![]() |
Heilög Therese af Jesúbarninu og Hinu heilaga andliti |
1. október er minning heilagrar Therese af Jesúbarninu, kenndri við Lisieux í Frakklandi, meyjar, kirkjufræðara og verndardýlings trúboða. Hún er ein af vinsælustu dýrlingum Kaþólsku kirkjunnar, ekki vegna þess að hún hafi ferðast langt eða unnið stórbrotin verk, heldur af því að hún benti á leið sem er öllum fær: litlu leiðina í kærleikanum.
Æviágrip
Therese Françoise Marie Martin fæddist 2. janúar 1873 í Alençon í Frakklandi. Hún var yngst átta barna, en missti móður sína aðeins fjögurra ára gömul. Faðir hennar sýndi henni mikla ástúð og kallaði hana „litlu drottningu Frakklands og Navarra“. Þegar systur hennar gengu hver af annarri í klaustur, fylltist hún sjálf ákafri löngun til að helga líf sitt Guði.
Aðeins fimmtán ára gömul fékk hún sérstakt leyfi Leós páfa XIII til að ganga í Karmelítaklaustrið í Lisieux. Þar tók hún sér nafnið systir Therese af Jesúbarninu og Hinu heilaga andliti. Hún helgaði líf sitt bænahaldi, fórnfýsi og kærleika til Guðs og manna.
Eftir níu ár í klaustrinu lést hún úr berklum, aðeins 24 ára gömul, 30. september 1897. Eftir andlát hennar gaf klaustrið út ævisögu hennar sem hún hafði skrifað að beiðni nunnunnar móður Agnesar. Bókin Saga sálar sem byggð var á ævisögunni varð metsölubók og fór víða. Fjöldi fólks fann í henni leiðsögn í eigin lífi og trú. Bróðir Sigurður Stefán Helgason í Leikmannareglu Karmels þýddi bókina á íslensku og er hún fáanleg í verslun Karmelsystranna í Hafnarfirði í klaustri þeirra að Ölduslóð 37.
Lærdómur
Í skrifum sínum kenndi hún að vegurinn til Guðs þarf ekki nauðsynlega að vera varðaður stórvirkjum heldur getur hann falist í smáum kærleiksverkum: að þvo leirtauið af kærleika, brosa þegar hugurinn stendur til annars, að leggja stund á þolgæði og taumhald frekar en að freistast til að gefa meiðandi tilsvar. Þessi „litla leið“ varð að heilagri fræðikenningu sem hefur veitt milljónum trúaðra leiðsögn. Hún þráði að vera postulinn, píslarvotturinn, presturinn – en skildi að í líkama kirkjunnar væri eitt sem allt annað byggði á: kærleikurinn. Þar fann hún köllun sína: að vera kærleikur í hjarta kirkjunnar.
Tilvitnun
Hér á eftir fer stuttur kafli úr sjálfsævisögu heilagrar Therese (Manuscrits autobiographiques, Lisieux 1957, 227–229) sem birtist í þýðingu tíðabænabókar Kaþólsku kirkjunnar hér. Í þessum texta lýsir heilög Therese því hvernig lestur 12. og 13. kafla fyrra Korintubréfs leiddi hana smám saman til skilnings á hlutverki kærleikans í líkama Kirkjunnar:
„Er ég íhugaði leyndardómsfullan líkama Kirkjunnar gat ég ekki skynjað sjálfa mig í neinum lima hennar sem heilagur Páll lýsti eða öllu heldur þráði ég að sjá mig í þeim öllum. Kærleikurinn færði mér lykilinn að köllun minni. Ég skildi að ef Kirkjan hefði líkama sem væri settur saman af ýmsum limum gat hann ekki skort það allra nauðsynlegasta og göfugasta. Þannig skildi ég að Kirkjan hafði hjarta og að þetta hjarta brann af kærleika. Ég skildi að það var ekkert nema kærleikurinn sem fékk limi Kirkjunnar til að starfa og að ef kærleikurinn skyldi einhvern tímann kulna myndu hvorki postularnir prédika fagnaðarerindið né píslarvottarnir úthella blóði sínu. Ég skildi að kærleikurinn geymdi allar kallanir, að kærleikurinn væri í öllu, að í honum væru fólgnir allir tímar og staðir … eða í stuttu máli, að hann væri eilífur!“
Minning á Íslandi
Heilög Teresa er einn dáðasti dýrlingur veraldar og áhrif hennar hafa borist víða. Í nóvember 2018 komu skrín með helgum dómum hennar og foreldra hennar, hinna heilögu Lúðvíks og Silju Martin, til Íslands og voru þau sýnd í Karmelklaustrinu í Hafnarfirði. Foreldrar hennar eru fyrstu hjónin sem tekin voru í dýrlingatölu í sömu athöfn. Þessi heimsókn var dýrmætur atburður fyrir íslenska kaþólikka sem fengu tækifæri til að biðja við helga dóma Terese og minnast arfleifðar hennar. Sjá nánar á vefsíðu Karmelklaustursins: hér. Af þessu tilefni málaði Baltasar Samper listmálari mynd af heilagri Therese fyrir Karmelklaustrið. Frásögn af því má finna hér.
Alþjóðleg viðurkenning
Árið 2021 samþykkti allsherjarþing UNESCO að minnast heilagrar Terese af Lisieux í tilefni 150 ára afmælis fæðingar hennar (2023) og 100 ára afmælis frá því hún var tekin í tölu blessaðra (1923). Með þessu vildi UNESCO undirstrika menningarleg og andleg áhrif hennar, einkum vegna kenningar hennar um „litlu leiðina“ sem snertir mannlega reisn, kærleikann sem sameiningarkraft mannkyns og von fyrir þá sem standa á jaðri samfélagsins. Þannig hefur arfleifð hennar verið viðurkennd ekki aðeins af kirkjunni, heldur einnig á alþjóðavettvangi sem hluti af menningarlegri og andlegri auðlegð mannkynsins.
Bæn
Heilaga Therese af Jesúbarninu, litla blóm, kenndu okkur að elska í hinu smáa og gera allt af einlægni fyrir Guð. Hjálpaðu okkur að finna köllun okkar innan líkama kirkjunnar og að vera kærleikur í hjarta hennar. Bið fyrir prestum, trúboðum og öllum þeim sem hafa misst vonina, svo að þeir megi finna ást Guðs.
Amen.