24 nóvember 2025

Heilagur Andrés Dung-Lac og félagar, píslarvottar Víetnams - minning 24. nóvember

Heilagur Andrés Dung-Lac og félagar píslarvottar Víetnams

Í dag minnist kirkjan heilags Andrésar Dung-Lac og 116 samferðamanna hans, píslarvotta víetnömsku kirkjunnar. Þeir standa fyrir ótal fleiri: hundruð þúsunda trúaðra sem liðu píslarvættisdauða í Víetnam á 17.–19. öld. Þeir voru biskupar, prestar, trúboðar og leikmenn – foreldrar, hermenn, kennarar, konur og börn – sem létu lífið fyrir Krist í hrikalegum ofsóknum.

Á árunum 1625–1886, að undanskildum stuttum friðartímum, gerðu yfirvöld allt sem þau gátu til að ýta undir hatur gegn lærisveinum Krists. Eftir því sem ofsóknirnar jukust, jókst einnig staðfesta kristinna manna. Af þeim 117 sem síðar voru teknir í tölu heilagra voru 11 spænskir trúboðar úr Dóminíkanareglunni, 10 franskir trúboðar og 96 Víetnamar: 8 biskupar, 50 prestar og 59 leikmenn úr öllum stéttum samfélagsins. Margir voru foreldrar og fjölskyldufólk; aðrir trúkennarar, prestnemar eða hermenn.

Þrátt fyrir þessa sögu ofbeldis varð blóð þeirra sáðkorn trúarinnar: vitnisburður píslarvottanna varð grunnur sterkrar og lifandi kirkju í Víetnam sem heldur áfram að vaxa.



Æviágrip
Heilagur Andrés Dung-Lac fæddist um 1795 í fátækri fjölskyldu í norðanverðu Víetnam og bar upphaflega nafnið Dung An-Tran. Foreldrar hans tilheyrðu hefðbundinni trú landsins, en tólf ára fluttist fjölskyldan til Hanoi í von um betra líf. Þar kynntist drengurinn kristnu fólki, fékk húsaskjól hjá trúkennara og lærði um Krist. Hann var skírður Andrés og síðar vígður til prests árið 1823.

Einfalt líferni hans og áhrifaríkar prédikanir leiddi marga til trúar. En tíðarandinn var hættulegur: árið 1832 fyrirskipaði keisarinn Minh-Mang að allir kristnir yrðu að afneita trú sinni opinberlega og traðka á krossi. Erlendir trúboðar voru bannaðir, prestar fangelsaðir og venjulegt fólk pyntað og tekið af lífi fyrir að hýsa þá.

Andrés var fyrst handtekinn árið 1835, en söfnuður hans leysti hann út með lausnargjaldi. Til að forðast nýjar ofsóknir breytti hann eftirnafni sínu í Lac og flutti sig til, en árið 1839 var hann gripinn á ný ásamt prestinum Pétri Thi. Þeir voru pyntaðir og loks hálshöggnir í Hanoi 21. desember 1839.

Á eftir fylgdu nýjar ofsókir sem eru taldar með þeim verstu í sögu kirkjunnar: kristnir voru merktir „ta dao“ – „fölsk trú“ – á ennið, fjölskyldum stíað í sundur, eignir teknar, bæir eyðilagðir og fólk pyntað á ómanneskjulegan hátt. 

Jóhannes Páll páfi II tók hina 117 nafngreindu píslarvotta í tölu heilagra árið 1988. Engum frá Víetnam sjálfu var þá leyft að taka þátt í hátíðinni, en um 8.000 víetnamskir kaþólikkar sem bjuggu utan Víetnam fylltu torg Páfagarðs og fögnuðu vitnisburði samfélags síns.

Kaþólska kirkjan í Víetnam í dag
Þrátt fyrir langa og blóðuga sögu ofsókna er kaþólska kirkjan í Víetnam öflug og lifandi. Um sjö milljónir Víetnama tilheyra kirkjunni, rúmlega sjö prósent þjóðarinnar, og safnaðarstarf er víða afar blómlegt. Kirkjan á einna yngstu og fjölmennustu prestastéttina í Asíu.

Á sama tíma býr kirkjan við ákveðnar takmarkanir; stjórnvöld áskilja sér rétt til að samþykkja biskupsvígslur, setja reglur um trúboðsstarf og hafa eftirlit með trúarstarfsemi. Samt sem áður heldur kirkjan áfram að vaxa, oft í nálægð og samvinnu við samfélagið, og vitnisburður píslarvottanna lifir áfram sem innblástur fyrir nýjar kynslóðir kristinna Víetnama.

Tilvitnun
Úr bréfi heilags Páls Lê Bảo Tịnh: „Ég, Páll, í hlekkjum fyrir nafn Krists, vil segja yður frá þeim raunum sem hrjá mig daglega, til þess að þér getið upptendrast í kærleika til Guðs og sameinast mér í lofgjörð til hans. „því að miskunn hans varir að eilífu.“ Fangelsið hér er sönn mynd af eilífu helvíti: Við hvers kyns grimmilegar pyntingar – fjötra, járnkeðjur, handfjötra – bætast hatur, hefnd, ærumeiðingar, ruddalegt tal, deilur, illvirki, blótsyrði og bölvun, svo og angist og sorg. En sá Guð sem eitt sinn leysti börnin þrjú úr eldsofninum er alltaf með mér; hann hefur frelsað mig úr þessum þrengingum og gert þær ljúfar, „því að miskunn hans varir að eilífu.“Mitt í þessum kvölum, sem venjulega skelfa aðra, er ég, af Guðs náð, fullur af gleði og fögnuði, því ég er ekki einn – Kristur er með mér. Meistari okkar ber allan þungann af krossinum og skilur eftir fyrir mig aðeins minnstu og síðustu ögnina. Hann er ekki aðeins áhorfandi í baráttu minni, heldur keppandi og sigurvegari. Þess vegna er sigurkóróna sett á höfuð hans og limir hans eiga líka hlutdeild í dýrð hans.“ (Úr Tíðabænabókinni.) 

Lærdómur
Píslarvottar Víetnams minna okkur á að trúin getur orðið sterkust þegar hún er vottuð af einlægni og trúfesti, ekki endilega þegar aðstæður eru auðveldar heldur einmitt þegar mótlætið er mest. Vitnisburður þeirra sýnir að sambandið við Krist getur gefið mönnum styrk sem engin ytri ógn nær að slökkva.

Þeir kenna okkur að trúfesti dagsins, jafnvel í smáu og hljóði, getur orðið að sáðkorni í hendi Guðs sem ber ávöxt langt umfram okkar eigin sýn. Í okkar aðstæðum erum við kölluð til sömu einföldu tryggðarinnar: að fylgja Kristi þar sem við stöndum og treysta því að hann sé með okkur í öllum aðstæðum.

Bæn
Drottinn Jesús Kristur, þú sem styrktir Andrés Dung-Lac og píslarvotta Víetnams til að fylgja þér í gegnum þjáningu og dauða, veittu að við megum í trúfesti bera kross okkar á hverjum degi. Gef kirkju þinni styrk, hugrekki og frið, og ger okkur að vitnum um kærleika þinn í heiminum. Heilagi Andrés Dung-Lac og píslarvottar Víetnams, biðjið fyrir okkur. Amen.

Heilagur Andrés Dung-Lac og félagar, píslarvottar Víetnams - minning 24. nóvember

Heilagur Andrés Dung-Lac og félagar píslarvottar Víetnams Í dag minnist kirkjan heilags Andrésar Dung-Lac og 116 samferðamanna hans, píslarv...