29 september 2025

Engladagur, hátíð hinna heilögu höfuðengla Mikaels, Gabríels og Rafaels - 29. september


Í dag, 29. september, fagnar kirkjan Engladegi, hátíð hinna heilögu höfuðengla Mikaels, Gabríels og Rafaels. Hátíðin hefur verið haldin frá fornu fari, þegar kristnir menn reistu kirkjur og helgidóma þeim til dýrðar og leituðu eftir vernd þeirra. Þeir eru þjónar Guðs og sendiboðar, sem ritningarnar kynna sem tákn um návist og kraft Drottins.


Englarnir í heilagri ritningu
Heilagur Gabríel erkiengill birtist spámanninum Daníel og útskýrði sýnirnar sem hann hafði fengið (Dan 8,16; 9,21). Hann flutti síðar gleðiboðin til Sakaríasar um fæðingu Jóhannesar skírara (Lúk 1,19) og til Maríu meyjar um fæðingu Jesú (Lúk 1,26). Nafn hans merkir „Guð er sterkur“ og minnir okkur á að ekkert er Guði um megn.

Heilagur Rafael erkiengill kemur fram í Tobitsbók. Hann fylgdi Tobíasi, syni Tobits og Önnu, á ferð hans og verndaði hann gegn öllum hættum. Hann hjálpaði Tobíasi að frelsa Söru úr heljartökum illra afla og læknaði Tobit af blindu (Tob 6–12). Nafn hans merkir „Guð læknar“ og opinberar kærleika Guðs sem græðir líkama og sál.

Heilagur Mikael erkiengill er höfðingi hersveita himinsins. Hann stóð með Daníel í erfiðleikum og barðist fyrir hann (Dan 10,13.21; 12,1). Í bréfi Júdasar er sagt frá því að Mikael hafi deilt við djöfulinn um líkama Móse (Júd 1,9). Í Opinberunarbókinni er hann sá sem sigrar Satan í mikilli baráttu á himnum: „Mikael og englar hans börðust við drekann“ (Opb 12,7). Hann er hinn mikli verndari kirkjunnar, og nafn hans merkir „Hver er sem Guð?“ – spurning sem felur í sér sigur á yfirlæti og synd.

Orðið „engill“ merkir sendiboði. Í Biblíunni getur engill verið maður, vera eða jafnvel náttúran sjálf þegar hún speglar kærleika Guðs: „Þú gerir vindana að sendiboðum þínum, bálandi eld að þjónum þínum.“ (Slm 104,4). Stundum er það Drottinn sjálfur sem mætir okkur í mynd engils og opinberar návist sína.

Tilvitnun
Hinn mikli skáldsnillingur Dante Alighieri sýnir í Guðdómlega gleðileiknum (Divina comedia) hvernig Mikael stendur andspænis Lúsífer, hinum fallna engli sem steypt var niður af himni eins og eldingu. Í hreinsunareldinum heyrir Dante raddir sem biðja:

„Sæla María! Bið þú fyrir oss,
Mikael og Pétur! allt heilagt lið!“
(Purgatorio, XII, 51).

Þannig var Mikael þegar á miðöldum viðurkenndur sem verndari kirkjunnar og máttugur fyrirbiðjandi, bæði í austur- og vesturkirkjunum.

Lærdómur
Höfuðenglarnir minna okkur á að Guð skilur manninn ekki eftir varnarlausan. Hjá Gabríel fáum við að heyra að loforð Guðs standi stöðug. Með Rafael fáum við að upplifa lækninguna sem kemur frá hendi Guðs. Fyrir Mikael vitum við að hið illa á ekki síðasta orðið, heldur Guð einn.

Sagan af Leó páfa XIII árið 1884 undirstrikar þetta. Hann sá í sýn hvernig legiónir illra anda réðust á kirkjuna og virtust næstum leggja hana í rúst. Þá birtist Mikael og greip inn í, en aðeins eftir að hinir trúuðu höfðu styrkst í bæn sinni. Því minnti Jóhannes Páll páfi á árið 1994 að við skyldum ekki gleyma bæninni til heilags Mikaels, því hún væri enn mikilvæg í baráttunni gegn myrkrinu og anda þessa heims.

Bæn Leós XIII páfa
Heilagi Mikael erkiengill, verndaðu oss í orrustunni.
Ver oss skjól gegn illsku og brögðum djöfulsins.
Guð lasti hann, við biðjum auðmjúklega.
Og þú, höfðingi hersveita himinsins,
varpa, fyrir mátt Guðs, Satan og öllum illum öndum,
sem um svífa um heiminn til glötunar sálum,
niður í helju. Amen.

--

Heimildir: Lectio Divina Karmelreglunnar, september 2025 og vefsetur Páfagarðs: https://www.vaticannews.va/en/saints/09/29/st--michael--archangel.html 


Engladagur, hátíð hinna heilögu höfuðengla Mikaels, Gabríels og Rafaels - 29. september

Í dag, 29. september, fagnar kirkjan Engladegi, hátíð hinna heilögu höfuðengla Mikaels, Gabríels og Rafaels. Hátíðin hefur verið haldin frá ...