07 nóvember 2025

Jón Arason Hólabiskup (1484–1550) - dánardagur 7. nóvember

Jón Arason Hólabiskup d. 1550

Jón Arason Hólabiskup fæddist árið 1484 og var sonur Ara Sigurðssonar, bónda á Laugalandi í Eyjafirði, og Elínar Magnúsdóttur, sem nefnd var bláhosa. Ari lést þegar Jón var enn barn, og ólst hann upp með móður sinni á Grýtu, kotbýli skammt frá Benediktínaklaustrinu að Munkaþverá. Þar var ábóti Einar Ísleifsson, frændi Elínar, og hafa mæðginin líklega verið þar í skjóli hans. Þótt þröngt hafi verið í búi hjá þeim, studdi ábótinn frænda sinn og lét hann vinna fyrir mat sínum í klaustrinu. Þar hlaut Jón menntun og uppeldi í anda norrænnar fræðahefðar og kristilegrar menningar. Latínukunnátta hans þótti ekki mikil, en hann hafði góða þekkingu á norrænum ritum og skáldskap, og síðar setti hann börn sín til mennta í sama klaustri.

Árið 1507, þegar hann var 23 ára, gekk hann í þjónustu Gottskálks biskups Nikulássonar á Hólum. Sama ár var hann vígður til prests á Helgastöðum í Reykjadal og kynntist þar Helgu, sem varð fylgikona hans. Ári síðar fékk hann Hrafnagil, sem þótti eitt besta brauð í Eyjafirði. Hann var fljótlega orðinn prófastur í héraðinu og jafnframt sýslumaður um tíma. Jón reyndist duglegur og úrræðagóður embættismaður, tryggur biskupi sínum og fór tvisvar utan í erindum hans. Þegar Gottskálk lést árið 1520 tók Jón við stjórn Hóla, og árið 1524 var hann kosinn biskup, 36 ára gamall.

Fyrstu árin í embætti einkenndust af deilum um eignir og vald, meðal annars við Teit Þorleifsson lögmann í Glaumbæ. Við Sveinsstaðareið kom til átaka milli manna þeirra, þar sem einn féll og nokkrir særðust. Þessi atvik sýna að Jón Arason var ekki aðeins kirkjulegur leiðtogi, heldur einnig þátttakandi í hinum veraldlegu átökum sem mótuðu valdakerfi Íslands á þessum tíma.

Samkvæmt Ásgeiri Jónssyni, höfund bókarinnar Uppreisn Jóns Arasonar (2020), var hann maður með mikla persónutöfra, dansmaður og vinsælt skáld, en jafnframt gæddur járnhörðum vilja. Á Hólum efldi hann prentlist, menntun og trúarlegt líf, og stóð vörð um sjálfstæði kirkjunnar gegn vaxandi valdi konungs og embættismanna.

Uppreisn og örlög
Þegar Danakonungur hófst handa við að innleiða lútherskan sið  reyndi Jón að ná samkomulagi um sjálfstæði Hólabiskupsdæmis. Um tíma virtist honum ætla takast það, og sonur hans Sigurður var tilnefndur arftaki. En árið 1547 hófst verslunarstríð milli Dana og Þjóðverja, og Jón sá þar tækifæri til að styrkja stöðu kirkjunnar. Hann naut stuðnings þýskra kaupmanna og sumarið 1550 lét hann lýsa Ísland kaþólskt. Þýskalandskeisara var jafnvel boðið að innlima landið í ríki sitt! Þetta var örvæntingarfull aðgerð. Jón varð undir í átökum sem urðu á Sauðafelli í Dölum haustið 1550, var handtekinn og fluttur til Skálholts. Þar var hann hálshöggvinn ásamt sonum sínum Ara og Birni hinn  7. nóvember. Eftir dauða hans var íslensk kirkja endanlega innlimuð í danskt ríkisvald. Eignir hennar voru gerðar upptækar, verslun einokuð og samskipti við útlönd skert. Eins og Björn Þorsteinsson bendir á var aftaka Jóns Arasonar jafnframt táknræn staðfesting á innlimun landsins í dönsku krúnuna: með dauða biskupsins hvarf síðasta tákn sjálfstæðis þjóðarinnar.

