06 apríl 2025

Guðspjall dagsins: „Sá yðar sem syndlaus er“


Sagan um konuna sem staðin var að hórdómi og færð fyrir Jesú (Jóh 7,53–8,11) hefur sérstaka stöðu í Biblíunni. Hún finnst aðeins í Jóhannesarguðspjalli, og jafnvel þar er hún ekki í öllum handritum. Sum forn handrit sleppa þessum kafla alveg, eða setja hann annars staðar, svo sem í Lúkasarguðspjall. Margir fræðimenn telja þó að sagan hafi verið sönn og borist munnlega meðal fyrstu kristinna manna, þar til hún fékk fastan sess í ritningunni. Hún ber með sér dýpt og mildi sem er í samræmi við það sem við vitum um Jesú og kenningu hans, og kirkjan hefur löngum litið á hana sem dæmi um miskunnsemi og réttlæti.

Í sögunni mætum við Jesú sem kennara í musterinu, umkringdan fólki sem þráir orð lífsins. Inn í þessa kyrru stund kennslu berst óvænt truflun. Farísear og fræðimenn draga með sér konu sem hefur verið staðin að hórdómi — og stilla henni upp, bersýnilega sem táknmynd skammar og dóms. En í raun eru þeir ekki að leita réttlætis — þeir eru að reyna að sakfella bæði konuna og Jesú.

Þetta er ekki óalgengt. Saga mannkynsins, og því miður líka saga trúarbragða, geymir margar frásagnir af fólki hefur verið útskúfað, dæmt og jafnvel myrt í nafni Guðs og laga hans. Oft eru það þeir sem telja sig standa vörð um guðlega reglufestu sem beita lögunum sem vopni gegn öðrum — en ekki gegn sjálfum sér.

Guðspjallið virkar sem spegill. Við erum beðin um að horfa í hann og spyrja: Hver er ég í þessari frásögn? Er ég hlustandi í musterinu, forvitinn og opin/n fyrir sannleika? Er ég í hópi þeirra sem koma með steininn í hendi og dóm í hjarta? Eða er ég konan, opinberlega niðurlægð og án vonar?

Þeir spyrja Jesú: “Hvað segir þú?” En hann svarar ekki strax. Hann beygir sig niður og skrifar á jörðina. Hvað skrifar hann? Við vitum það ekki. En þessi hljóðláta hreyfing talar sterkt. Hann neitar að taka þátt í þessari atburðarás ranglætis. Jesús stendur ekki með þeim sem vilja skaða, heldur þeim sem þarfnast miskunnar.

Síðan, þegar þrýstingurinn vex, rís hann upp og segir: “Sá ykkar sem syndlaus er, kasti fyrstur steini á hana.” Og aftur hallar hann sér niður og skrifar. Þeir eldri fara fyrst í burt, þeir sem hafa lifað nógu lengi til að vita að allir bera synd í hjarta. Að lokum stendur Jesús einn eftir með konunni.

Það sem Jesús gerir hér er ekki aðeins að afnema ósanngjarna beitingu laganna. Hann opinberar einnig hvers konar Guði hann þjónar: Guð sem dæmir ekki til dauða, heldur boðar líf. “Ég sakfelli þig ekki heldur,” segir hann. “Far þú. Syndga ekki framar.”

Þetta er hvorki samþykki né afneitun á synd. Þetta er lausn — frelsandi náð sem bæði afmáir fortíðina og kallar til nýs lífs.

Þessi frásögn hvetur okkur sem kirkju og samfélag til að endurskoða hvernig við komum fram við þá sem brotið hafa af sér — eða einfaldlega passa ekki inn í kerfin okkar. Notum við trúarhefðina til að útskúfa og dæma? Eða stöndum við með Jesú, þeim sem beygir sig niður, sem skrifar á jörðina og býður miskunn þegar aðrir bjóða dóm?

Ef Jesús sem er ljós heimsins stendur með hinni niðurlægðu, hinum brotna, hinum útskúfaða — hvar stöndum við þá?

https://ocarm.org/en/prayer/lectiodivina


Heilagur Abbondio, biskup í Como - minning 15. apríl

Borgin Como, þar sem heilagur Abbondio þjónaði sem biskup, stendur við samnefnt vatn, Lago di Como, sem margir telja eitt fegursta stöðuvatn...

Mest lesið