17 júní 2025

Þjóð og trú: Þjóðhátíðardagur Íslendinga - 17. júní – dagur frelsis, ábyrgðar og þakklætis


Í dag, 17. júní, minnast Íslendingar stofnunar lýðveldisins árið 1944. Þjóðhátíðardagurinn er haldinn hátíðlegur á fæðingardegi Jóns Sigurðssonar – leiðtoga sjálfstæðisbaráttunnar og tákns frelsis og menningarlegrar reisnar. En í því sem við fögnum – frelsi, sjálfstæði og mannréttindum – eigum við ekki aðeins að sjá pólitískan áfanga, heldur einnig andlega köllun til ábyrgðar og samfélagsþjónustu.

Kristin trú hefur frá upphafi verið samofin sjálfsmynd þjóðarinnar. Þótt langur tími hafi liðið frá því að landið tók kristni á Alþingi árið 1000, þá hefur trúin – bæði í lútherskri og kaþólskri mynd – ávallt leikið lykilhlutverk í mótun þjóðarinnar, gildismats hennar og samkenndar.



Jón Sigurðsson, trúarleg víðsýni og trúfrelsið
Jón Sigurðsson var og er þekktur fyrir frjálslynda hugsun, trú á málfrelsi og rétt fólks til að móta líf sitt í eigin samfélagi. Þótt hann sjálfur hafi verið tengdur Þjóðkirkjunni eins og flestir landsmenn voru á 19. öld, var hann víðsýnn í trúarlegum efnum og lagði áherslu á að vernda frelsi manna til hugsunar og sannfæringar. Hann átti góð samskipti við fulltrúa Norðurlandatrúboðs Kaþólsku kirkjunnar og það var litið á sem greiðasemi við kaþólsku trúboðana á Íslandi þegar hann birti í Nýjum félagsritum 1858 grein ... sem nefndist „Bréf frá Róm“ (1).  „Var haft á orði, að Jón Sigurðsson væri farinn að gefa æðimikið rúm fyrir kaþólskan málstað í blaði sínu. Sumum ... fannst kasta tólfunum, þegar ætti að fara að brúka ritin 'fyrir verkfæri til að smeygja hér inn eiturkenningum hinnar katþólsku [svo] trúar...' “(2) 

Á þeim tíma voru frönsk áhrif sterk á Íslandi vegna fiskveiða Frakka, sérstaklega á Austurlandi. Árið 1856  gerðu Frakkar út um 400 skip til veiða á íslensk fiskimið og á þessum skipum voru um 5000 manns (3). Eflaust hefur Jón séð fram á að trúarlegur einstrengingsháttur gæti orðið fjötur um fót sjálfstæðar þjóðar sem vildi sjálf kjósa við hverja hún átti samskipti og hverja hún vildi bjóða velkomna.  Jafnframt verður að hafa í huga að á ævi Jóns hafði lítið breyst í afstöðu kirkjudeildanna hvorrar til annarrar frá því á tímum siðaskiptanna og að síðan þá hafa þær þróast mun nær hvor annarri hvað varðar sameiginlegan grundvöll trúarinnar. Sérstaklega á þetta við um Kaþólsku kirkjuna sem ríflega 100 árum eftir þetta góðverk Jóns í hennar garð, tók miklum breytingum með kirkjuþinginu sem haldið var í Vatíkaninu á árunum 1962-1965 og er nefnt Annað Vatíkanþingið. 

Segja má með sanni að andinn sem Jón Sigurðsson átti með framsýni sinni þátt í að skapa hafi rutt braut trúfrelsis og fjölbreytileika í andlegu lífi þjóðarinnar. Árið 1874 fengu Íslendingar síðan sína fyrstu stjórnarskrá frá Kristjáni IX. Með henni fékk Alþingi aftur löggjafarvald í sérmálum, og í fyrsta sinn var trúfrelsi tryggt í íslenskum lögum. Þetta lagði lagalegan grunn að endurkomu Kaþólsku kirkjunnar, sem hafði formlega verið bönnuð um aldir þrátt fyrir að kaþólskir trúboðar hefðu starfað á Íslandi frá 1857. 

Bæn fyrir Íslandi á þjóðhátíðardegi
Guð, þú sem hefur blessað þetta land fjalla, fjölskrúðugt líf og þjóð sem hefur leitað réttlætis, við þökkum þér fyrir landið, lýðveldið og allt sem við eigum saman.
Gefðu forystufólki okkar visku og auðmýkt. Verndaðu fjölskyldur okkar, börn og aldraða. Hjálpaðu okkur að elska frelsið með ábyrgð og rækta samfélag þar sem enginn gleymist eða verður útundan. 
Ver þú, Drottinn, bjarg og skjól, þegar vindar blása og óvissa ríkir. Minntu okkur á að sönn reisn þjóðar felst í þjónustu og trú á hið góða.
Við biðjum í nafni Jesú Krists, Drottins vors. Amen.

---

(1-3) Gunnar F. Guðmundsson, Kaþólskt trúboð á Íslandi 1857-1875. Ritsafn sagnfræðistofnunar 17, 1987, bls. 47 og bls. 26.

Heilagur Knútur – konungur og píslarvottur, verndardýrlingur Danmerkur 10. júlí

Hl. Knútur konungur og píslarvottur. Verndardýrlingur Danmerkur. Mynd: ChatGPT Heilagur Knútur (†1086), einnig nefndur Knútur hinn helgi, va...