Eftirmál og hefndaraðgerðir
Eftir aftöku Jóns hófu stuðningsmenn hans ofbeldisfullar og miskunnarlausar hefndaraðgerðir. Þær stuðluðu að bæði siðferðilegu og pólitísku hruni þess málstaðar sem Jón hafði varið. Þetta ofbeldi sýir hve auðveldlega heilög sannfæring getur breyst í heift. Í stað þess að verða sameiningartákn varð dauði Jóns þannig að áminningu um að enginn málstaður er heilagur ef hann glatar mannúðinni.

Þó lifði arfleifð hans áfram. Sonur hans Sigurður Jónsson á Grenjaðarstað hélt lífi, eignum og virðingu — ólíkt föður sínum og bræðrum. Samkvæmt rannsókn Þorgríms Daníelssonar (2020) í Háskóla Íslands má rekja það til trúnaðareiðs sem Sigurður sór Kristjáni III árið 1542 þegar hann fór utan í erindum föður síns. Eiðurinn gerði það að verkum að dönsk yfirvöld töldu hann meðal lútherskra manna og höfðu því engan lagagrundvöll til að gera honum mein eftir fall föðurins. Sigurður tók enga beina afstöðu í deilunni eftir 1550, en hélt áfram að þjóna kirkjunni og naut virðingar bæði meðal Íslendinga og nýrra kirkjuleiðtoga. Þannig lifði saga Jóns áfram í syni hans – ekki í uppreisninni, heldur þrautseigju og þögn.

Siðaskiptin – hreyfing að ofan, ekki vakning að neðan
Í bókinni Siðbreytingin á Íslandi 1537–1565: Byltingin að ofan (1997) sýnir Vilborg Auður Ísleifsdóttir að siðaskiptin voru ekki trúarvakning heldur valdaskipti. Breytingarnar komu að ofan – frá konungsvaldi og embættismönnum – og miðuðu að því að innlima kirkjuna í stjórnsýslu ríkisins. Klaustrin voru leyst upp og eignir þeirra teknar undir krúnuna. Íslenska kirkjan missti sjálfstæði sitt og varð hluti af konungsvaldinu. Í þessu ljósi má sjá Jón Arason sem andstæðing „byltingarinnar að ofan“ – mann sem reyndi að verja kirkjuna sem lifandi samfélag trúar og menningar, ekki aðeins sem stofnun. Hann barðist ekki aðeins gegn nýrri trúarlegri sýn heldur gegn því að andlegt vald yrði háð veraldlegum hagsmunum.

Samkvæmt greiningu Vísindavefsins (24. febrúar 2010) voru siðaskiptin á Íslandi hluti af fjölþjóðlegri hreyfingu sem átti rætur að rekja til guðfræðilegrar endurskoðunar í Evrópu á 16. öld. Í Danmörku hafði lúthersk trú þegar fest rætur meðal borgarastéttarinnar og konungurinn, Kristján III, var orðinn stuðningsmaður hennar. Á Íslandi voru þó engin skilyrði til trúarvakningar. Landið var bændasamfélag án borgarlífs eða menntamannastétta, og þar sem nýjar hugmyndir breiddust yfirleitt út meðal slíks fólks, varð engin innlend hreyfing að siðaskiptum hér. Því voru þau framkvæmd að utan og ofan – pólitísk ákvörðun Danakonungs fremur en sjálfsprottnar trúarlegar eða guðfræðilegar umbætur. Lútherskur siður var lögtekinn með valdboði árið 1541 í Skálholti og 1551 á Hólum. Þar með var íslensk kirkja leidd inn í dönsku ríkiskirkjuna og páfastóli formlega hafnað.

Eins og Björn Þorsteinsson bendir á í Íslandssögu til okkar daga var þetta jafnframt umbreyting í valdsambandi Íslands og Danmerkur. Hamborgarkaupmenn misstu verslun sína við landið, og árið 1542 tók Kristján III öll viðskipti undir krúnuna. Þjóðverjar, sem áður höfðu stutt Jón Arason, urðu þá útilokaðir og með þeim rofnuðu síðustu tengsl Íslands við meginland Evrópu. Þannig varð siðaskiptunum ekki aðeins ætlað að endurnýja trú, heldur einni að staðfesta Ísland undir pólitískum yfirráðum Dana.

