24 apríl 2025

Jarðneskar leifar Frans páfa fluttar í Péturskirkjuna


Páfagarður / Reykjavík, 24. apríl 2025 – Líkamleifar hins látna Frans páfa voru í gærmorgun fluttar frá Santa Marta-húsinu í Páfagarði og yfir í Péturskirkjuna, þar sem hann mun hvíla opinberlega fram að útför hans á laugardag. Trúaðir safnast nú saman, bæði í Róm til að vera viðstaddir útför páfa, og einnig víðs vegar um heiminn til að votta virðingu sína og minnast þessa þjóns Guðs sem leiddi Kaþólsku kirkjuna með hógværð og hlýju.

Flutningsathöfnin hófst með bæn í kapellu Santa Marta, leidd af Kevin Farrell kardínála og dómkirkjuverði. Þar þakkaði hann fyrir þjónustu páfans og bað um eilífa hvíld hans. Að bænastund lokinni fylgdi skrúðganga að Péturskirkju, þar sem kistunni var komið fyrir við altarið. Sálmasöngur, ritningarlestur og bæn fylgdu í kyrrlátri og virðulegri stemningu.

Kevin Farrell kardínáli, sem fæddist í Dyflinni á Írlandi en gerðist síðar bandarískur ríkisborgari eftir margra ára þjónustu þar í landi, gegnir embættinu camerlengo,  eða dómkirkjuvörður páfastólsins. Hlutverk hans er að hafa yfirumsjón með eignum og veraldlegum réttindum páfastólsins eftir dauða eða afsögn páfa. Meðal skyldna hans er að staðfesta opinberlega andlát páfa, loka skrifstofu og svefnherbergi hans með innsigli og undirbúa útförina. Þá ber hann einnig ábyrgð á verklegum undirbúningi fyrir páfakjör (konklaf), þar á meðal að tryggja trúnað og skipulag í atkvæðagreiðslum.

Útför Frans páfa fer fram laugardaginn 26. apríl kl. 10 á Péturstorgi, undir stjórn Giovanni Battista Re kardínála. Að henni lokinni verður hann jarðsettur í Maríubasílíkunni í Róm.

Heimildir:
Vatican News Pope Francis’ mortal remains carried to St. Peter’s Basilica. Fréttaþjónusta Páfagarðs, 23. apríl 2025: [https://www.vaticannews.va/en/pope/news/2025-04/pope-francis-body-lie-in-state-st-peters-funeral.html]

Minning hinna fyrstu píslarvotta kirkjunnar í Rómaborg - 30. júní

Hinir fyrstu píslarvottar kirkjunnar í Rómaborg. Mynd: ChatGPT Í dag, 30. júní, minnir kirkjan okkur á hina fyrstu píslarvotta kirkjunnar í ...