08 ágúst 2025

Heilagur Dóminíkus, prestur og reglustofnandi – minning 8. ágúst

Hl. Dóminíkus, prestur og stofnandi Prédikarareglunnar. Mynd: ChatGPT

Í dag, 8. ágúst, minnist Kaþólska kirkjan heilags Dóminíkusar, prests og stofnanda Dóminíkanareglunnar. Dóminíkus fæddist árið 1170 á Spáni og var ein af hinum miklu persónum miðalda, og sem skildi eftir sig djúp og áhrifamikil spor í hinum kristna heimi.

Árið 1216 stofnaði hl. Dóminíkus reglu sem varð þekkt sem Dóminíkanareglan, með það að markmiði að  boða rétta trú. Reglan lagði áherslu á þekkingu, bænir og trúboð í gegnum kenningar og rannsóknir.



Í tíðabænabók Kaþólsku kirkjunnar segir um hann í lestri efri óttusöngs: „Hvert sem hann fór færði hann í orði og verki heim sanninn um að þar færi maður fagnaðarerindisins. Að degi til var enginn eins samfélagslega sinnaður eða vingjarnlegur við bræður sína og félaga og hann. Að nóttu til var enginn eins þolgóður í sérhverri vöku og ákalli. Hann talaði sjaldan án þess að það væri með Guði, það er í bæn eða um Guð; og í þessu efni kenndi hann bræðrum sínum.

Iðulega gjörði hann sérstakt persónulegt ákall um að Guð gæfi honum sannan náungakærleika sem veitti kraft til að líkna og öðlast hjálpræði fyrir mennina. Því að hann trúði að einungis þá væri hann sannur limur Krists þegar hann hefði gefið sig allan mönnum til hjálpræðis á sama hátt og Drottinn Jesús, Frelsari allra, hafði fórnfært sjálfum sér fullkomlega oss til hjálpræðis. Með verki þessu og eftir að hafa varið löngum tíma í vandaða og forsjála ráðagerð stofnaði hann Predikararegluna, reglu betlimunka.

Í samtölum sínum og bréfum hvatti hann oft reglubræðurna að ígrunda stöðugt Gamla og Nýja testamentið. Hann hafði ávallt með sér Matteusarguðspjallið og bréf Páls postula sem hann kynnti sér svo rækilega að hann kunni þau nánast utanbókar.

Tvisvar eða þrisvar var hann kjörinn biskup sem hann ávallt hafnaði. Hann kaus fremur að lifa með bræðrum sínum í fátækt. Allt sitt líf varðveitti hann heiður hreinleika síns. Hann þráði að vera húðstrýktur og sundur skorinn og deyja þannig fyrir trúna á Krist. Gregoríus IX páfi sagði um hann: „Ég þekkti hann sem staðfastan sporgöngumann postulanna í líferni þeirra. Enginn vafi er á því að hann er á himnum þar sem hann á hlut í dýrð postulanna.“ [1]

Við minnumst heilags Dóminíkusar í dag sem fyrirmynd trúboðans sem lifði í sannfæringu og trú, og sem lagði grunn að dýpri skilningi á hlutverki menntunar og predikun í kirkjunni.


Bæn:
Heilagi Dóminíkus, þú sem lifðir í þjónustu sannleikans og kristindómsins, hjálpaðu okkur að vera traustir í okkar trú og vitund um mikilvægi menntunar og predikun. Gefðu okkur eldmóð og kjark til að boða sannleikann með orðum og gerðum, og leiðbeindu okkur til að fylgja í fótspor þín með trúfastleika og auðmýkt. Amen.

[1] https://breviar.sk/cgi-bin/l.cgi?qt=pdt&d=8&m=8&r=2025&p=mpc&ds=1&j=is


Hl. Klara frá Assisí, mey – minning 11. ágúst

Hl.Klara frá Assisí mey Pálmasunnudag árið 1211 yfirgaf átján ára gömul stúlka, Klara að nafni, heimili sitt í Assisí að næturlagi. Hún elsk...