Statio – Inngangsbæn
„Kom þú, sem hvílir sálina,
gestur sem gleður hjartað.
Kom og tak frá mér allt mitt eigið,
og fyll mig af öllu sem er þitt.
Kom, þú fæða sérhverrar hreinnar hugsunar,
uppspretta miskunnar,
uppistaða alls hreinleika.
Kom og brenndu burt allt í mér
sem hindrar mig frá því að vera þinn.“
(Heil. María Magdalena de’ Pazzi, Karmelnunna)
Guðspjall dagsins – Jóh 18,1–19,42
Á föstudeginum langa lesum við hina miklu píslarfrásögn heilags Jóhannesar guðspjallamanns. Hægt er að nálgast textann í heild sinni í Netbiblíunni: [https://biblian.is/biblian/johannesargudspjall-18-kafli/] og [https://biblian.is/biblian/johannesargudspjall-19-kafli/]
Jesús, konungur á krossinum
Í frásögn heilags Jóhannesar guðspjallamanns er Jesús ekki aðeins fórnarlamb heldur Drottinn atburðanna – hann gengur til móts við þjáninguna með opnum huga og hjarta. Hann færist ekki undan, heldur „vissi allt sem yfir hann mundi koma“ (18,4) og fer sjálfviljugur til fundar við handtökuliðið. Þegar hann segir: „Ég er hann“ (gríska: – „Ég er“), þá færist hópurinn undan og fellur til jarðar. Þetta er ekki aðeins tákn um vald hans – heldur opinberun hinnar dýpstu sjálfsmyndar Jesú: Ég er, sama nafn og Guð opinberaði Móse í hinum logandi runna. (2 Mós 3,14).
Heilagur Jóhannes sýnir með skýrum hætti að Jesús hefur stjórn á öllum aðstæðum. Hann neitar ekki krossinum – hann tekur við bikarnum frá Föðurnum. Hann afsalar sér ekki reisn – heldur ber kórónu (þyrnikórónu), skrýddur purpurakápu. Hann situr í dómarasæti – jafnvel Pilatus virðist ómegnugur að dæma, og Jesús áminnir hann að allt vald kemur að ofan (19,11).
Krossinn sem brúðkaup – fæðing kirkjunnar
Við krossinn er Jesús brúðgumi og kirkjan verður til. Jóhannes lætur Maríu, móður Jesú, og hinn elskaða lærisvein standa undir krossinum (19,25). Þar mælir hann þessi orð: „Kona, nú er hann sonur þinn.“ Síðan sagði hann við lærisveininn: „Nú er hún móðir þín.“ (19,26-27)
Þarna er ekki aðeins um að ræða áhyggjuefni fjölskyldu við dauðastund – heldur opinberar Jesús nýtt samfélag, nýjan líkamlegan og andlegan veruleika: Kirkjuna. María verður móðir hins nýja samfélags og lærisveinninn fulltrúi allra sem elska Jesús og halda sig við hann. Þar og þá tekur kirkjan við þar sem andi Krists er gefinn: „Þá hneigði hann höfuðið og gaf upp andann“ (19,30).
Jóhannes lætur ekki hjá líða að nefna að „blóð og vatn“ streymdi úr síðu Krists (19,34) – og kirkjufeðurnir sáu í þessu Skírnina og Altarissakramentið, hjarta og líf kirkjunnar. Þarna er kirkjan opinberuð sem komin út úr síðu hins nýja Adams – rétt eins og Eva kom úr síðu hins fyrsta manns. Fæðing í blóði og vatni, fyrir anda og kærleika.
Álengdar eða við krossinn? – Andstæða sem opinberar djúpa trúfesti
Það sem vekur sérstaka athygli er hvernig Jóhannesarguðspjallið greinir sig frá hinum guðspjöllunum í lýsingu á viðveru vina Jesú við krossinn. Guðspjallamennirnir hl. Matteus, hl. Markús og hl. Lúkas segja allir að konurnar og lærisveinar hafi verið „álengdar“, að fylgjendur Jesú stæðu í fjarlægð og horfðu á. Orðið sem notað er í grískunni merkir bókstaflega að vera í fjarska, utan við sjálfa atburðarásina – líkamlega og andlega. En hl. Jóhannes segir einfaldlega og með þunga: „En hjá krossi Jesú stóðu“ (Jóh 19,25). Þeir sem voru þar voru ekki aðeins til staðar – heldur tóku sér stöðu, sýndu samstöðu. Þeir hrukku ekki undan, þeir hörfuðu ekki. Þeir voru við krossinn, í myrkrinu og þjáningunni, ekki til þess að skilja heldur til að sýna kærleika. Þeir stóðu eins og þjónar hjá konungi sínum, eða eins og brúður hjá brúðguma sínum.
Það er ekki lítil dygð. Að standa við krossinn krefst hugrekkis, trúar og vonar. Þeir sem standa við krossinn verða vitni að því sem Jesús segir sjálfur: „Það er fullkomnað“ (19,30). Þarna er „stundin“ runnin upp – sú sem María heyrði nefnda í Kana: „Minn tími er ekki enn kominn“ (Jóh. 2,4). Nú er hún komin – og María er þar enn.
Þessi viðstaða – að standa undir krossinum – er ekki aðeins líkamleg staðsetning heldur trúarleg afastaða. Hún táknar að vera til staðar í návist hins heilaga á augnabliki mesta myrkurs. Hún er í senn staðfesting á vináttu og þátttöku í þeirri fæðingu sem á sér stað á krossinum – fæðingu kirkjunnar sjálfrar. Þannig kallar Jóhannes okkur til að spegla okkur ekki aðeins í hinum elskaða lærisveini – heldur í þeirri djúpu trúfesti og hugrekki sem felst í því að vera þar, jafnvel þegar allt virðist vera að enda.
Við sem hinir elskuðu lærisveinar
Jóhannes gefur hinum „elskaða lærisveini“ ekki nafn. Hann er hulinn – því hann er fulltrúi okkar allra. Hann er hver sú eða sá sem elskar Jesú, hlustar á hann og stendur með honum í myrkrinu. Við megum sjá okkur sjálf í spegli hans. Við megum líta á krossinn og heyra orðin: „Þetta er móðir þín.“ og „Þetta er sonur þinn.“
Oratio – Bæn
„Ó eilífa viska, ó mæti kærleikur,
ljós sannleikans – lýstu okkur!
Láttu vilja þinn fylla þá sem þú hefur kallað
til að vinna að endurnýjun kirkjunnar.
Jesús, Jesús kærleikur – umbreyttu okkur,
gerðu okkur lík þér.“
(Heil. María Magdalena de’ Pazzi Karmelnunna)
Contemplatio – Kyrr stund
Í dag má endurtaka oft í hjartanu þessi orð:
„Faðir, í þínar hendur fel ég anda minn.“ (Lúk 23,46)
---
Byggt á: https://ocarm.org/en/prayer/lectiodivina
Ljósmyndin er af altaristöflu Gaulverjabæjarkirkju í Flóa. Hún er merkt ártalinu 1775, skorin út og máluð af Ámunda Jónssyni smið. Taflan var endurmáluð um 1909 af Eyjólfi J. Eyfells. Taflan er þrískipt, í miðju eru útskornar myndir af krossfestingu Krists með Maríu og Jóhannesi beggja vegna við krossinn. Á fótstalli krossins stendur: Haf þú í minni Jesum þann krossfesta ~ etc.