Missir sjálfstæðis og menningar
Eftir siðaskiptin tók við nýtt valdakerfi þar sem kirkjan varð hluti ríkisvaldsins. Vilborg Auður Ísleifsdóttir sýnir að þessi breyting leiddi til menningarlegrar stöðnunar. Klaustrin, sem áður voru miðstöðvar menntunar, hjálparstarfs og listar, voru eins og áður segir leyst upp og eignir þeirra teknar undir krúnuna. Í stað samfélags trúar og samhjálpar kom miðstýrt stjórnvald sem leit á trúna enn frekar en áður hafði verið gert sem stoð ríkisvaldsins. Jón Arason sá fyrir þessa þróun og reyndi að verja kirkjuna sem andlegt samfélag, ekki aðeins sem stofnun.

Björn Þorsteinsson bendir á að á þessum tíma hafi íslenskir höfðingjar þegar misst raunverulegt sjálfstæði. Verslunareinokun Dana og upptaka kirkjueigna færðu auð og vald í hendur útlendra embættismanna, og íslensk menning varð háð samþykki erlends ríkisvalds. Með falli Jóns missti Ísland síðasta talsmann sjálfstæðrar kirkjulegrar menningar og tengslin við evrópska menntunarhefð einskorðuðust nánast við Kaupmannahöfn.

Jón Arason í bókmenntum og listum
Jón Arason var ekki aðeins biskup og baráttumaður, heldur einnig skáld. Eitt kvæða hans, Píslargrátur sýnir trú hans, menntun og lífssýn á tímum þegar trúin var ekki aðeins kenning, heldur heildstæð lífsafstaða. Kvæðið er löng og djúp íhugun um píslir Krists, þar sem Jón setur eigin lífssýn í samhengi við þjáningu og miskunn. Hann yrkir á einföldu og íslensku máli, með sterkum rótum í miðaldatrúarhefðinni en með nýrri sjálfsvitund einstaklingsins. Þetta kvæði sýnir að undir hinu pólitíska yfirborði var maður sem hafði bæði trúarlega næmni og skáldlegt innsæi — og það er í þessum texta sem við sjáum hina trúarlegu hlið Jóns Arasonar.

Kvæðið hefur lifað áfram í íslenskri trúarmenningu. Á föstunni árið 1989 var Píslargrátur afburða vel fluttur í Kristskirkju í Reykjavík af leikurunum Baldvini Halldórssyni og Gunnari Eyjólfssyni, sem var mikill aðdáandi Jóns biskups. Flutningurinn var áhrifamikil endurminning um biskupinn sem trúarskáld og sýndi að arfleifð hans á sér ekki aðeins sögulegt, heldur einnig andlegt líf í íslenskum samtíma.

Segja má að Píslargrátur sé upptaktur að Passíusálmum séra Hallgríms Péturssonar, því í báðum verkum mætast íhugun, trú og samkennd með pínu Krists og stöðu mannsins í heiminum. Jón Arason tekur sér skýra stöðu á þeim vegi sem Hallgrímur fullkomnaði um hundrað árum síðar. Þannig má segja að séra Hallgrímur hafi tekið við keflinu beint frá Jóni biskupi — og með því tengist íhugunarhefð kaþólsku kirkjunnar á beinan hátt hinni lúthersku kirkju.

