11 janúar 2026

Geisladagur, skírn Drottins hátíð

Skírn Drottins - Geisladagur


Minning um skírn Jesú á sér djúpar rætur í lífi kirkjunnar. Þegar á 4. öld var í austurkirkjunni haldin sameiginleg hátíð 6. janúar, þar sem bæði var minnst Birtingar Drottins og skírnar hans í ánni Jórdan. Í þeirri hefð var athyglinni ekki aðeins beint að komu vitringanna, heldur einnig að opinberun Jesú sem Guðs sonar, þegar himnarnir opnuðust og rödd Föðurins hljómaði.

Í vestrænni kirkju þróaðist helgihaldið með öðrum hætti. Þar var minning um skírn Drottins lengi til staðar í bænaiðkun kirkjunnar, meðal annars í tíðabænunum, án þess þó að vera sjálfstæð stórhátíð. Smám saman varð Birting Drottins fyrst og fremst tengd komu vitringanna, meðan skírn Jesú fékk síðar skýrari sess í kirkjuárinu.



Með breytingum á helgisiðum árið 1969 var þessari þróun gefið fastara form. Þá var ákveðið að hátíð skírnar Drottins skyldi haldin sunnudaginn á eftir Birtingu Drottins. Með þessari skipan var lögð áhersla á að þessi atburður markaði formlega lok jólahátíðarinnar.

Jólahátíðinni lýkur þannig með skírn Drottins, þótt kirkjan haldi áfram að lifa í ljósi hennar fram til hátíðar Kyndilmessu 2. febrúar. Þar er Kristur lýstur „ljós til opinberunar heiðingjum“ – og dregin er skýr lína frá fæðingu Krists, í gegnum birtingu hans og skírn, og áfram til ljóssins sem hann ber inn í heiminn fyrir allar þjóðir.

Guðspjall dagsins – Lesár A (Mt 3,13–17)

Í guðspjalli dagsins mætum við undrun Jóhannesar skírara. Þegar Jesús kemur til hans við Jórdaná til að láta skírast, mótmælir Jóhannes: „Mér er þörf að skírast af þér, og þú kemur til mín!“

Þessi undrun er skiljanleg. Jóhannes hefur rétt á undan lýst þeim sem kemur á eftir sér sem hinum sterkara, þess sem hann sé ekki verður að leysa skóþveng. Nú stendur sá sami fyrir framan hann í auðmýkt og biður um skírn.

Svipuð viðbrögð sjáum við hjá Pétri annars staðar í guðspjöllunum: þegar Jesús talar um píslir sínar eða þegar hann vill þvo fætur lærisveinanna. Í öllum þessum tilvikum birtast sömu óþægindin: manninum reynist erfitt að horfast í augu við Guð sem velur veikleika, þjónustu og sjálfsgjöf.

Svar Jesú er einfalt en djúpt: „Lát það nú eftir. Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti.“

Hér talar Jesús ekki um réttlæti í mannlegum skilningi – sem mælir, vegur og dæmir – heldur réttlæti Guðs. Réttlæti sem sameinar, brýtur niður múra og mætir þörfum allra. Réttlæti sem byggir ekki á refsingu, heldur á kærleika, miskunn og fyrirgefningu.

Þegar Jesús stígur upp úr vatninu opnast himnarnir. Andi Guðs kemur yfir hann og rödd Föðurins hljómar:„Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á.“

Við Jórdan hefst ný sköpun. Aðskilnaði er aflétt, og Guð opinberar sig í fullu ljósi: Faðirinn talar, Sonurinn stendur í vatninu og Andinn svífur yfir vötnunum.

„Kristur er baðaður ljósi“ - Heilagur Gregoríus frá Nazianz
Í tíðabænabók kirkjunnar er í fyrri óttusöng lesin áhrifamikil prédikun heilags Gregoríusar frá Nazianz, þar sem skírn Krists er túlkuð sem atburður ljóssins og upphaf nýrrar sköpunar:

„Kristur er baðaður ljósi; vér skulum einnig vera baðaðir ljósi. Kristur er skírður; vér skulum einnig fara niður með honum og rísa upp með honum.“

Gregoríus dvelur við þá ráðgátu að hinn syndlausi Kristur biðji um skírn. Hann svarar henni með djúpri innsýn: Kristur kemur ekki til að láta hreinsa sig, heldur til að helga vatnið, grafa hið synduga manneðli og hefja nýja sköpun fyrir atbeina Andans og vatns. Þegar Jesús rís upp úr vatninu, segir Gregoríus, rís heimurinn upp með honum. Himnarnir opnast, Paradís opnast á ný, og Andinn stígur niður í mynd dúfu – sem vitnisburður um að líkami Krists sé eitt með Guði sjálfum.

Geisladagur – dagur ljóssins
Í íslenskri kirkjuhefð ber hátíð skírnar Drottins heitið Geisladagur. Það heiti fangar með djúpstæðum hætti kjarnann í þessum atburði: að skírn Jesú sé birting ljóss, augnablik þar sem guðlegt ljós fellur yfir vötnin og sköpunina alla.

Ljós Krists, sem birtist við fæðingu hans og var opinberað þjóðunum á Birtingu Drottins, geislar nú inn í mannlega tilveru í öllum sínum einfaldleika. Jesús stígur niður í vatnið eins og hver annar maður – og einmitt þar skín ljósið skærast. Geisladagur minnir okkur á að ljós Krists er ekki fjarlægt. Það snertir vatn, mannlega tilveru og sögu. Þess vegna getur Gregoríus sagt að heimurinn rísi upp með Kristi: ljósið er ekki aðeins til að horfa á, heldur til að lifa í því.

Lærdómur
Skírn Drottins kennir okkur að Guð mætir manninum ekki í yfirburðum, heldur í auðmýkt. Hann gengur niður í vötn lífsins með okkur, til að helga þau og umbreyta. Geisladagur minnir okkur á eigin skírn sem atburð ljóssins. Þar var okkur einnig sagt: „Þú ert minn elskaði sonur, mín elskaða dóttir.“ Enginn getur afmáð þá mynd Guðs sem við berum í okkur. Að lifa í anda skírnarinnar er að ganga fram sem barn ljóssins – að leyfa kærleika Guðs að móta dóma okkar, viðbrögð og samskipti. Það er að trúa því að nýtt upphaf sé alltaf mögulegt, því himnarnir hafa verið opnaðir.

Bæn
Guð Faðir,
þú sem opnaðir himnana við Jórdan
og lést ljós þitt skína yfir Son þinn,

baðaðu okkur einnig ljósi þínu.
Lát skírn okkar verða að lifandi uppsprettu
nýrrar sköpunar í lífi okkar.

Kenn okkur að ganga í auðmýkt Krists,
að lifa af miskunn,
og að bera ljós hans inn í heiminn.

Ger okkur að börnum ljóssins,
svo að við megum rísa upp með Kristi
og lifa í þeirri gleði
að vera elskaðir af þér.

Fyrir Krist, Drottin vorn.
Amen.




Geisladagur, skírn Drottins hátíð

Skírn Drottins - Geisladagur Minning um skírn Jesú á sér djúpar rætur í lífi kirkjunnar. Þegar á 4. öld var í austurkirkjunni haldin sameigi...