13 júlí 2023

Brúna skapúlarið

Hátíðarskapúlar unnið af Karmelnunnum í Hafnarfirði

Kæru bræður og systur í Kristi,

Þar sem ég hef nú notið þeirra sérstöku forréttinda að bera um háls mér táknmynd Maríu um sérstaka móðurást og vernd hennar, eða svonefnt skapúlar í hartnær 30 ár, þá fór systir Agnes þess á leit við mig að ég miðlaði eilítið af mínum eigin forsendum fyrir þeirri trúfestu sem auðsýnd er Maríu Mey með því að bera herklæði hennar. En fyrst langar mig til að rifja aðeins upp forsögu Karmelreglunnar og skapúlarsins, hvernig það er til komið og um leið að skyggnast eilítið inn í táknrænt gildi skapúlarsins.

Eins og fram kom í grein sem birtist í Kirkjublaðinu í vetur, þá á Karmelreglan rætur sínar að rekja til einsetumanna, sem höfðu búsetu á Karmelfjalli á 13. öld, þar sem þeir byggðu sér snemma kapellu til heiðurs Himnadrottningarinnar, Maríu Meyjar, sem þeir voru reyndar einnig kenndir við. (The Brothers of Our Lady of Mount Karmel) Þar að auki helguðu þeir sérstakri messu Maríu. Nokkrum árum eftir að Karmelreglan var rituð í kringum 1209 brutust miklar óeirðir út í Palestínu og jafnframt ofsóknir gegn Karmel einsetumönnum. Þeir flýðu því til Evrópu þar sem þeim var ekki beinlínis tekið opnum örmum af öðrum reglum sem fyrir voru.

Himnadrottningin, hinsvegar, lét það ekki óátalið og var, að því er sagan hermir, send af Guði til að boða blessun Hans yfir reglunni. Árið 1251 birtist hún því Simon Stock, sem var þá yfirmaður Karmelreglunnar, hún birtist íklædd hinum brúna kufli reglunnar og hélt í hendi sér annars vegar á talnabandi og hins vegar á bút af kufli sínum, sem táknmynd um ást hennar og vernd um leið og hún hét því að hver sá sem bæri þetta klæði hennar um háls sér og helgaði sig henni í lífi og starfi myndi njóta verndar hennar og hjálpræði á dauðastundu. Þetta loforð svipar mjög til loforðs sem heilög Katarína frá Siena (1347-1380) Dóminíkananna hafði einnig móttekið frá Guðsmóðurinni, það er að segja, að sérhver sá sem helgaði sig og virti Guðsmóðurina myndi aldrei verða hinum illa að bráð. Til frekari staðfestingar á þeirri sérstöku vernd, sem Karmelreglan nýtur undir verndarvæng Maríu, minnti hún á loforð sitt, þegar hún birtist börnunum þremur í Fatima árið 1917 íklædd Karmelbúningi.

Himnadrottningin lá heldur ekki á liði sínu í árdaga reglunnar og brást ekki loforði sínu um vernd Karmelreglunnar árið 1274, þegar ágreiningur um réttindi reglunnar stóð sem hæst, því þá brá svo við, sennilega undir áhrifavaldi Maríu, að Páfinn sjálfur tók af skarið og lýsti yfir réttmæti reglunnar á kirkjuþinginu í Lyon.
Karmelreglan skiptist í þrjá hluta og erum við sem hér erum saman komin umsækjendur um þriðja hluta hennar sem er þriðja regla Karmels, regla leikmanna ásamt systra- og bræðra reglu skapúlarsins. Hinar tvær eru í fyrsta lagi Karmelbræður, (stofnendur reglunnar), og í öðru lagi Karmelnunnur. Einnig er rétt að geta þess að Karmelreglan á sér auk þess aðrar systra reglur tengdar Karmelreglunni, en þær voru stofnaðar á 19. og 20 öld. Má þar til nefna Karmelsystur af hinu guðlega hjarta, en nokkrar þeirra starfa einnig hér á landi á Akureyri og á Egilsstöðum.