Sumir hafa bent á að í Passíusálmunum megi finna orðalag sem virðist benda til andúðar á Gyðingum, og slíkt mætti þá einnig finna í eldri trúarljóðum eins og Píslargráti. Það er einkar hæpið að slá því föstu að þetta endurspegli hatursfull viðhorf höfundanna, heldur er þarna á ferðinni tungutak þess tíma sem er misskilið í skuggsjá og orðskilningi nútímans.  Í þessu ljósi er samt nauðsynlegt að hafa í huga þegar þessi gömlu trúarljóð eru lesin í dag að þau má alls ekki misskilja sem andúð af neinu tagi í garð Gyðinga: Píslir Krists og krossfórn er tilkomin vegna synda alls mannkyns — okkar eigin synda — en ekki vegna aðgerða tiltekins hóps, þjóðflokks eða þjóðar. Þær eru afleiðingar af erfðasyndinni, í biblíulegum skilningi synd okkar upprunalegu foreldra Adams og Evu og þeirri tilvistarlegu heimssýn sem sú frásögn hefur í för með sér. Þannig séð verður þjáning Krists allt í senn endurspeglun, útskýring og fær fótstigur hins líðandi mannkyns - eða með hans eigin orðum:  Vegurinn, sannleikurinn og lífið. 

Ólafur Gunnarsson rithöfundur gerði baráttu Jóns Arasonar eftirminnileg skil í sögulegri skáldsögu sinni Öxin og jörðin, sem hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2003. Þar er sagan sögð í mannlegu ljósi, þar sem átök trúar og valds verða um leið innri barátta samvisku og efasemda. Í umfjöllun Úlfhildar Dagsdóttur (2003) um bókina kemur fram að höfundurinn hafi ekki gert Jón að þjóðhetju né skúrki, heldur manni sem stendur milli trúar og eymdar, föður og baráttumanns — og sem slíkur nær hann til lesanda samtímans. Í kjölfar bókarinnar varð til leikgerð sem Þjóðleikhúsið frumsýndi á jóladag árið 2004. Arnar Jónsson lék Jón Arason, og leikstjórn var í höndum Hilmars Jónssonar. Leikritið vakti athygli fyrir áhrifamikla framsetningu, þar sem trú, ábyrgð og örlög þjóðarinnar urðu eitt í dramatísku samhengi.

Saga Jóns Arasonar hefur einnig birst í ljóðum, sögum og listsköpun um aldir. Frá sagnaritunum til þjóðsagna, frá prentverkinu á Hólum til nútímalistar, hefur nafn hans borið með sér spurningu sem endurómar á hverri öld: Hvar liggja mörk trúar og valds, samvisku og pólitíkur, manns og þjóðar?

Raunveruleg helgi Jóns biskups?
Þótt Jón Arason hafi aldrei verið tekinn í tölu heilagra, hefur hann í vitund þjóðarinnar um aldir verið talinn „helgur maður í verki“ — ekki vegna formlegrar viðurkenningar kirkjunnar, heldur vegna þess að saga hans og barátta gegn erlendu valdi hefur vakið virðingu meðal fólks.

Sagan af Líkaböng, kirkjuklukkunni á Hólum sem hringdi sjálf þegar lík Jóns og sona hans voru flutt heim norður úr Skálholti, hefur lifað sem tákn þessarar óskráðru helgi. Í Íslenzkum þjóðsögum og ævintýrum segir að klukkan hafi hringt í þremur lotum: fyrst á Vatnsskarði þegar sást ofan í Skagafjörð, síðan á Hríshálsi þegar sást heim að Hólum, og loks þegar líkin komu í túnið við kirkjuna. Þegar þau voru borin inn hringdi hún svo lengi að hún rifnaði. Hvort sem þessi frásögn byggir á raunverulegum sögulegum staðreyndum eða trú þjóðarinnar, þá lýsir hún hinni djúpu sorg og samúð sem fólk norðanlands bar í brjósti gagnvart þeim sem höfðu verið líflátnir í Skálholti.

Í Biskupaannálum Jóns Egilssonar, sem ritaðir voru á árunum 1601–1605, segir frá því að Norðlendingar hafi árið 1551 farið suður til Skálholts að sækja lík Jóns biskups og sona hans, Björns og Ara, sem hálshöggnir höfðu verið haustið áður. Þeir sem þar réðu vildu ekki hafa líkin lengur og létu grafa þau upp. Norðlendingar fluttu þau þá norður, og að morgni eftir dvöl í Skálholti námu þeir stað við Laugarvatn. Þar tjölduðu þeir yfir líkunum, báðu bænir og bjuggu um þau til ferðar norður að Hólum. Frásögn Jóns segir ekkert nánar um nákvæmlega hvar þetta á að hafa verið, en í seinni tíð hafa verið nefndir sex stakir steinar austan við Vígðulaug, kallaðir Líkasteinar, og hefur sú trú lifað að þar hafi lík biskupsins og sona hans verið lögð og þvegin áður en þau voru borin áfram norður.

