13 maí 2025

Birtingar heilagrar Maríu meyjar í Fatíma í Portúgal– kraftaverk, köllun og vernd


13. maí er minningarhátíð heilagrar Maríu meyjar í Fatíma í Portúgal. Þá er þess minnst að hinn 13. maí 1917 birtist María mey þremur börnum. Það var upphaf atburðarásar sem átti eftir að breyta lífi milljóna manna. Í dag minnist kirkjan þessarar opinberunar sem kallaði kristna menn til iðrunar, bænar og sérstakrar fyrirbænar fyrir Rússlandi.

Hvar er Fatíma?

Fatíma er lítið þorp staðsett í miðhluta Portúgals, um 130 km norður af Lissabon. Þrátt fyrir að hafa verið óþekkt áður en opinberanirnar áttu sér stað, hefur það síðan orðið einn mikilvægasti pílagrímsstaður kaþólskra í Evrópu. Þar er nú mikill helgidómur, Santuário de Fátima, sem dregur að sér mikinn fjölda gesta ár hvert. 


Birtingarnar í Fatíma
Birtingarnar í Fatíma áttu sér stað sex sinnum, 13. hvers mánaðar frá maí og þangað til í október 1917. Vitnin voru þrjú börn: Lúsía dos Santos (fædd 1907) og frændsystkin hennar, Frans og Jasinta Marto, sem bæði létust ung. María opinberaði þeim boðskap um synd, iðrun og nauðsyn bæna og fórna fyrir syndara. Skilaboð Maríu voru einföld, en krefjandi: að iðrast af hjarta, biðja rósakransinn daglega og leggja sitt af mörkum til að frelsa sálir frá glötun. Þau börn sem urðu vitni að þessu báru það af mikilli alvöru – og orð þeirra urðu til þess að þúsundir manna tóku að streyma til Fatíma.

Sérstök beiðni um Rússland
Eitt af mikilvægum atriðum í skilaboðum Maríu var beiðni hennar um að páfinn vígði Rússland Hinu flekklausa hjarta Maríu. Hún sagði að ef það yrði gert í einlægni og sameiningu, myndi Rússland snúa frá villu síns vegar og friður koma yfir heiminn. Ef ekki, myndi Rússland „dreifa villukenningum sínum um heim allan“ og kalla yfir heiminn stríð og ofsóknir gegn kirkjunni. Þessi bæn var síðar tekin mjög alvarlega af kirkjunni og varð þáttur í trúarlífi páfanna. Frans páfi fór tvisvar sinnum til Fatíma svo dæmi sé tekið. (1)

Kraftaverk sólarinnar
Þessi frásögn um Maríu mey frá Fatíma hefði aldrei náð langt og væri líklega gleymd af flestum ef ekki hefði komið til ótrúlegt undur. Þann 13. október 1917, í síðustu opinberuninni, hafði mikill mannfjöldi safnast saman við Cova da Iria. Þrátt fyrir hellirigningu sást hvernig sólin virtist dansa á himni, sveiflast og skipta um lit, áður en hún hvarf og birtist á ný. Þetta atvik varð kunnungt sem kraftaverk sólarinnar, og er eitt þekktasta undur 20. aldar sem tugþúsundir voru vitni að. Myndir frá þessum atburði er víða að finna á netinu.

13. maí 1981 – tilræðið við páfann

Einmitt á þessum degi, 13. maí 1981, var skotið á  Jóhannes Pál II páfa á Péturstorginu í Róm. Kúlur hæfðu hann en hann lifði af. Eftir aðgerð kom í ljós að ein kúla hafði farið mjög nærri hjartanu, en beygði lítillega þannig að hún rauf hvorki hjarta né mikilvægar æðar. Læknar sögðu að það væri kraftaverki líkast að hann hafi lifað af. Sjálfur sagði páfinn síðar: „Ein hönd skaut, önnur leiðbeindi kúlunni.“ Með því átti hann við að mannleg hönd hefði skotið, en María mey í Fatíma hafi verndað hann með því að beina kúlunni frá banvænum skaða. Árið eftir fór hann sjálfur í pílagrímsferð til Fatíma, og síðar lét hann setja eina kúlu úr tilræðinu í kórónu Maríustyttunnar í helgidóminum þar.
 

Þögul köllun til okkar tíma
Birtingarnar í Fatíma eru áminning um þörfina fyrir bæn, fyrirgefningu og frið – á öllum tímum. Þegar við minnumst þessara atburða, megum við líka hugleiða eigið líf og hvernig við getum brugðist við þeirri köllun sem María mey bar fram: Að elska Guð, iðrast syndanna og biðja fyrir heiminum.

Bæn til Maríu meyjar í Fatíma
María, móðir Jesú og móðir okkar, þú sem birtist í Fatíma til að kalla heiminn til iðrunar og friðar, kenndu okkur að treysta á kærleika Guðs og segja eins og þú: "Verði mér eftir orði þínu." Hjálpa okkur að biðja rósakransinn með trú og kærleika, og leið okkur nær Syni þínum, Jesú Kristi. Amen.

---

(1) https://www.vaticannews.va/en/pope/news/2023-07/pope-francis-portugal-fatima-second-visit-peace-ukraine.html

Heilög María mey frá Karmelfjalli – verndardýrlingur Karmelreglunnar 16. júlí

Heilög María mey frá Karmelfjalli. Mynd: ChatGPT Hátíð Maríu meyjar frá Karmelfjalli er aðalhátíð Karmelreglunnar og sterk áminning um að vi...