08 janúar 2026

Heilagur Pétur Tómas – karmelíti, biskup og friðflytjandi - minning 8. janúar

Heilagur Pétur Tómas – karmelíti og friðflytjandi

Heilagur Pétur Tómas fæddist um árið 1305 í Périgord í Frakklandi. Ungur að árum gekk hann í Karmelregluna og vakti fljótt athygli fyrir andlega dýpt og guðfræðilega hæfni. Hann þjónaði reglu sinni af trúmennsku og mótaðist djúpt af bæn, íhugun og Maríudýrkun, sem einkenndi alla þjónustu hans síðar.

Pétur Tómas var skipaður umboðsmaður Karmelreglunnar við páfastólinn í Avignon, þar sem páfagarðurinn hafði þá aðsetur, og gegndi þar jafnframt hlutverki prédikara. Þar lærði hann að starfa á mörkum kirkju og stjórnmála, án þess að glata innri kyrrð sinni eða andlegri fótfestu.

Árið 1354 var hann vígður biskup í Patti og Lipari, sameinuðu biskupsdæmi á norðurströnd Sikileyjar og á Eólíueyjum norðan við hana. Þaðan var hann sendur í sífellt ábyrgðarmeiri verkefni í þjónustu páfa, einkum sem sendiboði til konunga, keisara og kirkjuleiðtoga.



Árið 1359 var honum falið embætti biskups í Korintu í Grikklandi, fornu biskupssetri á Pelópsskaga, og sendur þangað sem sendiboði páfa til austurkirknanna. Síðar varð hann erkibiskup á Krít árið 1363, eyju sem þá var undir stjórn Feneyja og mikilvæg miðstöð á Miðjarðarhafi. Loks var hann skipaður latneskur patríarki í Konstantínópel árið 1364, borginni sem þá var miðja austurkristni, þótt hún væri komin undir mikinn pólitískan og hernaðarlegan þrýsting. Konstantínópel var í norrænum heimildum miðalda gjarnan nefnd Mikligarður.

Í öllum þessum störfum lagði Pétur Tómas höfuðáherslu á frið, sátt og endurreisn einingar kirkjunnar, einkum milli Rómarkirkju og austurkirknanna sem höfðu slitnað frá Pétursstólnum árið 1054. Ævi hans tengist mörgum mikilvægum viðburðum 14. aldar, þar á meðal tilraunum keisarans Jóhannesar V. Palaiologosar Miklagarðskeisara til kirkjulegrar einingar, friðarsamningum milli ríkja í Evrópu og viðleitni til að bregðast við vaxandi ógn Tyrkja. Í þessum atburðum var hann bæði vitni og virkur þátttakandi, karmelíti sem gekk inn í stormasama sögu samtímans með hjarta bænar og íhugunar.

Um ævi Péturs Tómasar hefur varðveist merkileg ævisaga, skrifuð árið 1366 af Philippe de Mézières, nánum vini hans, kanslara og andlegum syni. Þótt höfundurinn skrifi af mikilli aðdáun og tilhneigingu til að einfalda stundum atburði og hvatir, telst frásögn hans á heildina litið áreiðanleg og er víða einstök heimild um samtíma Péturs Tómasar. Þar er meðal annars fjallað um kirkjusögu Serbíu, stríð Feneyinga og Ungverja á árunum 1356–1358, tilraunir til kirkjulegrar einingar á tímum Palaiologosar, bandalag gegn Tyrkjum, friðinn í Bologna árið 1364 og herleiðangurinn gegn Alexandríu árið 1365. Á þessum fjölbreytta sögulega bakgrunni birtist líf Péturs Tómasar sem karmelíta, sendiboða, diplómats og heilags manns.

Ævisagan var síðar gefin út í fræðilegri útgáfu af karmelítasagnfræðingnum Joachim Smet, sem byggði á áður óútgefnum handritum. Þótt verkið sé að hluta á latínu hefur það mikla þýðingu fyrir skilning á bæði lífi Péturs Tómasar og kirkju- og stjórnmálasögu 14. aldar.

Í andlegu lífi sínu var Pétur Tómas þekktur fyrir innilega Maríudýrkun. Í karmelítískri hefð er hann lýstur sem manni sem leitaði stöðugt skjóls hjá Maríu, móður Drottins og drottningu Karmels. Hefðin eignar honum rit um flekklausan getnað Maríu og varðveist hafa fjögur bindi af prédikunum hans. Í frægri fresku í karmelítakirkjunni í Straubing í Þýskalandi er hann sýndur umkringdur reglusystkinum í þjónustu við sjúka og fátæka, á meðan María birtist honum með barnið í örmum sem tákn um vernd og blessun.

Pétur Tómas lést árið 1366 í Famagusta á Kýpur, hafnarborg á austurströnd eyjarinnar, örmagna eftir langa og krefjandi þjónustu í þágu kirkjunnar.

Lærdómur
Heilagur Pétur Tómas minnir okkur á að sönn íhugun leiðir ekki til flótta frá heiminum, heldur til ábyrgðar gagnvart honum. Í lífi hans mætast kyrrð bænarinnar og erfið þjónusta í sundruðum heimi. Hann sýnir að eining kirkjunnar verður ekki knúin fram með valdi eða þrýstingi, heldur með þolinmæði, samtali og trúmennsku við Krist. Arfleifð hans talar sterkt inn í samtíma okkar, þar sem klofningur, tortryggni og hörð orð setja oft svip á samskipti fólks og kirkna. Pétur Tómas kennir okkur að vinna að sátt án þess að gefa eftir sannleikannn, og að leita friðar án þess að missa fótfestu í bæninni.

Bæn
Heilagi Pétur Tómas,
þú sem lifðir í íhugun og þjónustu í senn,
kenndu okkur að vera verkfæri friðar í heimi sundrungar.
Styrk kirkju Krists í leit hennar að einingu
og gefðu okkur hjarta sem hlustar,
orð sem sætta og trú sem stendur föst í kærleika.
Amen.


Heilagur Pétur Tómas – karmelíti, biskup og friðflytjandi - minning 8. janúar

Heilagur Pétur Tómas – karmelíti og friðflytjandi Heilagur Pétur Tómas fæddist um árið 1305 í Périgord í Frakklandi. Ungur að árum gekk hann...