20 apríl 2025

Páskadagur – Jóh 20,1–9 „Hann sá og trúði.“


„Enn var myrkur“ – Upphaf trúarinnar
Guðspjallstexti dagsins er úr Jóhannesarguðspjalli, 20. kafla vers 1-9 og þau má finna á eftirfarandi vefslóð: https://biblian.is/biblian/johannesargudspjall-20-kafli/
Það er merkingarþrungin lýsing sem opnar páskadagsguðspjall Jóhannesar: „svo snemma að enn var myrkur“. Þessi tímasetning er ekki aðeins ytri staðhæfing, heldur innri veruleiki. María Magdalena kemur að gröfinni í birtingu en samt var enn myrkt – þetta myrkur er táknrænt fyrir tilfinningu þeirra sem leita Guðs en skynja ekki nálægð hans.

Jóhannes lýsir ekki upprisunni sjálfri. Hann sýnir okkur ekki ljósgeisla og englaher í hvítum klæðum, heldur tóma gröf, línblæjurnar liggjandi og þrjá einstaklinga sem takast á við óræð tákn um eitthvað sem enginn þeirra skildi: að hann væri upprisinn. Þetta er upprisa sem kemur ekki í stormi, heldur í þögn, í rými vanmáttar og óvissu. Jesús sjálfur birtist ekki strax, því trúin, samkvæmt Jóhannesi, fæðist ekki af því einu að horfa á, heldur að taka við orði og tákni, og treysta þeim.

Trúin sem vaknar í tóminu
Þau eru þrjú sem koma að gröfinni: María, Pétur og hinn lærisveinninn sem Jesús elskaði. María sér að steininum er velt frá og dregur þá ályktun sem flestir hefðu dregið: „Þeir hafa tekið Drottin úr gröfinni.“ Hún telur að brottnámið sé óvirðing við hinn látna – annað áfall í kjölfar krossfestingarinnar. Hún veit ekki enn að þessi fjarvera er ekki afleiðing óvirðingar heldur sjálfur sigur lífsins yfir dauðanum.

Pétur og hinn lærisveinninn hlaupa til grafarinnar. Sá síðarnefndi kemur fyrst, en bíður. Það er táknrænt: elska hans við Jesús heldur aftur af honum í lotningu. Pétur fer inn, sá sem féll en fékk fyrirgefningu, og skoðar vandlega. Síðan fer hinn lærisveinninn inn – og þar kemur vendipunkturinn: „hann sá og trúði.“

Hann sér ekkert annað en hina tómu gröf. En það er nóg. Þetta er hin innri sýn trúarinnar, sá sem sér ekki aðeins efnislegan veruleika heldur leyndardóm lífsins í gegnum táknin sem Guð gefur.

Upprisan og trúin: ekki sýn heldur túlkun
Það sem vekur athygli er hvernig mismunandi forngrísk sagnorð eru notuð fyrir „að sjá“ í textanum. Þau eru afar mikilvæg til að skynja dýpt frásagnarinnar, því þau gefa til kynna stigvaxandi skilning eða trú í gegnum „að sjá“:
- María blepein – hún sér yfirborð hluta;  
- Pétur theōrein – hann horfir með gagnrýninni athugun;  
- Lærisveinninn idein – hann „sér“ með innsýn, með skilningi sem leiðir til trúar.

Þessi blæbrigði í grískunni sýna hvernig frásögn Jóhannesar er ekki bara lýsing á sjónrænum atburði, heldur andlegri vakningu – frá því að sjá hlutina utanfrá, í gegnum íhugun og yfir í trú sem fæðist í tóminu. Stigmögnunin lýsir þróun andlegs lífs. Það er hægt að dvelja við yfirborðið – eða nálgast djúpið. Trúin er ekki blindur skilningur, heldur opnun fyrir því sem efnislegir hlutir geta miðlað þegar þeir vísa út fyrir sjálfa sig – eins og línklæðin sem benda ekki á látinn líkama, heldur á sigur lífsins yfir dauðanum.

Fjarvera sem kallar fram trú
Það merkilegasta við guðspjall dagsins er að Jesús sjálfur kemur ekki fram. Hann birtist ekki – ekki enn. Fyrsta trúin í frásögn guðspjallsins verður til án Hans. Hún verður til í skugga, í myrkri, í fjarveru.

Það getur verið óþægileg reynsla að lifa í því rými þar sem Guð virðist fjarverandi. En kannski er það einmitt þar sem trúin fæðist raunverulega. Ekki sem tilfinningaleg fullvissa, heldur sem opnun fyrir lífinu sem brýst fram þar sem við bjuggumst við engu nema dauðanum sjálfum.

---

Bæn
Upprisni Drottinn,  
Þú kemur ekki í ógnarkrafti og ljósblossa,  
heldur í hinni hljóðu dögun.  
Þar sem við eigum ekki von á þér, ertu nærri.  
Þar sem við sjáum tóm, þar er lífið komið í ljós.

Kenn mér að sjá með augum trúarinnar,  
ekki aðeins að horfa heldur að sjá og skilja.  
Að taka á móti hinum hljóðu táknum sem vitna um nýjan veruleika.  
Að treysta því sem fæðist í þögn og bíður í myrkri.

Gef mér að þekkja þig, jafnvel þegar þú birtist ekki.  
Að elska þig, jafnvel í tómleika.  
Að þjóna þér, jafnvel þegar gleðina vantar.

Þú sem reisir upp hið fallna og opnar gröf óttans –  
ríktu í hjörtum okkar og leiddu okkur til ljóssins sem skín á páskadagsmorgni.  

Amen.

Mynd: Upprisinn Kristur – mósaík eftir Nínu Tryggvadóttur í Skálholtsdómkirkju. 
Sjá mynd á heimasíðu Skálholts:  https://www.skalholt.is/en/altaristafla

Séra Jósef J. Hacking - minning 18. ágúst

Séra Jósef J. Hacking - Ljósmyndin birtist upphaflega í Morgunblaðinu árið 1964 í minningargrein séra Páls Pálssonar um séra Jósef J. Hackin...