Í framhaldi af þessum sagnfræðilega formála langar mig til þess að dýpka aðeins skilning á loforði Maríu um vernd í lífi og starfi og jafnvel hjálp á dauðastundu. Það loforð er ekki töfrasproti, sem víkur okkur undan eigin ábyrgð, heldur miklu fremur áeggjan um að líkjast henni sem mest í orði og verki og njóta þar með sérstakrar aðstoðar hennar svo við megnum að auðsýna einlægan vilja okkar, sem birtist á táknrænan hátt með því að bera herklæði hennar, skapúlarið. En til þess að okkur auðnist sem best að votta hollustu okkar og breyta eftir Maríu Guðsmóður, sem var Guði kærari en allar aðrar mannlegar verur, og því kjörin Guðsmóðir, þá þurfum við aðeins að skilgreina fyrir okkur sjálfum hvað felst í eftirbreytni eftir Maríu og eftir hverju við erum að sækjast til að líkjast henni sem mest, því fátt er um hana ritað í Heilagri ritningu og því felst gæða vottun á verund hennar, eða helgi, fyrst og fremst í hinu raunverulega lífi og starfi hennar.

Sjálf sótti ég í fjársjóð eins fremsta Maríu sérfræðings Kaþólsku kirkjunnar Louis de Montford mér til halds og trausts, en hann teflir fram 10 gæðavottorðum hennar í riti sínu True Devotion to Mary, sem gott er að taka mið af, ef við höfum í hyggju að axla herklæði hennar, skapúlarið og gerast virkir þáttakendur í eftirbreytni eftir Guðsmóðurinni.

1. Í fyrsta lagi áminnir Louis de Montford okkur um að forðast synd og að líkja eftir syndlausri breytni Maríu í allri hugsun og öllum okkar gerðum.

2. Í öðru lagi að taka okkur auðmýkt hennar til fyrirmyndar, sem þýðir að falla ekki í þá freistni að miklast eða hreykja okkur yfir velgengni okkar um fram önnur meðsystkini, því eins og segir í Heilagri ritningu: "… án mín getið þér alls ekkert gjört." Jóh. (15.5) og öll velgengni okkar því til komin fyrir náð Guðs á meðan "drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað," eins og María áminnir í Lofsöng sínum. (Lk 1:46-55)

3. Í þriðja lagi er María okkar guðdómlega fyrirmynd í trú og trausti þess að Drottinn muni vel fyrir sjá, eins og ritað stendur í Biblíunni og er orðrétt eftir henni haft er hún í fullkominni trú og trausti á Drottinn mælir: "Sjá ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orðum þínum," eða verði þin vilji" eins og Jesús Sonur hennar áminnir okkur í Faðirvorinu. (Lk 1:38)

4. Fjórða atriðið til eftirbreytni er skilyrðislaus hlýðni hennar við vilja Guðs --að Guðs vilji hafi ávallt forgang í lífi okkar og að við veljum því og höfnum í samræmi við það sem Guði er þóknanlegt, jafnvel þótt það samrýmist ekki í svipinn okkar eigin hentisemi og á það einnig við um val á maka og vinum --að við veljum okkur vini sem stuðla að trúrækni okkar og að við forðumst þá sem fæla okkur frá að iðka hana eða jafnvel gæða okkur á einhvern hátt sinnuleysi varðandi þjónustu okkar við Guð, eins og hl. Theresa af Jesúbarninu einnig leggur áherslu á í dagbókum sínum.

5. Stöðugleiki í bæninni er fimmta atriðið sem Montford bendir á að hafi einkennt Maríu og er þá skemmst að minnast áréttingar Jesú um að biðja stöðugt og án afláts. Oft hefur heyrst að slíkt bænahald sé ekki gerlegt í amstri dagsins, en því er til að svara að bæn er ekki bara orðin tóm heldur stöðugt og lifandi samband við Guð í starfi og leik eins og Theresa, litla blómið, bendir einnig á.

