01 janúar 2025

1. janúar, stórhátíð Heilagrar Guðsmóður

Stórhátíð heilagrar Maríu guðsmóður er haldin hátíðleg 1. janúar ár hvert, hinn áttunda dag jólatímabilsins. Þessi dagur er helgaður Maríu, móður Jesú Krists, og undirstrikar mikilvægi hennar í kristinni trú sem guðsmóður.

Á Efesusþinginu árið 431, var kenningin um guðlegt móðurhlutverk Maríu staðfest. Þetta var mikilvægt skref í að viðurkenna hlutverk hennar í hjálpræðissögunni. Í tilefni af 1500 ára afmæli þingsins árið 1931 stofnaði Píus XI páfi þennan sérstakan hátíðisdag til heiðurs Maríu guðsmóður, sem hafði þó verið haldinn hátíðlegur frá 7. öld.

Þessi dagur er einnig haldinn heilagur sem alþjóðlegur friðardagur, sem Páll VI páfi stofnaði árið 1968. Þannig sameinast á þessum degi virðing fyrir Maríu guðsmóður og ákall um frið í heiminum.

Í guðspjalli dagsins er sagt frá því þegar hirðarnir heimsóttu Jesúbarnið í jötunni og hvernig María geymdi orð fjárhirðanna í hjarta sínu og hugleiddi þau. Þetta undirstrikar djúpa trú hennar og hlutverk sem móðir frelsarans.

Lúkasarguðspjall leggur áherslu á þátt Maríu sem móður og lærisveins Guðs. Í Lk. 2:19 og 2:51 er María sögð „geyma öll þessi orð í hjarta sínu og hugleiða þau.“ Í Lk. 11:27–28 bendir Jesús á að heilagleiki Maríu kemur ekki einungis til vegna mannlegs móðurhlutverks hennar heldur fyrst og fremst vegna hins djúpa andlega skilnings hennar – með því að heyra Guðs orð og varðveita það. Heilagur andi gegnir lykilhlutverki í þessu sambandi, þar sem kveðja engilsins Gabríels („heyra“) og þungun hennar („varðveita“) marka upphaf hjálpræðisverksins. Líkt og sáttmálsörkin forðum varðveitir hún Orðið, frelsara heimsins í skauti sínu, og með leisögn Andans varðveitir hún á sama hátt orð Guðs í djúpi sálar sinnar og hugleiðir það. Staða hennar í Kristinni trú er því einstök, hún er bæði farvegur náðarinnar og fyrirmynd kristinna.

Stórhátíð heilagrar Maríu guðsmóður minnir okkur á mikilvægi þess að hefja nýtt ár með trú, von og kærleika, með Maríu sem fyrirmynd í trúarlegu lífi okkar. Hún hvetur okkur til að leita friðar og réttlætis í heiminum og að treysta á blessun Guðs í öllu sem við tökum okkur fyrir hendur.

Með ósk um gleðilegt nýtt ár og frið á jörðu /RGB.
https://www.vaticannews.va/en/liturgical-holidays/solemnity-of-mary--the-holy-mother-of-god.html

Heilagur André Bessette

Bróðir André Bessette, fæddur Alfred Bessette árið 1845 í Québec, Kanada, er þekktur fyrir djúpa trú sína og óbilandi þjónustu við aðra. Eft...