 386 upplifiði hann sína frægustu umbreytingarreynslu. Hann var ráðvilltur og grátandi í garði þegar hann heyrði rödd segja: Tolle! Lege! – „Taktu og lestu!“ Hann opnaði bréf Páls postula og las orðin:
„Lifum svo að sæmd sé að, því nú er dagur kominn, en hvorki í ofáti né ofdrykkju, hvorki saurlífi né svalli, ekki með þrætum eða öfund. Íklæðist heldur Drottni Jesú Kristi og leggið ekki þann hug á jarðnesk efni að það veki girndir.“ (Róm 13,13–14)
Þessi orð urðu vendipunktur í lífi hans. Hann ákvað að helga sig Guði. Ágústínus var skírður af Ambrósíusi á páskanótt árið 387, ásamt syni sínum Adeodatusi. Á leið heim til Afríku andaðist Móníka móðir hans í Óstíu.
Sambýliskona Ágústínusar
Nafn sambýliskonu hl. Ágústínusar er ekki varðveitt í heimildum, en í Játningunum talar hann með virðingu um hana og viðurkennir að samband þeirra hafi verið djúpt og ástríkt. Þegar Ágústínus dvaldi í Mílanó og hafði tryggt sér virðulegt starf, hvatti móðir hans, heilög Móníka, hann eindregið til að losa sig við sambýliskonuna til að hann gæti gengið í hjónaband við unga konu af réttri þjóðfélagsstétt sem hún hafði í huga. Við það sneri sambýliskonan aftur til Afríku, og Ágústínus lýsir því hvernig hjarta hans hafi „rifnað í sundur“ þegar hún fór. Hann segir einnig að hún hafi heitið því að elska engan annan mann eftir hann. Ágústínus varð eftir í Mílanó með son sinn og tók sér síðar, í veikleika sínum, aðra konu tímabundið áður en hann sneri sér til Guðs af heilum hug.
Ágústínus stofnaði fyrsta klaustur sitt í heimabæ sínum, Tagaste. Skömmu síðar var hann vígður prestur í borginni Hippo og varð síðar biskup þar. Hann stýrði kirkjunni í Hippo í áratugi, skrifaði fjölda rita, prédikaði og barðist gegn villukenningum síns tíma. Æviskeið hans einkenndist af stöðugri leit að sannleikanum, þar sem hann reyndi að tengja trú og skynsemi. Hann lést árið 430 þegar Vandalar sátu um Hippo.
Ágústínusarreglan og núverandi páfi Leó XIV
Hl. Ágústínus stofnaði fyrstu kristnu klaustursamfélögin í Afríku og lagði þar grunn að því sem síðar varð þekkt sem Ágústínusarreglan. Hann samdi stutta reglubók um líf í samfélagi, þar sem megináherslan er á einingu í kærleikanum:
„Lifið allir í einingu, eins hjarta og ein sál í Guði.“ (Regula S. Augustini, 1,2)
Regla hans varð fyrirmynd að fjölda klaustra og trúarreglna í aldanna rás. Hún leggur áherslu á samfélagslíf, sameiginlega eign, bæn og þjónustu. Í dag lifa bæði karla- og kvennasamfélög eftir þessari reglu víða um heim, og einnig prestar og trúarhópar sem starfa á grundvelli hennar. Þannig lifir arfleifð heilags Ágústínusar áfram í kirkjunni. Núverandi páfi, Leó XIV, kemur úr reglu heilags Ágústínusar. Hann gegndi áður starfi yfirmanns reglunnar og hefur alla tíð mótast af anda hennar um samfélag, einingu og þjónustu í kærleika.
Hl. Ágústínus og arfleifðin til siðbótarinnar
Upphafsmaður mótmælendahreyfingarinnar dr. Marteinn Lúther var munkur í Ágústínusarreglunni og mótaðist af guðfræði hans. Hann leit á Ágústínus sem kennara sinn í trúnni og sótti til hans innblástur um náðina og réttlætingu trúarinnar. Margir Íslendingar muna eftir að Játningar heilags Ágústínusar voru lesnar í Ríkisútvarpið á áttunda áratugnum.
Tilvitnanir
„Þú skapaðir okkur handa þér, Drottinn, og hjarta vort er órótt, þar til það finnur hvíld í þér.“ (Játningar I,1)
„Farðu ekki út fyrir sjálfan þig. Snú þér inn á við. Innra með manninum býr sannleikurinn.“ (De vera religione 39,72)
„Enginn kemst örugglega yfir haf heimsins nema hann sé borinn af krossi Krists … yfirgefðu ekki krossinn, og hann mun bera þig örugglega yfir.“ (In Iohannis Evangelium tractatus 2,2)
Lærdómur
Heilagur Ágústínus kennir okkur að Guð yfirgefur ekki leitandi hjarta, jafnvel þótt það villist af leið. Líf hans er áminning um að jafnvel þeir sem hafa fjarlægst trúna geta snúið aftur. Hann var bæði hugsuður og trúmaður, sem sýndi að sönn speki felst í að sameina visku og trúfesti. Hann hvatti menn til að horfa inn á við og finna þar sannleikann sem Guð hefur plantað í hjarta hvers manns.
Bæn
Guð, þú endurnýjaðir kirkjuna þína með lífi og kenningum heilags Ágústínusar. Vek í okkur þrá eftir þér, svo að hjarta okkar verði órótt þar til það hvílist í þér. Fyrir Jesú Krist, Drottin vorn. Amen.