27 apríl 2025

Re kardínáli í útför Frans páfa: Hann var hirðir fólksins

Giovanni Battista Re kardínáli


Í predikun sinni við útför Frans páfa minntist Giovanni Battista Re kardínáli, deildarforseti Kardínálaþingsins, á helstu stundir hins tólf ára áhrifaríka og spámannlega páfadóms, sem einkenndist af nánd við fólkið, sérstaklega hina minnstu og útundan settu, og djúpri ást hans á kirkjunni sem hann vildi opna fyrir alla.

Fjöldi fólks kvaddi Frans páfa
Yfir 250.000 manns úr öllum stéttum samfélagsins streymdu á Péturstorg og nærliggjandi svæði snemma á laugardagsmorgninum 26. apríl til að kveðja Frans páfa í útför hans. Um 150.000 aðrir fylgdust með þegar kistu hans var ekið um Rómaborg í hátíðlegri líkfylgd til Maríukirkjunnar miklu (Santa Maria Maggiore) þar sem honum var búin hinsta hvíla.


Nánd og sjálfsafneitun allt til hinstu stundar
Í predikun sinni dró Re kardínáli fram þann sérstaka stíl Frans páfa, sem einkenndist af hlýju við fólkið og einlægum, einföldum gjörðum allt til dauðadags. Hann minnti á að þrátt fyrir veikindi undir lokin hélt Frans áfram að gefa sjálfan sig í þjónustu Guðs og manna í anda hins góða hirðis Krists „Myndin sem lifir í minni okkar er af honum á páskadag,“ sagði kardínálinn, „þegar hann, þrátt fyrir alvarlega heilsufarsörðugleika, veitti blessun sína frá svölum Péturskirkjunnar og kom síðan niður á torgið í opinni bifreið til að heilsa fjöldanum.“

 

Líkfylgd páfa ekur framhjá Colosseum á leið til Santa Maria Maggiore


Andi heilags Frans frá Assisí
Frá upphafi páfadóms síns, með vali sínu á nafni, gaf Frans til kynna að hann vildi móta starf sitt í anda heilags Frans frá Assisí: í einfaldleika, friði, þjónustu og kærleika til allra, einkum hinna minna megandi.

Kirkjan opin öllum, með eyra við tíðarandanum
Frans páfi var, að sögn Re kardínála, „páfi meðal fólksins“, með hjarta opið fyrir öllum, sérstaklega þeim sem stóðu höllum fæti. Hann skildi tákn tímanna og hlustaði á það sem Heilagur Andi vakti í kirkjunni. Með einföldu en áhrifaríku orðfæri sínu reyndi hann ætíð að varpa ljósi á áskoranir samtímans í ljósi visku fagnaðarerindisins. Hann hvatti kristna menn til að lifa samkvæmt trú sinni af hugrekki í breytilegum heimi sem hann kallaði oft „tímamótaskeið.“

Boðunin í fyrirrúmi
Boðun fagnaðarerindisins var ávallt miðlæg í starfi Frans páfa. Þetta má sjá glöggt í postullegri hvatningu hans Evangelii Gaudium, þar sem hann lýsir kirkjunni sem „sjúkrahúsi á vígvellinum“. Hann lagði ríka áherslu á að ná til flóttafólks og innflytjenda, eins og heimsóknir hans til Lampedusa, Lesbos og að landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna sýndu. Á meðal 47 utanlandsferða hans vakti ferðin til Íraks sérstaka athygli, bæði sem hughreysting fyrir þjáðan kristinn minnihluta og sem ákall um bræðralag trúaðra.

Áhersla á miskunn og mannlegt bræðralag 
Kardínálinn minnti einnig á stöðuga áherslu Frans páfa á miskunn, sem birtist meðal annars í því þegar hann lýsti yfir sérstöku Helgiári miskunnarinnar árið 2016. Hann hvatti sífellt til „nálægðarmenningar“ (encounter culture) í stað „firðmenningar.“ (throwaway culture). Í bréfinu Fratelli tutti og sameiginlegri yfirlýsingu í Abu Dhabi árið 2019 undirstrikaði hann mikilvægi mannlegs bræðralags, friðar og samstöðu meðal allra manna.

Málsvari friðar og verndari sköpunarinnar
Í heimi ofbeldis og stríða varð rödd Frans páfa máttug rödd friðar. Hann ítrekaði að „stríð er ósigur mannkynsins.“  Í bréfinu Laudato si’ lagði hann jafnframt áherslu á að allt sé samtengt og á sameiginlega ábyrgð okkar á sköpunarverkinu.


Helgimynd heilagrar Guðsmóður í Santa Maria Maggiore kirkjunni

„Franciscus, bið þú fyrir okkur“
Að lokum minnti kardínálinn á þau orð sem Frans páfi endaði jafnan fundi sína með: „Gleymið ekki að biðja fyrir mér. [og ég mun biðja fyrir ykkur*] “ Nú, sagði hann, þegar Frans páfi hvílir í faðmi Guðs, snúa hinir trúuðu þeirri bæn við:

„Kæri Frans, bið þú fyrir okkur. Blessaðu kirkjuna, blessaðu Róm og blessaðu allan heiminn frá himnum, eins og þú gerðir síðastliðinn páskadag frá svölum Péturskirkjunnar – í kveðju sem var bæði ávarp til allrar Þjóðar Guðs og faðmlag gagnvart þeim sem leita sannleikans af einlægu hjarta og halda vonarkyndlinum hátt á lofti.“

* Eins og kom fram í predikun Davíðs biskups í minningarmessu um Frans páfa í Dómkirkju Krists konungs í Landakoti 22. apríl 2025. 

---

Þessi þýðing og endursögn er byggð á frétt Vatican News:
Cardinal Re at Requiem Mass: Pope Francis, a shepherd of the people, birt 26. apríl 2025. Höfundur: Lisa Zengarini. Fréttina má lesa í heild sinni á: https://www.vaticannews.va/en/pope/news/2025-04/pope-francis-requiem-mass-cardinal-re-homily.html

Séra Jósef J. Hacking - minning 18. ágúst

Séra Jósef J. Hacking - Ljósmyndin birtist upphaflega í Morgunblaðinu árið 1964 í minningargrein séra Páls Pálssonar um séra Jósef J. Hackin...