6. Í sjötta lagi er það hin almenna fórnarlund Maríu sem hvetur til eftirbreytni, það er að segja, fórnarlund sem kemur fram í kærleika til náungans í stað sjálfhverfu eins og annað kærleiks boðorð Jesú Krists býður.

7. Sjöunda fyrirmyndin er hinn guðdómlegi hreinleiki Maríu í hug, hjarta, og líkamlegri verund hennar.

8. Áttunda tilefnið til eftirbreytni er e.t.v. eitt hið allra mikilvægasta, því það uppfyllir bæði kærleiksboðorð Krists --að elska Guð og náungann, kærleikurinn í allri sinni heild, sem María uppfyllti á eins fullkominn hátt og mennskri manneskju er mögulegt --allt frá fæðingu Frelsarans til dauðastundu Hans á Krossi.

9. Þá er komið að níunda hvata til eftirbreytni leiðarstjörnu Maríu en það er hin hetjulega þolinmæði hennar, sem við sjálf eigum svo oft í höggi við og því vekur þolinmæði hennar hjá okkur undrun. Hvaða kona t.d. hefði ekki orðið sæmilega pirruð á að þurfa að leita sér skjóls í fjárhúsi eða helli við fæðingu frumburðar síns, sem þó var væntanlegur konungur heimsins? Og mörgum hefði e.t.v. verið tamara að missa stjórn á skapi sínu þegar tólf ára sonur tekur sér það bessaleyfi að yfirgefa hóp skyldmenna á ferðalagi og ílengjast án vitundar foreldra til að taka þátt í hróka samræðum við æðstu presta? En þannig var því ekki varið með Maríu, af henni getum við því lært að taka jafnvel hinum óvæntustu atburðum af stakri rósemd, því reiði,eða það að missa taumhald á skapi að ósekju, sínu leysir engan vanda. Horfum því til Maríu næst þegar okkur er skapi næst að hella úr skálum reiði okkar.

10. Að lokum er komið að tíunda og loka fyrirmyndinni, en það er hin engilblíða verund hennar, viðmót og viska, sú viska sem ein er fullgild í ljósi eilífðar, það er að segja, afrakstur leitar okkar á þekkingu á Guði, þekkingarleit sem aldrei má ljúka meðan við enn drögum andann, því það eru þau einu verðmæti, sem okkur leyfist að hafa meðferðis í vösum líkklæða okkar úr jarðnesku lífi.

Þar með er þessari upptalningu á dyggðum Maríu lokið --upptalningu sem ég hef kosið að hagnýta mér í viðleitni minni til að skilgreina hvers vegna við klæðumst hertygjum Maríu. Og vonandi hefur þessi úttekt varpað einhverju ljósi á þá spurningu sem svo oft vefst fyrir utanaðkomandi, hvers vegna við berum þessa brúnu pjötlu um hálsinn eins og merkimiða. Svarið er í raun ofur einfalt, tilgangurinn helgar meðalið, nefnilega sá að brúna pjatlan minnir okkur stöðugt á dyggðir Maríu og því leitumst við enn ákafar við að vera henni samstíga í þeim efnum bæði í orði og verki fyrir tilstilli náðar þeirrar sem í gegnum Maríu flæðir frá Guði til allra sem hafa helgað sig henni.

Philumena

Endurbirtur pistill af vefsetrinu kirkju.net frá 30.7.2012 

Aths. RGB: Á eftirfarandi vefslóð er spurningum um brúna skapúlarið svarað: https://www.sistersofcarmel.com/faqs-the-brown-scapular/

Skapúlar unnið af Karmelnunnum í Hafnarfirði


Föstudagurinn langi - samstöðudagur með einmana, syrgjendum og þjáðum

Þakkir: pexels.com Sum okkar sniðganga Föstudaginn langa með einum eða öðrum hætti og hyggja fremur að þeim skemmtunum sem í boði eru á þess...