Dr. Alfred James Jolson S.J. Reykjavíkurbiskup Fæddur 18. júní 1927 Prestvígsla 14. júní 1958 Biskupsvígsla 6. febrúar 1988 Dáinn 21. mars 1994 |
Alfreð biskup hratt í framkvæmd ýmsum umbótum innan Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi. Meðal þess sem hann beitti sér fyrir var þjónusta við innflytjendur og ferðamenn í formi reglulegs messuhalds á ensku, stofnuð var Íslandsdeild Caritas hjálparsamtakanna, hann stuðlaði að réttarbótum varðandi hjónabandsógildingar með því að senda prest í nám í kirkjurétti í Róm, beitti sér fyrir stofnun Kaþólska kirkjublaðsins og tölvuvæðingar biskupsstofunnar.
Eftir andlát hans fundust í fórum hans drög að verklagsreglum um málsmeðferð vegna mála um kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum af hálfu vígðra þjóna, sem talið er að hann hafi komið með frá Bandaríkjunum. Í drögunum er meðal annars lögð áhersla á þverfaglega samvinnu, vandaða rannsókn mála og viðbrögð, þar með talið ítarlega skráningu og varðveislu upplýsinga um meðferð
allra mála þar sem grunsemdir vakna um ofbeldisbrot. Því miður vannst honum ekki aldur til að hrinda þessum reglum í framkvæmd.
Meðal merkra athafna sem hann leiddi var hátíðarmessa haldin í Skálholti sumarið 1993 í tilefni af 800. ártíð Þorláks helga sem og vígsla st. Jósefskirkju í Hafnarfirði sama haust. Þegar kista hans var borin til kirkju hringdu kirkjuklukkur Dómkirkju Krists konungs óvænt og vakti þetta nokkra athygli. Morgunblaðið greinir t.d. frá þessu á bls. 2 í 76. blaði frá 6.4. 1994. Þar segir:
„Kirkjuklukkur Landakotskirkju fóru að hringja af einhverjum óútskýrðum orsökum á mánudeginum í síðustu viku, daginn sem Afred Jolson biskup kaþólsku kirkjunnar á Íslandi var jarðaður. Klukkurnar hringdu einnig tvo daga á eftir. Ekki er vitað til þess að klukkurnar hafi hagað sér svona áður.“
Á minningarspjaldi sem gert var skömmu eftir andlát hans var þessi bæn:
Drottinn, þú gerðir Alfred biskup vorn
að þjóni þínum og fólst honum
leiðsögn fjölskyldu þinnar.
Gef að hann megi njóta ávaxta
verka sinna og eignist hlut
í eilífri gleði þinni.
Hann hvíli í friði.
Ef vera kynni að lesendur telji sig hafa fengið bænasvar og þakka það meðal annars að Alfreð biskupi hafi verið falin fyrirbæn, og vilja deila þeim upplýsingum þá má hringja í síma 896 5768 eða senda tölvupóst á ragnargeir@hotmail.com.