30 maí 2023

Nýir meðlimir gáfu loforð til inngöngu í leikmannareglu Karmels Endurbirt færsla af vefsetrinu www.kirkju.net frá 15.01.2022. 

Hafnarfjörður (kirkju.net) - Hinn 11. desember síðastliðinn gáfu sex nýir meðlimir loforð til inngöngu í leikmannareglu Karmels við hátíðlega athöfn í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði. Á myndinni eru þau frá vinstri Sigurður Stefán Helgason, Guðmundur Már Sigurðsson, Hildur Sigurbjörnsdóttir, Jónas Sen, Ragnar Geir Brynjólfsson og Ágúst Elvar Almy. Loforðið er hið fyrra af tveimur sem gefa þarf til inngöngu í regluna. 

Regludeildin hérlendis sem ber heitið „Regla Karmels hinnar heilögu Maríu meyjar frá Karmelfjalli“ var formlega stofnuð hinn 13. apríl 2019 í athöfn sem fólst í því að umsækjendurnir veittu viðtöku helgiklæði sem kallast „brúna skapúlarið“ auk þess að fá regluheiti að eigin vali. Hópurinn hafði þá hist reglulega undir leiðsögn systur Agnesar, Karmelnunnu í Hafnarfirði um árabil og naut hann þeirrar leiðsagnar einnig við undirbúning athafnarinnar sem hér er sagt frá. 

Karmelmunkurinn og presturinn Faðir Robert M. Marciniak OCD hinn ytri tengiliður regludeildarinnar við höfuðstöðvar reglunnar í Róm leiddi athöfnina sem fór fram í heilagri messu. Einnig var viðstaddur Karmelmunkurinn Faðir Jan Piotr Malicki OCD umdæmisstjóri leikmannareglunnar í Varsjá. Karmelnunnurnar í klaustrinu fluttu tónlist og aðstoðuðu á margvíslegan hátt. Þær höfðu til dæmis útbúið hvítar skikkjur sem meðlimir leikmannareglunnar klæddust í athöfninni sem fór þannig fram að hver og einn þeirra las upp loforð um að halda í heiðri fátækt, skírlífi og hlýðni sem og sæluboðorð Fjallræðunnar. Loforðið var síðan undirritað á altarinu. 

Elstu reglur Karmelreglunnar sem er íhugunar- og fyrirbænaregla voru settar snemma á 13. öld af hinum heilaga Albert patríarka af Jerúsalem fyrir einsetumunka sem höfðu komið sér fyrir á Karmelfjalli í Palestínu. Síðar á 13. öld settust munkarnir að í hinni kristnu Evrópu, einkum á Spáni. Á 16. öld stofnaði hl. Teresa frá Avíla með aðstoð hl. Jóhannesar af Krossi þá grein reglunnar sem nefnist „hin berfætta“ eða „óskóaða“. Á latínu er heiti hennar: Ordo Carmelitarum Discalceatorum; skammst.: OCD. Klaustrið í Hafnarfirði tilheyrir þeirri grein og er hún eina kaþólska klausturreglan fyrir bæði kyn sem stofnuð er af konu. 

Skammstöfunin OCDS vísar til leikmannareglunnar þannig að bókstafurinn S stendur fyrir latneska orðið „Saeculum“ sem þýðir  „af heiminum“. Á íslensku hefur orðið „leikmenn“ verið notað um þetta hugtak og vísar það til óvígðra karla og kvenna enda er loforð leikmannareglunnar ekki heiti eða vígsla í sama skilningi og klausturheiti og prestvígsla þó það sé af sama meiði. Hið ytra líf meðlima leikmannareglunnar er því eins og hjá almennum borgurum, þeir geta stofnað og átt fjölskyldu en regluloforðið felur í sér dýpkun á andlegum skuldbindingum eins og þeim sem felast í sakramentunum.   

Auk þess að biðja tíðabænir og íhuga daglega hver um sig hittast meðlimir regludeildarinnar einu sinni í mánuði í Karmelklaustrinu, biðja tíðabænir saman og lesa rit af andlegum toga. Fólk utan reglunnar sem áhugasamt er um andleg málefni getur verið með í tíðabænum reglunnar og reglufundum og er félagsaðild að reglunni eða kaþólsk trú ekki skilyrði fyrir þátttöku.  Þau sem áhugasöm eru um leikmannaregluna og vilja fá meiri upplýsingar um hana geta haft samband við undirritaðan.

Ragnar Geir Brynjólfsson

„Guð er ekki þreyttur á okkur“

Frá Skagafirði. Ljósmynd: Pexels Á morgun öskudag hefst fastan. Frans páfi segir m.a. í föstuboðskap sínum:  „Guð er ekki orðinn þreyttur á ...