![]() |
| Eysteinn erkibiskup og síldveiði |
![]() |
| Eysteinn erkibiskup ritar píslarsögu heilags Ólafs |
Endurbirtur pistill frá 30.7.2009 eftir Sigurð Ragnarsson. Pistillinn birtist áður á vefsetrinu Helgisetur.
Heilagur Eysteinn erkibiskup í Niðarósi dó 26. janúar, sem er messudagur hans. Vatikanið hefur ekki formlega tekið hann í tölu dýrlinga en þó staðfest haustið 2002, að Eysteinsmessa skuli teljast hátíðisdagur í Þrándheimsstifti og auk heldur megi minnast hennar bæði í Oslóarbiskupsdæmi og Tromsøstifti (dagurinn einnig skráður hjá kaþólsku kirkjunni á Íslandi og erkibiskupsins enn að góðu getið hjá kanúkum í mörgum löndum). Á vef kaþólsku kirkjunnar í Noregi er Eysteinn talinn með dýrlingum, en ekki hafa honum í seinni tíð verið helgaðar kirkjur. Hins vegar ber kaþólskur grunnskóli í Bodø nafn hans og dagvistarheimili í Levanger.
Á biskupafundi í Niðarósi 1229 var Eysteinn einum rómi lýstur helgur maður, og síðan voru bein hans skrínlögð. Til stóð að leita staðfestingar í Róm, sem gerðist ekki fyrr en 1241. Sama ár skipaði páfi nefnd þriggja norskra preláta til að svara spurningum sínum um erkibiskupinn sáluga. En svör komu ekki, svo að ný nefnd var skipuð 1246, síðan sú þriðja 1251, þá sú fjórða 1255 og loks sú fimmta 1268. Páfana vantaði sem sagt ekki áhuga á Eysteini, en nefndastörf ónýttust af ýmsum ástœðum, menn til dœmis dóu, héldu sig ekki við efnið í svarbréfum eða reyndust vanhœfir. Svo lá þetta í láginni um sinn, og siðskipti urðu ekki til að flýta niðurstöðu.
Jón Birgisson var fyrsti erkibiskup í Niðarósi. Hann dó 1157. Eysteinn var valinn eftirmaður hans, og virðist Ingi konungur hafa ráðið mestu um það. Biskupsefnið hafði verið kapellán og féhirðir konungs og sóknarprestur í Konungahellu. Hann fór í vígsluför 1159 og dvaldist þá um skeið í Viktorsklaustrinu í París [hafði vísast lært þar og ef til vill einnig í Lincoln], en þáði vígslu og pallíum hjá Alexander III. páfa síðla árs 1160. Eysteinn sat síðan að stóli sínum til æviloka, nema árin 1180-1183 var hann í útlegð í Englandi, því að Sverrir var að berjast til valda en biskup hafði stutt Erling skakka og Magnús konung í deilum þeirra. Eysteinn er í mörgum heimildum nefndur Augustinus en á nútíðar norsku Øystein.
Eysteinn efldi mjög klaustur í Noregi, reisti og fullkomnaði kirkjur, beitti sér fyrir einlífi presta og hélt fram öllum réttindum heilagrar kirkju, framan af með ágætum árangri. Hann lét semja kirkjulagabók, sem kallaðist Gullfjöður og er týnd. Hann gerði einnig uppkast að kirkjulögum, sem kallast Canones Nidrosienses og fannst í London á 4. áratug síðustu aldar. Hann ritaði píslarsögu heilags Ólafs konungs (sjá mynd). Hann sendi Alexander III. páfa 35 fyrirspurnir, sem hann svaraði með tólf bréfum.
Íslendingar mega vera þakklátir heilögum Eysteini, því að hann studdi heilagan Þorlák í öllum umbótum hans, með ráðum og bréfum og fyrirmælum til íslenzkra höfðingja, sem sumir voru syndum vafðir út af fúllífi og yfirgangi við heilaga kirkju. Hann vígði Þorlák sjálfur til biskups 2. júlí 1178 og sagðist síðar engan biskup þann hafa vígt, er honum þótti jafngerla með sér hafa alla þá mannkosti, er biskupum er skylt að hafa, sem Páll postuli segir í pistli sínum, þeim er hann sendi Tito [biskup sé lastvar og lærður vel, dramblaus og drykkjumaður lítill, örr og óágjarn, skýr og skapgóður, góðgjarn og gestrisinn, réttlátur og ráðvandur, hreinlífur og hagráður, tryggur og trúfastur, mildur og máldjarfur, ástsamur við alþýðu en ávítsamur við órækna]. “Má ek yðr svá nökkut segja helzt, hve vitrligir mér hafa virzt hans hættir,” sagði erkibiskup, “at ek munda kjósa mitt lífsdægr it efsta sem ek sé hans hvert.”
Sjá einnig um heilagan Eystein hjá Per Einar Odden (hér) og Santi e beati (hér) og hjá Ökumenisches Heiligenlexikon (hér).
--
Höfundur: Sigurður Ragnarsson. Endurbirt hér með leyfi höfundar 27.1.2026.

