29 mars 2024

Föstudagurinn langi - samstöðudagur með einmana, syrgjendum og þjáðum

Þakkir: pexels.com
Sum okkar sniðganga Föstudaginn langa með einum eða öðrum hætti og hyggja fremur að þeim skemmtunum sem í boði eru á þessum degi. Frá sjónarhóli þeirra sem glíma við efasemdir um trúna mætti samt líta á Föstudaginn langa sem samstöðudag með þeim sem eru einmana, syrgja eða þjást og þeirra þarf ekki alltaf að leita langt. Sorg og þjáningu er víða að finna í okkar samfélagi en samt ekki alltaf greinilega því mörg kjósum við að bera erfiðar tilfinningar í hljóði. Mörg eiga t.d. vin eða ættingja  sem býr einn eða á hjúkrunarheimili og myndi þiggja símtal eða heimsókn.  Víðsýnt og góðviljað fólk sem tekst á við efasemdir ætti að geta tekið undir nauðsyn þess að huga að þessum málum, leyfa jafnvel Guði að njóta vafans og tala við hann innra með sér. 

Það er löng hefð fyrir því í okkar menningu að leita kyrrðarinnar til að leggja stund á innri skoðun. Á föstudaginn langa minnast kristnir þess að þann dag þjáðist Kristur á krossinum og því er ekki óviðeigandi að nota bænadagana til að rannsaka hugann og samviskuna, horfa inn á við og viðurkenna mistök eða freistingar. Flest ættu að geta haft gott af þannig innri skoðun hvort sem hún er gerð á trúarlegum forsendum eða ekki. 

Hinar innri freistingar eru oft nálægar en samt ekki alltaf vel greinilegar. Í föstuboðskap sínum tiltók Frans páfi nokkrar þeirra: 

„Að vera almáttug, fyrirmynd sem allir líta upp til, að drottna yfir öðrum: sérhver mannvera er meðvituð um hversu djúpstæð og freistandi þessi lygi getur verið. Það eru vel þekkt sannindi. Við getum orðið háð gildum eins og peningum, ákveðnum verkefnum, hugmyndum eða markmiðum, stöðu okkar, hefðum, jafnvel ákveðnum einstaklingum. Og í stað þess að hjálpa okkur að ná lengra, hefta þau  okkur. Í stað þess að færa okkur nær hvert öðru, sundra þau okkur.“ [1]

RGB/29.3.2024

Föstudagurinn langi - samstöðudagur með einmana, syrgjendum og þjáðum

Þakkir: pexels.com Sum okkar sniðganga Föstudaginn langa með einum eða öðrum hætti og hyggja fremur að þeim skemmtunum sem í boði eru á þess...