Úr minningarmessunni. Davíð biskup fyrir miðju altari, séra Jakob til vinstri, séra Patrick til hægri
Reykjavík – 24. apríl 2025
Minningarmessa til heiðurs hinum nýlátna Frans páfa, sem lést þann 21. apríl að morgni annars í páskum, var haldin í Dómkirkju Krists konungs í Landakoti þriðjudaginn 22. apríl kl. 18. Fjöldi trúaðra lagði leið sína í kirkjuna til að votta virðingu sína og minnast þessa þjóns Guðs sem helgaði líf sitt fátækum, friði og kærleika. Davíð Tencer Reykjavíkurbiskup leiddi messuna og predikaði. Í predikuninni minntist hann með hlýju og þakklæti þess tíma er íslenskir hópar pílagríma hittu páfann nú síðast í byrjun febrúar. Íslenski hópurinn var á meðal þeirra síðustu sem hittu páfann áður en hann var lagður inn á spítalann. Hann minnti á að Frans páfi endaði jafnan fundi sína á orðunum „Biðjið fyrir mér og ég mun biðja fyrir ykkur.“ Meðal þeirra sem sóttu messuna voru Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra, Guðrún Karls Helgudóttir biskup Íslands, Halla Tómasdóttir forseti Íslands og Björn Skúlason eiginmaður hennar. Einnig voru viðstaddir messuna meðlimir Mölturiddara, Leikmannareglu Karmels og Leikmannafélags heilags Þorláks. Kór og tónlistarfólk dómkirkjunnar leiddi söng og lék á hljóðfæri undir stjórn organistans Marton Wirth.
Heimildir:
Morgunblaðið: Margmenni í messu til minningar um Frans páfa. mbl.is, 23. apríl 2025: [https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/04/23/margmenni_i_messu_til_minningar_um_frans_pafa/]
Ljósmynd úr minningarmessunni: Rúnar Gerard Ragnarsson.