![]() |
Heilög móðir Teresa frá Kalkútta stofnandi Kærleiksboðberanna (Missionaries of Charity) |
„Ég kynni ykkur voldugustu konu heims.“
Þannig kynnti Pérez de Cuéllar, þáverandi framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Móður Teresu frá Kalkútta þegar hún steig á svið á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 26. október 1985. Sjálfri fannst henni þessi lýsing óþægileg. Hún kallaði sig frekar „blýantstubb í höndum Guðs.“
Æviágrip
Móðir Teresa fæddist 26. ágúst 1910 í Skopje, sem þá var hluti af Albaníu. Hún hlaut nafnið Agnes Gonxha. Foreldrar hennar ólu hana upp í trú og kærleika til fátækra. Árið 1928 fór hún til Dyflinnar á Írlandi og gekk í regluna Institute of the Blessed Virgin Mary (IBVM), betur þekkt sem Loreto-systur. Reglan var stofnuð af Mary Ward á 17. öld og fylgir reglu heilags Ignatíusar af Loyola, stofnanda Jesúítareglunnar. Loreto-systrurnar hafa um aldir helgað sig menntun og trúboði, og það var í gegnum þær sem hin unga María Teresa kynntist ignatískri hefð sem leggur áherslu á að „finna Guð í öllu“.
Árið 1929 var hún send til Indlands, fyrst til Darjeeling, en síðan til borgarinnar Kalkútta (nú Kolkata), þar sem hún kenndi í skóla Loreto-systranna, St. Mary’s School, næstu tuttugu árin. Þar sinnti hún menntun dætra efnaðra fjölskyldna, en fann sífellt sterkari köllun til að snúa sér að hinum allra fátækustu.
Árið 1946 fékk hún það sem hún nefndi „köllun innan köllunar“. Hún upplifði að Jesús kallaði hana til að vera ljós sitt meðal hinna fátæku: „Komdu, vertu mitt ljós. Ég get ekki farið einn.“ Hún yfirgaf regluna sína og stofnaði nýja reglu, Kærleiksboðberana (Missionaries of Charity), sem tók að starfa meðal útigangsmanna og hinna „óvelkomnu, óelskuðu og ómenntuðu“ í Kalkútta. Árið 1950 viðurkenndi erkibiskupinn í Kalkútta regluna og árið 1965 Páll páfi VI.
Reglan breiddist hratt út um allan heim, til Afríku, Suður-Ameríku og jafnvel til kommúnistaríkja á borð við Sovétríkin. Í dag starfa Kærleiksboðberarnir einnig á Íslandi.
Kærleiksboðberarnir á Íslandi
Kærleiksboðberarnir, sem einnig eru þekktar sem Teresusystur, hafa starfað hér á landi frá árinu 1996. Þær sinna bágstöddum í Reykjavík og vinna jafnframt ötullega að trúfræðslu barna. Ritari þessara orða getur vitnað um óeigingjarnt framlag þeirra til trúfræðslu barna því þær hafa sinnt því hlutverki, sem og aðstoð við helgihald, af mikilli prýði á Selfossi og í nágrenni um árabil og hin síðari ár einnig fullorðinsfræðslu að hluta. Heimili þeirra er að Ingólfsstræti 12 í Reykjavík, þar sem höfuðstöðvar reglunnar á Íslandi eru. Sími: 557 9799.
Vitnisburður trúar
Móðir Teresa varð sífellt þekktari á heimsvísu en þegar hún var spurð um leyndardóm árangurs síns svaraði hún einfaldlega: „Ég bið.“ Hún naut mikillar virðingar Páls VI. páfa sem færði reglunni bíl sinn að gjöf eftir ferð sína til Indlands. Hún átti djúpa vináttu við Jóhannes Pál páfa II sem heimsótti hana í Kalkútta og stofnaði að hennar frumkvæði húsið „Gjafir Maríu“ í Páfagarði fyrir starf Kærleiksboðberanna.
Í vörn lífsins
Móðir Teresa tók einnig sterka afstöðu til varnar lífinu. Í ræðu sinni þegar hún hlaut friðarverðlaun Nóbels fyrir árið 1979 sagði hún: „Mesti friðarspillirinn er óp barnsins í móðurkviði. Ef móðir getur drepið eigið barn, hvað er þá eftir sem getur hindrað mig og þig í að drepa hvort annað?“
Þrátt fyrir veikindi og erfiða trúarreynslu hélt hún áfram að þjóna fátækum allt til dauðadags 5. september 1997. Þá störfuðu um 4.000 systur í reglunni í 610 húsum í 123 löndum. Hún var tekin í tölu blessaðra af Jóhannes Páli II páfa árið 2003 og í tölu heilagra árið 2016 af Frans páfa.
Móðir Teresa og karmelísk arfleifð
Það er raunar athyglisvert að Agnes Gonxha hafi tekið sér nafnið María Teresa og síðar kynnt sig sem Móður Teresu (án h). Sú gerð nafnsins samsvarar nafni heilagrar Teresu af Jesú, endurnýjanda Karmelreglunnar og kirkjufræðara. Þessi tenging verður enn skýrari í ljósi þess að Móðir Teresa sjálf talaði um erfiða trúarreynslu sína sem hina „myrku nótt sálarinnar“ – hugtak sem á rætur í kenningu heilags Jóhannesar af Krossinum, samtímamanns og nánasta samstarfsmanns Teresu af Jesú. Hann lýsti myrku nóttinni sem innri hreinsun og leið til nánari sameiningar við Guð.
Það sem gerir reynslu Móður Teresu merkilega er að hún upplifði myrka trúarreynslu ekki bara tímabundið heldur í áratugi. Hún talaði
sjálf um djúpa innri þögn og tilfinningu um fjarlægð frá Guði, en hélt
engu að síður áfram að biðja og þjóna fátækum af stöðugleika og
trúmennsku. Þetta hafa margir túlkað sem vitnisburð um að hún hafi
gengið í gegnum sama andlega ferli og karmelísk dulspeki lýsir.
Það að Móðir Teresa nýtti sama hugtak gefur til kynna að hún hafi ekki aðeins heyrt um þessa arfleifð heldur tileinkað sér hana í dýpt – jafnvel þótt hún sjálf tilheyrði annarri reglu. Sama má raunar segja um heilagan Jóhannes Pál II páfa, en hann lagði á sig að læra spænsku á yngri árum einungis til að geta lesið rit karmelísku dulspekinganna á frummálinu.
Tilvitnun
„Kannski tala ég ekki tungumál þeirra, en ég get brosað.“ – Móðir Teresa
Lærdómur
Móðir Teresa sýnir okkur að miskunn Guðs hefur engin mörk. Hún svaraði kölluninni með því að verða ljós í myrkri, líf og huggun fyrir þá sem allir höfðu gleymt. Líf hennar kennir okkur að bæn, kærleikur og einfaldleiki eru öflug tæki sem Guði standa til boða.
Bæn
Guð, miskunnsami faðir,
þú kallar okkur til að þjóna í bræðralaginu við þurfandi og örbjarga.
Gef okkur hjarta líkt og heilagri Móður Teresu,
að við getum séð andlit Krists í þeim sem þjást
og orðið ljós þitt í heiminum.
Fyrir Krist, Drottin vorn. Amen.