Þótt slíkar sagnir séu ekki meðal elstu heimilda, bera þær vitni um að minning Jóns Arasonar tengdist djúpum helgiblæ staðanna sjálfra. Það er eins og landið hafi sjálft varðveitt sorgina og virðinguna: klukkan sem hringdi, vatnið sem var blessað við kristnitökuna, steinarnir sem nefndir voru í minningu um líkflutningana norður. Minning Jóns biskups var því ekki staðfest í dýrlingaskrám, heldur í þeirri trúarlegu birtingarmynd sem varðveittist í minni þjóðarinnar. 

Þegar menn voru teknir í heilagra manna tölu á miðöldum og síðmiðöldum þurfti ýmislegt að koma til. Kirkjan safnaði jarteinum og kraftaverkasögum sem staðfestu að viðkomandi hefði verið verkfæri Guðs í heiminum. Engar fleiri slíkar sagnir eru til um Jón Arason. Með dauða hans lauk í raun þeirri hefð á Íslandi að skrá eða viðurkenna jarteinir í kaþólskum skilningi, því siðaskiptin höfðu eytt þeim menningargrunni sem slíkt gat byggst á.

En hefði hann, við aðrar sögulegar aðstæður, haft tilkall til formlegrar helgi? Líklega ekki. Jesús segir í sæluboðunum: „Sælir eru friðflytjendur, því að þeir munu kallaðir verða Guðs börn.“ Það er varla hægt að segja að Jón Arason hafi verið friðflytjandi þegar litið er til þeirra hræðilegu hefndaraðgerða sem fylgdu aftöku hans. Þær eru með því versta í sögu Íslands — og varpa skugga á þann málstað sem hann sjálfur hafði barist fyrir.

Þannig verður ekki hjá því komist að sjá bæði ljós og skugga í arfleifð Jóns Arasonar. Hún er vissulega að hluta til trúarleg og kirkjuleg, en að meirihluta til pólitísk og menningarleg. Þó hann hafi fallið sem biskup, þá lifði minning hans áfram sem tákn um sjálfstæði, þjóðvitund og menningu. Hann varð ekki heilagur maður í merkingu kirkjunnar, heldur maður sem átti þátt í að móta sögu lands síns — og sú saga, með öllum sínum átökum, hefur haft mikil áhrif allt fram á okkar daga.

Kaþólska kirkjan á Íslandi hefur þó haldið minningu hans á lofti með ferðalögum til Skálholts og messum þar á degi nálægt 7. nóvember í allmörg ár. Má segja að með því sé honum sá sómi sýndur sem honum ber af hálfu kaþólsku kirkjunnar.  En engar sögur fara af fyrirbænum, áheitum, dulrænum vitjunum eða yfirnáttúrulegum lækningum. Guð almáttugur hefur því síðasta orðið hvað raunverulega helgi varðar eins og endranær.

Heimildir
Vilborg Auður Ísleifsdóttir: Siðbreytingin á Íslandi 1537–1565. Byltingin að ofan. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 1997.
Ásgeir Jónsson: Uppreisn Jóns Arasonar. Bókafélagið, Reykjavík 2020.
Björn Þorsteinsson: Íslandssaga til okkar daga.
Þorgrímur Daníelsson: Að standa af sér byltingu. Lokaverkefni í sagnfræði, Háskóli Íslands 2020.
Jón Egilsson: Biskupaannálar (1601–1605).
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862): „Líkaböng“.
Vísindavefurinn: Af hverju urðu siðaskiptin hér á Íslandi? (24.2.2010).


Jón Arason Hólabiskup (1484–1550) - dánardagur 7. nóvember

Jón Arason Hólabiskup d. 1550 Jón Arason Hólabiskup fæddist árið 1484 og var sonur Ara Sigurðssonar, bónda á Laugalandi í Eyjafirði, og Elín...