Í umfjöllun Fréttaþjónustu Páfagarðs (Vatican News) í apríl kemur fram að í fyrsta sinn hafi arabi – verið skipaður rektor opinbers háskóla í Ísrael. Þetta eru sannkölluð tímamót. Mouna Maroun, taugavísindamaður og prófessor við Háskólann í Haifa, var árið 2024 skipuð rektor við sama háskóla.
Maroun kemur frá litlu þorpi Maróníta í hlíðum Karmelfjalls, fjallsins sem í aldanna rás hefur verið tákn bænar, innri endurnýjunar og nálægðar við Guð. Þar, í þessu hljóða og heita landslagi, ólst hún upp í samfélagi sem hefur lengi varðveitt trú sína þrátt fyrir aðstæður sem oft hafa verið fjandsamlegar.
Fréttin um þessa ráðningu vekur ekki aðeins athygli vegna kyns og trúaruppruna, heldur einnig vegna þess að hún á sér stað í samfélagi sem margir tengja við langvarandi átök, þjóðernisspennu og trúarlegan klofning. Með rólegri og skýrri rödd minnir hún á hlutverk kristinna í þessu landi: þeir eru röddin sem oft gleymist í skugga fjölmiðlaumræðu.
„Ég er kona, ég er kristin og ég er arabísk. Ég get ekki verið neitt annað en þetta allt í einu. Og það er ekki veikleiki – heldur styrkur,“ sagði Maroun í viðtalinu.
Rödd í samfélagi sem þarf brúarsmiði
Að þessi ráðning komi á sama tíma og átök geisa í Gaza og spenna ríkir í norðurhluta Ísraels, undirstrikar táknrænt vægi hennar. Maroun hefur árum saman lagt rækt við trúarbragðasamræðu milli gyðinga, kristinna og múslima – og gerir það með því að vera brú milli heima. Hún talar tungumál vísindanna og akademíunnar, en einnig tungumál trúarinnar og tilheyrir minnihluta sem oft verður ósýnilegur í umræðu.
Maroun er maróníti, sem þýðir að hún tilheyrir einni af austurkirkjunum sem eru í einingu við Rómversk-kaþólsku kirkjuna. Marónítar eiga rætur sínar að rekja til heilags Marons, einsetumanns í Sýrlandi á 4. öld, og eru aðallega til staðar í Líbanon, Sýrlandi og Ísrael. Þeir varðveita eigin litúrgíu og hefðir, en viðurkenna leiðsögn páfa. Í Ísrael mynda þeir lítið en virkt samfélag sem heldur fast í trú og menningararf í mótsagnakenndum heimi.
Konur sem leiðtogar umbreytingar
Þótt kirkjan og samfélagið hafi lengi verið mótuð af karllægri stjórn og hefðum, hafa konur gegnt lykilhlutverki þar sem mest á reynir – í fræðslu, friðarstarfi og þjónustu. Sem rektor við opinberan háskóla verður Maroun fyrirmynd og rödd sem getur haft víðtæk áhrif. Um 45% nemenda í Háskólanum í Haifa eru arabískir borgarar, og hún sér hlutverk skólans í ljósi þess: sem hreyfiafl félagslegs réttlætis og framdráttar fyrir minnihlutahópa.
Því tekur hún afstöðu gegn þeirri sniðgöngu sem sumir erlendir háskólar hafa gripið til, með því að slíta tengsl við ísraelska fræðastofnanir vegna hernaðarátaka í Gaza. „Sniðganga hjálpar engum,“ segir hún. „Sérstaklega ekki fræðileg sniðganga, því ísraelskur fræðiheimur er að gera ótrúlega hluti til að styrkja Araba og auka félagslegan hreyfanleika þeirra.“ Þvert á móti telur hún að samstarf og samtal sé leiðin áfram: „Erlendir háskólar ættu að eiga beint samstarf við ísraelska háskóla – til að styrkja frjálslyndu öflin innan samfélagsins.“
Að halda í mannúð
Maroun segist sem ísraelskur arabi hafa „samúð með báðum hliðum“ í átökunum í Gaza. „Þú þarft ekki að vera gyðingur til að skelfast yfir því sem gerðist 7. október,“ segir hún. „Og þú þarft ekki að vera arabi til að skelfast yfir mannúðarástandinu í Gaza.“ Það að vera manneskja, segir hún, felur í sér að „bera samkennd með fórnarlömbum beggja.“
Hún kallar einnig eftir virkari þátttöku kirkjunnar og Páfagarðs sem „hlutlausra miðlara“ í þágu friðar í Mið-Austurlöndum og leggur áherslu á að slík hlutverk þurfi að fela í sér samvinnu við áhrifavalda beggja vegna, jafnvel innan bandarískra stjórnvalda. „Þetta er trú okkar,“ segir Maroun í lokin. „Sátt, fyrirgefning og friðaruppbygging.“
---
Heimild: [Vatican News – Election of first Arab rector a ‘message of hope’ for Israel](https://www.vaticannews.va/en/world/news/2025-04/mouna-maroun-first-arab-rector-haifa-gaza-conflict-church.html)