Eftirfarandi er íslensk þýðing á frétt sem birtist á vef Fréttaþjónustu Páfagarðs nú í morgun (22.4.2025):
Við birtum hér formála sem Frans páfi, heitinn, ritaði 7. febrúar fyrir bók á ítölsku eftir Angelo Scola kardínála, erkibiskup emeritus í Mílanó, með titlinum „Í bið eftir nýju upphafi. Hugleiðingar um ellina“. Bókin kemur út hjá bókaútgáfu Vatíkansins (LEV) og verður fáanleg í bókabúðum frá og með fimmtudeginum 24. apríl.
Eftir Frans páfa
Ég las þessar síður með djúpri hrifningu, síður sem spretta af hugsun og hjartahlýju Angelo Scola, kærs bróður í biskupsþjónustu, sem gegnt hefur viðkvæmum og ábyrgðarfullum hlutverkum í kirkjunni – meðal annars sem rektor Lateran-háskólans, síðar sem patríarki í Feneyjum og loks erkibiskup í Mílanó.
Fyrst af öllu vil ég lýsa djúpu þakklæti mínu fyrir þessa hugleiðingu sem sameinar persónulega reynslu og menningarlega næmni á hátt sem ég hef sjaldan kynnst. Reynslan varpar ljósi á menninguna; menningin gefur reynslunni dýpt. Í þessu gleðilega samspili blómstrar lífið og menningin í fegurð sinni.
Látist ekki blekkjast af því hve bókin er stutt: efnið býður upp á dýpt, er verðugt íhugunar og endurtekins lesturs. Í hugleiðingum Angelo Scola tek ég sérstaklega eftir nokkrum punktum sem kalla sterkt á mína eigin reynslu. Hann talar um ellina – sína eigin elli – með afhjúpandi nánd: „hún kom yfir mig með vaxandi hraða og að mörgu leyti óvænt.“
Jafnvel í orðinu sem hann velur um sjálfan sig – „gamall“ – heyri ég hljómgrunn. Já, við megum ekki óttast ellina, ekki hræðast að takast á við að eldast, því lífið er líf, og að sykurhúða veruleikann er að svíkja sannleikann. Að endurvekja reisn orðs sem oftar en ekki hefur verið talið neikvætt, er gjörð sem við ættum að vera Scola kardínála þakklát fyrir.
Að segja „gamall“ þýðir nefnilega ekki „ónothæfur,“ eins og úrgangsmenningin vill stundum telja okkur trú um. Að segja „gamall“ þýðir í raun: reynsla, viska, þekking, aðgreiningarhæfni, yfirvegun, hlustun, hægð… Gildi sem við þurfum svo sárlega á að halda!
Það er satt að maður eldist, en það er ekki vandinn – heldur hvernig maður eldist. Ef við lítum á þetta æviskeið sem náðartíma, og án gremju í huga; ef við tökum við þessum tíma (jafnvel löngum) þegar styrkur dvínar, líkaminn þreytist og viðbragð okkar er ekki lengur sem í æsku – með þakklæti og auðmýkt – þá verður ellin einnig tímabil lífsins sem, eins og Romano Guardini kenndi okkur, er frjósamt og getur geislað af góðvild.
Angelo Scola undirstrikar mannlegt og samfélagslegt gildi afa og ömmu. Ég hef oft lagt áherslu á mikilvægi hlutverks þeirra í heilbrigðum þroska ungra kynslóða og sem að lokum leiðir til aukins samfélagslegs friðar. Orð þeirra, fordæmi og viska geta gefið ungu fólki sýn til framtíðar, minningar hins liðna og akkerisfestu í varanlegum gildum.
Í ólgu samfélags okkar, sem oft eltir hverfular glansmyndir, verður viska eldra fólks eins og ljós í myrkri – leiðarljós fyrir barnabörn, sem geta sótt „eitthvað aukalega“ í reynslu þeirra til að takast á við verkefni dagsins.
Orðin sem Scola helgar þjáningu – sem gjarnan kemur með ellinni – og dauðanum sjálfum, eru dýrmætir gimsteinar trúar og vonar. Í þessum hugleiðingum bróður míns heyri ég bergmál guðfræði Hans Urs von Balthasar og Jósefs Ratzinger – guðfræðinnar „á hnjánum,“ í samtali við Drottin.
Það er ástæðan fyrir því að ég sagði áður að þessar síður séu sprottnar „af hugsun og hjartahlýju“ Scola kardínála – ekki einungis hugsun, heldur einnig þeirri tilfinningalegu vídd sem kristin trú bendir til, þar sem kristindómur er ekki aðeins vitsmunaleg afstaða eða siðferðilegt val, heldur kærleikur til persónu – Krists sem mætir okkur og kallar okkur vini.
Það eru einmitt lokaorð þessara síðna eftir Angelo Scola – einlæg játning þess hvernig hann undirbýr sig fyrir endanlegan fund við Jesú – sem veitir okkur huggandi vissu: Dauðinn er ekki endir alls, heldur upphaf einhvers. Nýtt upphaf, eins og titill bókarinnar bendir skynsamlega á, því eilífa lífið – sem elskandi manneskja byrjar að lifa hér og nú, í daglegum verkefnum – er upphaf þess sem aldrei lýkur.
Og það er einmitt þess vegna sem þetta er „nýtt“ upphaf, því við munum lifa eitthvað sem við höfum aldrei lifað til fulls áður: eilífðina.
Með þessar síður í höndunum langar mig að ímynda mér að ég endurtaki það sama og ég gerði skömmu eftir að ég klæddist hvíta skrúðanum í Sixtínsku kapellunni: að faðma með djúpri virðingu og kærleika bróður minn Angelo – nú erum við báðir eldri en við vorum í mars 2013 – en enn sameinaðir í þakklæti til þessa elskandi Guðs sem gefur okkur líf og von á hverju skeiði ævinnar.
Vatíkanið, 7. febrúar 2025
--
Heimild: Frans páfi, formáli að bók Angelo Scola, birt á Vatican News 22. apríl 2025. Sjá: [https://www.vaticannews.va/en/pope/news/2025-04/francis-death-is-not-end-of-everything-but-a-new-beginning.html](https://www.vaticannews.va/en/pope/news/2025-04/francis-death-is-not-end-of-everything-but-a-new-beginning.html)
Tengt í mynd á vefsvæði Vatican News: https://www.vaticannews.va/content/dam/vaticannews/agenzie/images/ansa/2025/04/21/20/1745258909811.jpg/_jcr_content/renditions/cq5dam.thumbnail.cropped.750.422.jpeg