Mynd: Fra Angelico* – Upprisa Krists og konurnar við gröfina (um 1440, freska í San Marco-klaustri í Flórens.) Myndin sýnir hinn upprisna Krist mæta konunum við gröfina í ró og dýrð. Engill situr á grafarbrúninni og bendir út úr gröfinni – frá dauða til lífs. Þetta er ekki dramatísk sena heldur róleg hugleiðing um dýrð páskadags. Verkið er að finna í klefa í Dóminíkanaklaustrinu San Marco í Flórens. Þar má finna röð freska, málaðra beint á veggi munkaklefanna, þar sem hver og ein mynd þjónar sem íhugunarefni fyrir þann bróður sem þar dvaldi við bæn og lestur. Í hverjum klefa er aðeins ein mynd – einföld, kyrrlát og andlega hlaðin – oftast af atburði úr lífi Krists. Þær voru ekki ætlaðar sem skraut heldur sem hluti af dýpri trúarlegri vegferð.
Hann er upprisinn – og við munum sjá hann - Íhugun um Matt 28, 8–15. Annar í páskum
Tvær konur, skelfdar og glaðar í senn, hlaupa frá gröfinni. Þær hafa séð engil í leiftrandi birtu og fengið að heyra þau orð sem munu umbylta lífi þeirra. Það fyrsta sem við heyrum í guðspjallinu í dag er: „Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin.“ (Matt 28:8) Áður en þær ná að koma boðunum til skila, mætir Jesús þeim sjálfur: „Allt í einu kemur Jesús á móti þeim og segir: „Heilar þið!“ En þær komu, féllu fram fyrir honum og föðmuðu fætur hans.“ (Matt 28:9) Jesús styrkir konurnar með sínum orðum: „Þá segir Jesús við þær: ,Óttist ekki, farið og segið bræðrum mínum og systrum að halda til Galíleu. Þar munu þau sjá mig.´ “ (Matt 28:10)
Galílea í þessu sambandi er táknræn. Þar hófst allt, þar kallaði hann lærisveinana fyrst, þar hófst boðunin. Nú kallar hann þau (og okkur) aftur þangað – til upprunans, til nýrrar byrjunar. Á sama tíma og konurnar verða vitni að ljósi og lífi, fer annað ferli í gang. Þöggun sannleikans: „Meðan þær voru á leiðinni komu nokkrir varðmenn til borgarinnar og sögðu æðstu prestunum allt sem gerst hafði.“ (Matt 28:11) „En þeir kvöddu saman öldungana og tóku það ráð með þeim að bera mikið fé á hermennina og mæltu við þá: ,Segið þetta: Lærisveinar hans komu á næturþeli meðan við sváfum og stálu honum.´ “ (Matt 28:12–13) „Og ef þetta berst landshöfðingjanum til eyrna skulum við sefa hann svo að þið getið verið áhyggjulausir.“ (Matt 28:14)
Þetta er sama togstreita sem við sjáum enn í dag: Á sama tíma og margir lifa af krafti upprisunnar – með trú, kærleika og von – reyna aðrir að gera lítið úr trúnni, smætta hana eða gera hana að einkamáli. En Jesús stendur ekki bara upp úr gröfinni – hann mætir okkur, segir okkur að óttast ekki og gefur okkur verkefni: Að vitna um lífið.
Eigin spurningar til íhugunar
- Hvaða merki um upprisu hef ég upplifað í eigin lífi? Hef ég kynnst því að vonin sigrar myrkrið?
- Hvar finn ég mína eigin „Galíleu“ – það rými þar sem Jesús vill mæta mér á ný?
- Hvernig get ég orðið trúverðugt vitni upprisunnar í þeim heimi sem oft vill þagga niður slíkan boðskap?
Lokabæn
Drottinn Jesús Kristur, þú sem komst aftur úr dýpsta myrkri dauðans,
upplýstu hjarta mitt með ljósi upprisunnar.
Gef mér hugrekki til að trúa á nærveru þína, jafnvel þegar heimurinn efast.
Lát gleði þína sigra ótta minn.
Lát orð þín – „Óttist ekki“ (Matt 28:10) – óma í sál minni á hverjum degi.
Lát mig finna mína Galíleu, þar sem þú mætir mér.
Og ger mig að vitni um að þú lifir, nú og að eilífu. Amen.
---
Byggt á: https://ocarm.org/en/prayer/lectiodivina
* Fra Angelico (ca. 1395–1455), hét réttu nafni Guido di Pietro,
var sjálfur dominíkanamunkur og einn helsti listamaður
frum-endurreisnarinnar. Hann lifði einföldu lífi íhugunar og málaði að
mestu fyrir trúarbræður sína í San Marco. Stíll hans einkennist af ró,
tærleika og djúpri guðrækni. Jóhannes Páll páfi II tók hann í tölu
heilagra árið 1982 og lýsti verkum hans sem „sönnum samruna listar og
trúar“. Hann er verndardýrlingur kaþólskra listamanna.
Myndin er opinber eign og fengin frá Wikimedia Commons:
https://commons.wikimedia.org/wiki/File:Fra_Angelico_-_Resurrection_of_Christ_and_Women_at_the_Tomb_(Cell_8)_-_WGA00542.jpg