11 nóvember 2025

Heilagur Marteinn frá Tours biskup – minning 11. nóvember

Heilagur Marteinn frá Tours

Það eru fáir menn sem hægt er að lýsa með einni táknrænni athöfn, en heilagur Marteinn frá Tours tilheyrir þeim hópi. Sagan af því þegar hann gaf fátækum manni helming af skikkju sinni lýsir lífi hans í hnotskurn.

Marteinn fæddist um árið 316 í Pannoníu, núverandi Ungverjalandi, á jaðri hins síðrómverska heimsveldis. Faðir hans var liðsforingi og fékk land í Pavía á Ítalíu, þar sem fjölskyldan settist að. Foreldrarnir voru heiðnir, en Marteinn sýndi snemma áhuga á kristinni trú. Þegar hann var aðeins tólf ára þráði hann einlífi og bæn, en draumur hans um klausturlíf virtist fjara út þegar keisaraleg skipun barst um að hann skyldi ganga í herinn. Hann varð hermaður í Gallíu — svæðinu sem nú spannar mestan hluta Frakklands, Belgíu og vesturhluta Þýskalands — og þjónaði þar sem riddari keisarans.

Um árið 335 var hann á ferð á hesti þegar hann sá nánast nakinn betlara skjálfa í kuldanum. Hann tók upp sverð sitt, skar skikkju sína í tvennt og gaf manninum helminginn. Um nóttina birtist Kristur honum í draumi, klæddur í hálfa skikkjuna, og sagði við englana sem fylgdu sér: „Sjáið Martein, sem enn er óskírður hermaður, hann klæddi mig.“ Þessi sýn markaði líf hans. Hann var skírður næstu páska og þjónaði áfram í hernum í um tuttugu ár, þó hugur hans væri annars staðar.



Þegar honum gafst loks tækifæri til þess sagði hann skilið við herinn og leitaði til Hilariusar biskups í Poitiers, sem var einn helsti andstæðingur aríusarvillunnar. Þegar Hilarius var síðar gerður útlægur settist Marteinn að sem einsetumaður nálægt Mílanó. Eftir heimkomu Hilariusar stofnaði Marteinn klaustur í Ligugé nærri Tours, hið fyrsta í Frakklandi. Þar lifði hann einföldu lífi, í bæn og boðun fagnaðarerindisins, og ferðaðist um landið þar sem margir tóku trú fyrir áhrif hans.

Árið 371 völdu borgarar Tours hann biskup, en hann var tregur til að þiggja embættið og reyndi að forðast þann heiður. Að lokum lét hann undan þrýstingnum, en hélt áfram sama hógværa líferni. Hann hafnaði öllu prjáli og bjó áfram í klaustrinu í Marmoutier rétt utan borgarinnar, þar sem tugir munka, margir aðalsættaðir, fylgdu honum í aga og fátækt. Hann var biskup sem lifði með fólkinu, heimsótti sjúka, hjálpaði fátækum og frelsaði fanga.

Tilvitnun úr Tíðabænabókinni
Úr bréfi Sulpicius Severus: „Marteinn vissi löngu fyrirfram um dauðastund sína og sagði bræðrum sínum að hún nálgaðist. En honum fannst það skyldu sína [svo] að vitja sóknarinnar í Candes. Klerkar í þeirri kirkju áttu í deilum og hann vildi sætta þá. Þótt hann vissi að hann ætti stutt eftir hér á jörðu vildi hann fara í þessa ferð í þessu skyni því að hann trúði að hann myndi ljúka sínu dyggðuga lífi með góðum hætti ef friður yrði endurvakinn á ný fyrir hans tilstilli.

Hann varði nokkrum tíma í Candes, eða öllu heldur í kirkju staðarins þar sem hann hélt til. Friður komst á og hann áætlaði að snúa aftur til klausturs síns þegar hann fann skyndilega að kraftur hans fór þverrandi. Hann kallaði á bræður sína og sagði þeim að hann væri að deyja. Allir þeir sem heyrðu þetta urðu mjög sorgmæddir og sögðu við hann einum rómi: „Faðir, hví yfirgefur þú oss? Hver á að annast oss þegar þú ert farinn? Grimmir úlfar munu ráðast á hjörð þína og hver mun bjarga oss frá biti þeirra þegar hirðirinn er fallinn?“

Að svo búnu brast hann í grátur [svo] því að í honum var meðaumkun Drottins vors stöðugt opinberuð. Hann svaraði með því að snúa sér til Guðs og sárbændi: „Drottinn, ef lýður þinn þarf enn á mér að halda, er ég reiðubúinn til starfa; verði þinn vilji.“

Hann var maður sem engin orð fá lýst. Dauðinn gat ekki bugað hann né erfiði valdið honum kvíða. Hann var algjörlega laus við að leita fríðinda fyrir sig sjálfan; og hvorki óttaðist hann að deyja né neita að lifa. Með augu og hendur ávallt reist til himna dró hann aldrei anda sinn til baka frá bæninni.“

Lærdómur
Heilagur Marteinn kennir okkur að þjónusta Guðs byrjar með miskunn. Hann klæddi Krist þegar hann klæddi hinn nakta og hélt áfram að gera það alla ævi sína. Hann var trúfastur friðarins maður, trúfastur sannleikanum og fátækum, og sameinaði hugrekki hermannsins og auðmýkt munkins. Líf hans minnir okkur á að hver hlutur sem við deilum af kærleika getur orðið tákn náðar og umbreytingar.

Minning heilags Marteins í Evrópu
Minning Marteins biskups lifir enn um alla Evrópu. Í Frakklandi er dagur hans, 11. nóvember, stundum kallaður „sumar Marteins“ vegna þess að oft hlýnar skyndilega um þetta leyti. Í Þýskalandi og Hollandi halda börn ljósaferðir, Martinszüge, þar sem þau bera kertaluktir í minningu Marteins sem lýsir myrkrið. Í mörgum löndum er borin fram steikt gæs á Marteinsmessu, sem tengist bæði haustuppskeru og þeirri frásögn að gæsir hafi gaggað svo hátt að þær afhjúpuðu Martein þegar hann faldi sig til að forðast að verða biskup.

Í klaustrum og kirkjum víða um Evrópu er Marteinn tákn örlætis, friðar og samstöðu milli manna. Nafn hans er eitt hið algengasta meðal kristinna manna og mörg þorp, borgir og kirkjur bera nafn hans, honum til heiðurs.

Bæn
Heilagi Marteinn, þú sem þekktir Krist í augnaráði fátæks manns, kenndu okkur að sjá hann í öllum sem þurfandi eru. Gerðu hjörtu okkar mild og örlát, að við megum klæða, hvetja og hugga þá sem standa berskjaldaðir í lífinu.
Fyrir Krist, Drottin vorn. Amen.

 

Heilagur Marteinn frá Tours biskup – minning 11. nóvember

Heilagur Marteinn frá Tours Það eru fáir menn sem hægt er að lýsa með einni táknrænni athöfn, en heilagur Marteinn frá Tours tilheyrir þeim ...