14 maí 2025

Heilagur Matthías postuli – hátíð 14. maí

Heilagur Matthías postuli í Trier, mynd í stíl glerlistaverks eftir ChatGPT

Í dag, 14. maí, minnist kirkjan heilags Matthíasar postula, sem valinn var í stað Júdasar Ískaríots til að „..gerast vottur upprisu Hans ásamt okkur.“ (Post 1,22). Hann var einn af þeim sem fylgdu Jesú frá upphafi, þótt hann sé ekki nefndur meðal hinna tólf í guðspjöllunum. Eftir uppstigningu Drottins ákváðu postularnir að fylla tóma sætið í hópi þeirra tólf. Með bæn og hlutkesti féll valið á Matthías, sem þá varð einn af postulunum í eiginlegri merkingu.

Hefðin segir að Matthías hafi prédikað fagnaðarerindið meðal annars í Júdeu og síðar á Kákasussvæðinu (í Georgíu eða Armeníu) en hafi liðið píslarvætti. Bein hans voru að sögn flutt til Trier í Þýskalandi á 4. öld, og þar eru þau varðveitt í klausturkirkjunni St. Matthias’ Abtei. Þannig er hann eini postuli Krists sem er grafinn norðan Alpafjalla, sem gerir staðinn að merkum pílagrímastað í Evrópu. En eins og kunnugt er,  er Trier steinsnar frá Luxemburg, vinsælum viðkomustað landans á síðustu öld, sérstaklega vegna þess að þar var miðstöð flugs frá Íslandi.


„Drottinn, þú sem þekkir hjörtu allra. Sýn þú hvorn þessara þú hefur valið“
 – Post 1,24

Hátíð heilags Matthíasar minnir okkur á mikilvægi trúmennsku í verki og trú, þótt lífið sé ekki allt fyrir opnum tjöldum. Guð kallar ekki alltaf hina frægustu – en hann kallar þá sem tilbúnir eru að bera vitni.
 

Pílagrímar við gröf postulans – minning frá 1989
Hér segir frá litlum hópi pílagríma sem áttu helgistund við gröf postulans í Trier árið 1989: Við héldum sem leið lá að Matthíasar- dómkirkjunni og lentum í rétt passlegum villum, ókum í nokkra hringi en skyndilega vorum við fyrir framan kirkjuna. Þegar við gengum inn í portið sló klukkan átta. Séra Jakob hafði mælt sér mót á þeim tíma við munkinn sem sá um skrúðhúsið. Hann tók á móti okkur með hógværu fasi. Hann hrósaði okkur ekki fyrir stundvísi en hefði mátt gera það, hefur sennilega tekið því sem sjálfsögðu að við kæmum á slaginu.  Í ró og helgi sat hópurinn í hálfhring fyrir framan gröf postulans. Þar hélt sr. Jakob heilaga messu fyrir hópinn og minnti á þá djúpu trú sem lifað hefur í hjörtum pílagríma í gegnum aldirnar.

Í Matthíasarkirkjunni er sérstök kapella helguð Maríu Guðsmóður. Þar hékk á vegg glæsilegt listaverk frá því um 1700 sem sýnir þungaða meymóðurina íhugandi guðdóm Jesú sem hún ber innra með sér. Myndin hefur fengið nafn sitt úr Maríulitaníu kirkjunnar en það er „móðir viskunnar.“ En eitt af mörgum  nöfnum Jesú er „hin eilífa viska“.  (Mater Sapientiae).

María mey móðir viskunnar. Eftirmynd helgimyndar í 
dómkirkju heilags Matthíasar postula í Trier í Þýskalandi.

Þessi heimsókn varð sumum þátttakendum ógleymanleg. Hún tengdi íslenska trúararfleifð við djúpar rætur alheims kirkjunnar – og staðfesti þá sannfæringu að í einföldum, kyrrlátum stundum er hægt að eiga stefnumót við heilagleikann.


Heilög María mey frá Karmelfjalli – verndardýrlingur Karmelreglunnar 16. júlí

Heilög María mey frá Karmelfjalli. Mynd: ChatGPT Hátíð Maríu meyjar frá Karmelfjalli er aðalhátíð Karmelreglunnar og sterk áminning um að vi...